22.01.1980
Neðri deild: 22. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

68. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég tek boði forseta og mun ræða þessi bæði mál í einu lagi.

Hér er um mál að ræða sem varðar þær umr. sem nú fara fram um fiskverð, mjög mikilvægar umr., en ákaflega viðkvæmar jafnframt. Það er sjálfsagt og eðlilegt að sjómenn fái fiskverðshækkun eftir þær hækkanir sem aðrir hafa fengið. Hins vegar er jafnframt nauðsynlegt að þeirri ákvörðun fylgi sem minnst röskun eða breyting á gengi og fiskkaupendum verði gert sem auðveldast að mæta þeirri fiskverðshækkun á annan hátt. Við framsóknarmenn munum engan veginn standa gegn því, að samkomulag náist, en vinna að framgangi þeirra mála sem að slíkur stuðla og lögð verða fyrir Alþingi.

Hins vegar vil ég taka undir það, sem kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni, að það er að sjálfsögðu annmarki á meðferð þessa máls að myndin liggur ekki öll fyrir. Okkur er öllum ljóst að fleiri ákvarðanir þarf að taka en þær tvær sem felast í þessum tveimur frv., t.d. um olíugjaldið sem hér hefur verið nefnt, og væri æskilegt að fá upplýsingar um það. Ég hygg að það yrði mjög til að greiða fyrir framgangi þessara mála ef sjútvrh. gæti fyllt nokkuð inn í þessa heildarmynd, annaðhvort núna eða í viðræðum við sjútvn. þegar hún fær málin til meðferðar.

Um þau mál, sem hér liggja fyrir, og þær breytingar, sem þar er lagt til að gera, skal ég vera stuttorður. Mér sýnist sú hugmynd, sem þarna kemur fram um aflajöfnunardeild, athyglisverð að ýmsu leyti og tel að lengi geti verið þörf á slíku tæki til að dreifa eða breyta sókn í fiskstofna, eins og þarna er ætlunin. Hins vegar orkar ætíð nokkuð tvímælis þegar slíkt er gert af opinberum aðilum. T.d. er ljóst að afkoma útgerðarinnar nú er nokkuð misjöfn. Afkoma togaraflotans er stórum betri en bátaflotans, svo að segja má að um nokkra skattlagningu á bátaflotann sé að ræða. Sömuleiðis hefur mér skilist að vart muni vera ástæða til að auka sóknina mjög í ufsastofninn. Hann mun vera nálægt því fullnýttur og spurning hvort það beri að gera nú. En þetta er atriði sem að sjálfsögðu verða rædd í sjútvn.

Ég ætla að hafa fá orð um málið, eins og ég sagði áðan, en legg áherslu á að fá fyllri upplýsingar, ef þær liggja fyrir, og sérstaka áherslu á að leitað verði eftir samkomulagi um fiskverð þannig að gengisbreyting á eftir verði sem minnst. Við þekkjum öll þá kollsteypu sem slíkt hefur í för með sér fyrir efnahagslífið og er engum til góðs.