22.01.1980
Neðri deild: 22. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (533)

68. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð, þar sem ég er tímabundinn og þarf að hverfa af þingfundi, sem svar við þeirri fsp. sem hv. 1. þm. Vestf. beindi til mín áðan.

Það var á sínum tíma niðurstaða lögfræðinga fjmrn., eftir athugun sem ég bað um að þeir gerðu, að minnihlutastjórn Alþfl., sem þá var orðin starfsstjórn, bæri stjórnskipuleg skylda til að leggja fram fjárlagafrv. í upphafi þings, án tillits til þess, hversu langur eða skammvinnur ferill slíkrar stjórnar yrði, og án tillits til þess, hvort hún hefði stuðning við það fjárlagafrv. sem hún legði fram. Var fjárlagafrv. lagt fram í upphafi þessa þings til að fullnægja þeirri stjórnskipulegu skyldu og enn fremur gagnaðist frv. sem vinnuplagg fyrir fjvn., þó svo að það lægi að sjálfsögðu ekki ljóst fyrir, þegar frv. var fram lagt, hvort nokkur þingmeirihluti gæti myndast á Alþ. um ýmis meginatriði þess.

Um lánsfjáráætlun gegnir nokkuð öðru máli. Það hvíldi ekki á ríkisstj. stjórnskipuleg skylda um framlagningu lánsfjáráætlunar, og þó að eigi að leggja lánsfjáráætlun fram með fjárlagafrv. hefur oft verið misbrestur á því. Hins vegar hefur af hálfu ríkisstj. verið unnið að gerð lánsfjáráætlunar og haldið áfram þeirri vinnu sem hafin var af fráfarandi ríkisstj. og fyrrv. hæstv. fjmrh. Það starf er langt komið. Út af fyrir sig væri fljótlegt að ljúka því sem eftir er, þannig að lánsfjáráætlun væri hægt að leggja fyrir þingið. Ég hef hins vegar talið miklu ákjósanlegra og æskilegra að það yrði ekki gert fyrr en meirihlutaríkisstj. væri komin til valda, þannig að um leið og lánsfjáráætlun væri sýnd þeim, sem þar hefðu hagsmuna að gæta, gefinn talsvert ríkari ádráttur en við getum gefið um að þeir mættu a.m.k. treysta nokkurn veginn á að þingið mundi fallast á þær framkvæmdir sem lánsfjáráætlun gerði ráð fyrir. Ef ekki verður unnt að leysa úr stjórnarkreppunni .mjög fljótlega er mér þó alveg ljóst að þingið þarf að fá lánsfjáráætlun sem vinnuplagg, þó svo sá galli sé á að aðilar í þjóðfélaginu, sem hafa hagsmuna að gæta, geti að sjálfsögðu ekki treyst á að þingið afgreiði eins og minnihlutaríkisstj. leggur til ýmis meginatriði í slíkri lánsfjáráætlun. Ef svo fer að umtalsverður tími líður án þess að meirihlutastjórn myndist hér, sem ég vona að verði ekki, getur svo farið að mér verði nauðugur einn kostur að leggja fram lánsfjáráætlun, a.m.k. svo að þingið geti haft eitthvert vinnuplagg við að styðjast í umfjöllun sinni um lánsfjármál. Þeim undirbúningi er svo langt komið af hálfu ríkisstj. að út af fyrir sig er ekki erfitt að ljúka honum á tiltölulega fáum dögum svo hægt sé að leggja fram áætlun.