22.01.1980
Neðri deild: 22. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

69. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég mun að sjálfsögðu notfæra mér það hagræðingaratriði að stikla fram og aftur, eins og aðrir hafa gert, og sjálfsagt hefði verið þægilegra að mæla fyrir báðum frv. í einu.

Það frv., sem hér liggur fyrir, varðar Aflatryggingasjóð og má lita á það frekar sem meginefni beggja frv., sérstaklega stofnun aflajöfnunardeildar við sjóðinn. Hugmyndin er að marka skýran farveg fyrir greiðslu verðuppbóta á einstakar fisktegundir í því skyni að með þeim hætti sé unnt að beina sókn fiskiskipaflotans frá einstökum fisktegundum og í aðrar sem fremur eru taldar þola veiðar. Ég tel að reynslan á s.l. ári af verðuppbótunum hafi sýnt að hér sé um mikilvægt stjórntæki að ræða sem þess vegna sé eðlilegt að festa í skýrum, sérmörkuðum farvegi. Ég vil láta í ljós ánægju mína með þær undirtektir sem það hefur fengið í ræðum þeirra sem talað hafa hér á undan. Hinu geta menn auðvitað velt fyrir sér, hversu varanlega aðgerð eigi hér að vera um að ræða. Ég hyllist til þess, að í náinni framtíð muni hér verða um stjórntæki að ræða sem sé nauðsynlegt og muni vera til mikilla bóta. Hitt er annað mál, að það kann að vera góð regla að hafa gildistíma laga takmarkaðan, e.t.v. svo sem 5 ár eða eitthvað slíkt, til þess að Alþ. einmitt taki málið upp að nýju hverju sinni. Þessi regla ætti þá reyndar að gilda almennt til þess að líta á hvort tilgangur viðkomandi lagasetningar og aðstæður í þjóðfélaginu fari saman á þeim tíma. Sannleikurinn er auðvitað sá, að það er ævinlega hætta á að lög verði úrelt og séu í gildi án þess að þau svari til tilgangs síns. Við höfum um slíkt ýmis dæmi.

Frv. það, sem hér er flutt, er enn fremur flutt í því skyni að greiða fyrir ákvörðun fiskverðs frá 1. janúar, þar sem framhald verðuppbóta á vannýttar tegundir kemur inn í þá mynd. Ég vil sérstaklega minna á að við ákvörðun fiskverðs frá 1. júlí, sem þá var tekin með samkomulagi allra aðila í yfirnefnd Verðlagsráðs sjávarútvegsins, var ákveðið að greiða sérstaka verðuppbót á ufsa- og karfaverð. Áður höfðu farið fram viðræður við ríkisstj. af hálfu aðila í Verðlagsráði um slíkar ráðstafanir, og lög voru sett um það efni.

Frv., sem hér liggur fyrir, hefur verið til umfjöllunar á tveimur vettvöngum, eins og sagt er, þ.e. annars vegar í sérstakri aflatryggingasjóðsnefnd og hins vegar í yfirnefnd Verðlagsráðs sjávarútvegsins. Aflatryggingasjóðsnefndin hefur mælt eindregið með frv. í þessum búningi. Í henni áttu sæti: Jón Sigurðsson, formaður, Jakob Jakobsson fiskifræðingur, Hrafnkell Ásgeirsson lögfræðingur, Kristján Ragnarsson formaður LÍÚ, Óskar Vigfússon formaður Sjómannasambands Íslands, Ingólfur Ingólfsson fyrrv. formaður Farmanna- og fiskímannasambandsins, Jón Páll Halldórsson útgerðarmaður á Ísafirði, Már Elísson fiskimálastjóri, Vilhelm Þorsteinsson framkvæmdastjóri á Akureyri og Ólafur Björnsson útgerðarmaður í Keflavík, sem reyndar var fjarstaddur þegar þetta mál var afgreitt. Nm. voru sammála um að mæla með flutningi þessa frv. Sú afstaða er byggð á því, að hér sé um skynsamlegt nýmæli að ræða, að hér sé um skynsamlega stefnumörkun að ræða. En hún er líka byggð á því, að lagasetningin breyti ekki fjárhæð framlaga úr ríkissjóði til hinnar almennu deildar Aflatryggingasjóðs, eins og tekið er fram í álitsgerð nefndarinnar.

Í frv. felst skipulagsbreyting. Að hluta til er hún til staðfestingar á orðnum hlut, þar sem er sameining almennu bátadeildarinnar og deildar togaraflotans og tillögur um að felld verði úr gildi ákvæði um jöfnunardeild sjóðsins og hlutverk, en við hlutverki hennar taki almenna deildin. Hins vegar skal stofnuð ný deild við sjóðinn, aflajöfnunardeild. Kveðið er á um með hvaða hætti hún skuli starfa. Ákvæði eru um ákvörðun verðuppbóta á hverju verðtímabili. Gert er ráð fyrir að Verðlagsráðið eða yfirnefnd þess ákveði bótafjárhæð innan þeirra marka sem tekjur deildarinnar hrökkva til, en sjútvrh. staðfesti þessar ákvarðanir. Ákvarðanirnar séu hins vegar teknar að fengnu áliti um sóknarþol í hina ýmsu fiskstofna.

Þetta eru meginatriði frv. Ég vil svo víkja aðeins að nokkrum atriðum sem komu fram áðan.

Það er vissulega rétt að það eru fleiri mál í deiglunni sem snerta fiskverðið, enda hefur það komið fram í málflutningi mínum hér. Það er sérstaklega spurt eftir frv. um olíugjald. Ég er að vona að það geti komið fljótlega fyrir d. Ég skal þó ekki segja hvort það yrði á morgun eða svo, eins og einn þm. orðaði það hér á undan mér. En ég er að sjálfsögðu reiðubúinn að sjá til þess, að sjútvn. fái þau gögn sem nauðsynleg eru til að móta viðhorf sín til þessara mála, og hvet til þess að hún kalli þá til líka þá aðila sem þetta varðar sérstaklega, þ.e. aðila úr greininni og úr þeim nefndum sem hafa lagt drög að þeim frv. sem hér liggja fyrir.

Það var minnst á nafnið aflajöfnunardeild. Það má sjálfsagt lengi deila um hvað sé rétt nafn á hlutunum. Hugsunin að baki þessu nafni er auðvitað sú, að hér sé um að ræða jöfnun aflans milli fisktegunda, það sé verið að dreifa aflanum eða jafna honum á fisktegundir. Það er beinlínis verið að beina sókn úr einni tegund í aðra. Hvernig það fellur að málsmekk einstakra manna getur auðvitað verið misjafnt.

Um gengismálin, sem hér var aðeins minnst á, vil ég að sjálfsögðu láta í ljós þá von að ekki þurfi að koma til mikillar gengisbreytingar, eða gengissigs af þessu tilefni, en áður en séð er fyrir endann á málinu verður ekki um það fullyrt.

Ég held svo að menn eigi að íhuga hvort Aflatryggingasjóður gegni ekki einmitt hlutverki sínu mjög vel með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., og að þær aðgerðir, sem gripið er til til að greiða verðuppbætur eða aflajöfnunarbætur, muni þá koma í veg fyrir að greiða þurfi bætur af öðru tagi úr sjóðnum og þess vegna sé hér um raunverulega kjaratryggingu að ræða, þar sem kannske er þá farið frekar eftir þeirri aðferðinni að sjá til þess, að ekki þurfi að greiða bætur vegna fiskileysis, og stuðlað sé að sem skynsamlegastri nýtingu fiskstofnanna. Auðvitað getur mönnum verið eftirsjá að því að fjármunir fari úr einni deild í aðra, en í heild er ekki um að ræða skerðingu á Aflatryggingasjóðnum samkv. þessu frv. og virðist séð fyrir þeirri fjárþörf sem miðað er við. Hins er svo að vænta, að menn geti haft mismunandi skoðanir á ýmsu sem kemur fram í þessu frv.

Ég vil að lokum láta í ljós sérstaka ánægju með þau jákvæðu viðhorf, sem hafa komið fram hér gagnvart þessu máli og ítreka þá ósk mína, að frv. geti fengið sem greiðasta afgreiðslu í þinginu.