23.01.1980
Neðri deild: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

46. mál, orlof

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Ég get ekki svarað þeirri spurningu nákvæmlega sem til mín var beint af síðasta hv. fyrirspyrjanda, hvað kerfið kosti mikið, en á s.l. ári, þegar heildarvextir greiddir af Seðlabankanum voru um 11%, þá kostaði rekstur kerfisins um það bil helminginn af því eða sem nemur 5–5.5% vöxtum, eitthvað í þá áttina. Það er alltaf verið að bæta kerfið og taka í notkun betri vélar og búnað, þ.e. tölvur, þannig að kostnaðurinn á að fara hlutfallslega verulega mikið lækkandi.

Þessi 11.5%, sem nú eru greidd, hækka auðvitað með öðrum vöxtum. Það verkar þannig, að Seðlabankinn greiðir hæstu vexti sem hann treystir sér til. Nú er þetta fé stutt inni, það er í mesta lagi að meðaltali 4–5 mánuði yfir árið því að það er greitt út tvisvar, safnast yfir allt árið og greitt út tvisvar: í maíbyrjun og svo aftur í júlí, þannig að ég býst við að að meðaltali sé þetta fé ekki inni nema 3–4 mánuði á ári.

Þetta frv. gerir að öðru leyti ráð fyrir því, að ríkissjóður greiði þann kostnað, sem Póstgíróstofan tekur nú í vaxtamismun, og það er sagt, að innheimtan hafi ekki verið nægilega hörð o.s.frv. En ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því, að það er ekki allt fengið með þeirri breytingu sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Þetta er allt gott út af fyrir sig, ef allir vinna á sama stað alla tíð. En þetta vinnur mjög illa þar sem menn fara á milli byggðarlaga. Við skulum segja t.d. í útgerðarstöðum eins og Vestmannaeyjum. Orlofið yrði lagt inn á reikning hvers og eins í bankann þar. En bankinn hugsar ekkert um hvað gerist ef sjómaður kemur og sjómaður fer. Hann eltir hann ekki uppi. Sjómaðurinn þarf sjálfur að eltast við þetta út um allt land á eftir, og það er enginn sem fylgist raunverulega með því, hvort þetta kemur inn eða kemur ekki inn. En það gerir einmitt Póstgíróstofan. Hún fylgist með því og gefur launþeganum þetta upp á þriggja mánaða fresti. Og hún er með lögfræðilega innheimtu hjá þeim sem eru í vanskilum. Hver ætti að borga þann brúsa, ef þetta fyrirkomulag yrði tekið upp? Líklega mundu bankarnir ekki gera það, en þeir yrðu þá sá aðill sem peningarnir yrðu lagðir inn hjá.

Svo vil ég vekja athygli á öðru. Nú er Póstgíróstofan skyldug til að borga orlofsféð, þó að kaupgreiðandinn sé ekki búinn að greiða það. Á hvers herðar á að leggja þá skyldu ef þetta frv. verður að lögum? Ég vildi vekja athygli á þessu.

Það eru fleiri hliðar á þessu máli en hér koma fram, þó að þetta sé vissulega athyglisverð hlið á málinu. (Gripið fram í: Hver er rekstrarkostnaðurinn?) Ég sagði áðan að rekstrarkostnaður hefði verið tæpur helmingurinn af vöxtunum meðan þeir voru 11%, og orlofsféð er að meðaltali líklega fjóra mánuði inni á ári. Krónulega get ég ekki svarað því, en get aftur á móti gefið upplýsingar um það á næsta fundi.