23.01.1980
Neðri deild: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

46. mál, orlof

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Vegna síðustu orða hv. 6. landsk. þm. vil ég taka það fram, að ég er jákvæður gagnvart því að orlofsmálin séu athuguð. Ég tók í ræðu minni enga sérstaka afstöðu til þess frv., sem hv. þm. og fleiri hafa flutt hér, en minnti á ákveðin grundvallarsjónarmið varðandi orlofsmálin, sem Eðvarð Sigurðsson, formaður Verkamannafélagsins Dagbrúnar, gerði grein fyrir úr þessum ræðustól á síðasta þingi. Og ég fór þess á leit við hv. félmn., að hún tæki mið af þeim grundvallarsjónarmiðum þegar hún afgreiddi þetta mál.