23.01.1980
Neðri deild: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

58. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Flm. (Eggert Haukdal):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram á þskj. 88 frv. til l. um breyt. á lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins, sem miðar að því að leysa hinn gífurlega ójöfnuð sem stöðugt hefur verið að aukast í raforkuverði landsmanna.

Eitt stærsta hagsmunamál allra landsmanna í dag er að eiga kost á nægri raforku á hagstæðu og jöfnu verði. Á sama hátt er nauðsynlegt fyrir hinar dreifðu byggðir landsins að mismunur raforkuverðs, jafnt til heimilisnotkunar sem atvinnurekstrar, verði ekki til að raska búsetu og atvinnuþróun í landinu.

Á sjöunda áratugnum var verðmunur á raforku 20–25% og þótti mikill og þá var rætt um að dregið yrði úr honum þegar nægileg raforka yrði fyrir hendi og Búrfellsvirkjun væri komin í gang. Þegar þróunin stefndi í þá átt, að þessi mismunur færi yfir 25%, var lagt á almenna raforkusölu í landinu 13% verðjöfnunargjald sem rann til RARIK til verðjöfnunar. Þrátt fyrir þetta verðjöfnunargjald, sem reyndar var hækkað úr 13 í 19% á s.l. ári, hefur þessi mismunur stöðugt verið að aukast og þó mest s.l. 2–3 ár og nemur víða 60–90% og á sumum töxtum jafnvel yfir 100%. Jafnframt þessu hefur hagur RARIK sífellt farið versnandi og veldur því fyrst og fremst að upp hafa safnast hjá RARIK mjög óhagkvæm gengistryggð lán með háum vöxtum, þannig að vextir og afborganir vegna félagslegra framkvæmda um land allt leggjast með fullum þunga á notendur dreifikerfis RARIK. Þannig fór um 1/3 af tekjum RARIK á s.l. ári eða 3.3 milljarðar til greiðslu vaxta og afborgana. Við þetta verður ekki unað. Þetta verður ekki lagfært með frekari hækkun verðjöfnunargjalds, enda hefur það alltaf verið skilgreint sem bráðabirgðaskattur frá ári til árs.

Samkv. upplýsingum, sem ég hef aflað mér, mun þurfa um 2 milljarða til að jafna raforkuverðið, ef rafhitunarkostnaður er ekki meðtalinn. En afgangurinn af þeim tekjustofni, sem fæst með samþykkt frv., færi til lækkunar á rafhitunarkostnaði. Veruleg lækkun á þeim kostnaði verður og til þess, að þeir, sem nú búa við olíuhitun og ekki eiga völ á hitaveitum, geta með talsverðri hagkvæmni breytt yfir í rafhitun, en að sjálfsögðu er alger forsenda þess, að tengsl rafhitunartaxta og olíuverðs verði rofin svo og að næg orka og flutningslínur séu fyrir hendi.

Fjárhagsvanda RARIK verður að leysa með einum eða öðrum hætti úr sameiginlegum sjóði allra landsmanna, annaðhvort með beinum greiðslum úr ríkissjóði eða með því að auka tekjur Byggðasjóðs og gera honum kleift að veita framlög í þessu skyni til RARIK eins og hér er lagt til. Þar sem rætt er um RARIK í máli mínu á ég einnig við Orkubú Vestfjarða eftir stofnun þess.

Með þeirri breytingu, sem í frv. felst, er lagt til að Byggðasjóði sé falið þetta verkefni, enda segir í lögum nr. 97/1976, um Framkvæmdastofnun ríkisins, VI. kafla, um Byggðasjóð, 28. gr.:

„Hlutverk Byggðasjóðs er að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífs og til að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir að lífvænlegar byggðir fari í eyði.“

Samkv. þessari grein í lögunum um Byggðasjóð getur þetta verkefni vissulega fallið undir hann. Óbreytt orkuverð stuðlar að búseturöskun í landinu ef svo heldur fram sem nú er. Hér er því lagt til að tekjur Byggðasjóðs verði auknar eins og frv. ber með sér, sem þýðir um 3.3 milljarða tekjuaukningu, og fjárhagsvandi RARIK að hluta þannig leystur og þar með stefnt að sem jöfnustu raforkuverði um allt land. Jafnframt verði RARIK gert að endurskoða gjaldskrá sína frá grunni, lækka verð á raforku og afnema hækkunartengsl hitunartaxta við söluverð dísilolíu, svo sem áður kom fram. Eðlileg byggðaþróun í landinu er undir því komin, að tekið verði á þessu máli.

Að svo mæltu legg ég til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til fjh.- og viðskn.