23.01.1980
Neðri deild: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

58. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal nú ekki tala langt mál um þetta frv. Ég get að sjálfsögðu tekið undir flest af því, sem hv. flm. sagði um þetta mál almennt eða um nauðsyn þess að jafna raforkuverð í landinu, og margt af því, sem fram kemur í grg. varðandi þessi atriði. Hins vegar sé ég ástæðu til þess að vara nokkuð við því að fara út á þá braut að gera Framkvæmdastofnunina og Byggðasjóð að einhvers konar afgreiðslustofnun fyrir ýmsa sérmarkaða tekjustofna. Ég held að það sé verið að fara út á nokkuð hættulega braut og vafasama, en nokkur tilhneiging hefur verið upp á síðkastið að fela Framkvæmdastofnun og Byggðasjóði einhvers konar afgreiðslu á sérstaklega mörkuðu fjármagni sem ríkisvaldið hefur með höndum og vill vissulega nota til góðra hluta. Ég held að þetta sé mjög vafasöm stefna, og ég víl gera aths. við þetta mál að þessu leyti.

Að vísu kemur það fram í 1. gr. þessa frv., að hv. flm. gerir ráð fyrir að hækka það framlag sem ríkissjóður leggur Byggðasjóði samkv. 27. gr. laga um Framkvæmdastofnun, en eigi að síður er hér um algera afmörkun á fjármagni að ræða. Ég held að Framkvæmdastofnun sé í þessu tilfelli alveg óþarfur milliliður. Ef á að afla meira fjár til að jafna raforkuverð í landinu, sem vissulega er mikil nauðsyn að gera og ég get tekið undir, þá sé ég ekki ástæðu til að það verði gert fyrir milligöngu Byggðasjóðs eða lagt á starfsmenn Framkvæmdastofnunar að framkvæma það. Ég sé ekki mikil rök fyrir því.

En af því að þetta mál er hér til umr. leyfi ég mér að minna á annað mál, þó að það mál sé að sjálfsögðu ekki til umr., en það er þó ástæða til að vekja á því athygli. Það er 26. mál þingsins, sem fjallar um greiðslu bóta vegna óverðtryggðrar framleiðslu búvara og er flutt af hv. sjálfstæðismönnum, ég held næstum að segja öllum sem í deildinni eru, en þar er einnig gert ráð fyrir að sú kvöð sé lögð á Byggðasjóð, að hann endurgreiði 3 millj. kr. framlag sem flm. þess frv. hugsa sér að verði lagt fram til þess að greiða bætur vegna óverðtryggðrar framleiðslu landbúnaðarvara. Þarna er enn verið að leggja á Byggðasjóð byrðar fyrir fram af Alþingi. Ég tel að þarna sé verið að taka upp stefnu sem er mjög vafasöm, að ekki sé meira sagt, og ég vil gera aths. við það í framhaldi af því sem ég sagði um það frv. sem hér er til umr. um breytingu á lögum um Framkvæmdastofnun og er flutt af hv. 6. þm. Suðurl.

Ég minnist þess, og ég held að ég muni það rétt, að hv. sjálfstæðismenn voru eitt sinn með þá hugmynd og till. uppi um það — það mun hafa verið fyrir kosningarnar 1978 — að verja svo og svo miklu fjármagni Byggðasjóðs fyrir fram til vegagerðar. Ég gæti líklega talið upp, ef ég athugaði minn gang dálítið betur, miklu fleiri hugmyndir sem fram hafa komið úr ýmsum áttum, ekki síst frá sjálfstæðismönnum, um að afmarka starfsemi Byggðasjóðs fyrir fram með löggjöf frá Alþ., sem sagt hafa alveg nákvæmar forskriftir um það, hvernig verja skuli fjármagni Byggðasjóðs. Ég veit að allt þetta er gert í góðum tilgangi. Samt sem áður hlýt ég að minna á þetta til viðvörunar, því að hér er áreiðanlega ekki verið að ganga út á mjög skynsamlega braut. Svo lengi sem Byggðasjóður starfar — sem ég vona að verði sem lengst og hann verði sem öflugastur-held ég að fari best á því og sé affarasælast að stjórn sjóðsins fari með málefni hans að öllu verulegu leyti.

Þetta eru þær aths. sem ég vildi gera við þetta frv., þó að ég taki hins vegar heils hugar undir almennar hugleiðingar hv. flm. um nauðsyn þess að jafna raforkuverð í landinu.