23.01.1980
Neðri deild: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

58. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Flm. (Eggert Haukdal):

Herra forseti. Ég vil út af orðum hv. þm. Ingvars Gíslasonar segja það, að ég gat þess í ræðu minni áðan og las upp rökstuðning sem er einmitt fyrir því, að Byggðasjóði verði falið það verkefni að jafna raforkuverð, því að eins og í lögunum stendur gæti það vissulega undir hann fallið. Og ég lagði til tekjuaukningu til Byggðasjóðs vegna þessa verkefnis, ég vil taka það skýrt fram. Það var ekki gert í hinum tveim þáttunum sem hann gat um, varðandi vegamálin og til landbúnaðarins. Þar var ekki lögð til tekjuaukning Byggðasjóðs. Hins vegar eru þau mál sama eðlis og ekki óeðlilegt að Byggðasjóður kæmi þar inn í, sannarlega ekki. Þetta vildi ég láta koma fram.

Hv. þm. gat þess réttilega, að fé þyrfti til að koma og það væri mikið verkefni að jafna raforkuverðið. En hann sagði ekki hvar ætti að taka til þess fjármuni. Ég lagði áherslu á í ræðu minni áðan að þarna þyrfti að koma til fé úr sameiginlegum sjóði landsmanna með einum eða öðrum hætti. Hvaða leið verður í því farin geri ég ekki að höfuðmáli. Ég benti á þá leið, að það færi um Byggðasjóð. Hin leiðin getur líka verið, að fé komi beint af fjárlögum. En ég held að allir hljóti að vera sammála um að til þessa verður að koma fé og það strax og það verði ekki seinna en við afgreiðslu fjárlaga í vetur að taka á þessu máli. Ég held að slíkt sé alveg óhjákvæmilegt.