18.12.1979
Sameinað þing: 4. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

Skýrsla forsætisráðherra

Forsrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Alþingi kemur nú saman við næsta óvenjulegar aðstæður að nýloknum kosningum. Þar eð ríkisstj. er starfsstjórn, er bíður myndunar nýs ráðuneytis, er engan veginn eðlilegt að flutt sé stefnuræða eins og fyrir er mælt í 52. gr. þingskapa. Ég hef því farið fram á við hæstv. forseta, að leitað verði afbrigða varðandi þetta atriði, og hafa þau þegar verið veitt.

Engu að síður tel ég óhjákvæmilegt að ég gefi þinginu nokkra skýrslu um stöðu mála og mun ég nú gera það. Núv. ráðuneyti Alþfl. var myndað 15. okt. s.l. Naut það takmarkaðs stuðnings Sjálfstfl., fyrst og fremst til að rjúfa þing og efna til alþingiskosninga á þessu ári. Kosningarnar fóru sem kunnugt er fram 2. og 3. des. Að þeim loknum var megintilgangi ríkisstj. fullnægt og hinn 4. des. lagði ég fyrir forseta Íslands lausnarbeiðni fyrir ráðuneytið. Féllst forseti á beiðnina, en fól stjórninni að starfa áfram uns nýtt ráðuneyti yrði myndað.

Sú atburðarás, sem gerst hefur síðan þing var rofið um miðjan okt., á sér varla hliðstæðu í íslenskri stjórnmálasögu. Ýmislegt, sem gert er þessa dagana, getur því orðið að fordæmi, og væri hollt ef þingflokkar og þm. hefðu það í huga.

Sá háttur hefur oftast verið hafður á, að nýkjörið Alþ. komi ekki saman fyrr en mynduð hefur verið ríkisstj. Að þessu sinni hagar svo til, að fjárlög fyrir komandi ár hafa ekki verið afgreidd. Af þeim sökum bar ríkisstj. skylda til að kalla þingið saman svo fljótt sem auðið var og var það gert. Þá bar ríkisstj. og skylda til að leggja fram fjárlagafrv. fyrir árið 1980 og hefur það einnig verið gert. Mun fjmrh. væntanlega gera þinginu nánari grein fyrir því.

Vegna þess að jól eru á næsta leiti verður óhjákvæmilegt að fresta þinginu n.k. föstudag eða laugardag og verður væntanlega flutt þáltill. um það að höfðu samráði við þingflokka.

Allmörg mál verður þingið að afgreiða fyrir áramót. Þar ber fyrst að nefna greiðsluheimild fyrir ríkissjóð, því að varla verða fjárlög afgreidd á einni viku. Þá renna allmörg gildandi lög út um áramót og ber nauðsyn til að endurnýja þau. Það er von mín að þingheimur sameinist um að ljúka afgreiðslu þessara mála fyrir vikulok svo að komist verði hjá þingfundum á milli jóla og nýárs.

Þar eð núv. ríkisstj. er starfsstjórn, sem aðeins situr þar til ný stjórn hefur verið mynduð, mun hún ekki leggja fram þjóðhagsáætlun í upphafi þessa þings svo sem kveðið er á um í efnahagsmálalögunum frá aprílmánuði s.l. Það var raunar gert á síðasta þingi og er því ekki ástæða til að leggja fram nýja áætlun, síst af öllu af ríkisstj. sem hefur svo takmarkað verkefni. En ég tel engu að síður rétt að fara nokkrum orðum um ástand og horfur í efnahagsmálum og þann vanda sem við er að glíma á næstunni, um leið og ég vík stuttlega að þeim aðgerðum sem ríkisstj. hefur gripið til á undanförnum vikum og tengjast efnahagsvanda líðandi stundar.

Það er ekki ný bóla, að útlitið í íslenskum efnahagsmálum sé óvissu háð. Þó held ég að sjaldan á seinni árum hafi efnahagshorfur verið svo óráðnar sem nú. Er þar fyrst að nefna, að stjórnarmyndun er óráðin og almennir kjarasamningar á næsta leiti. Efnahagsástandið í umheiminum er afar ótryggt um þessar mundir og hefur dregið verulega úr hagvexti á þessu ári í helstu iðnríkjum heims. Verðbólga og atvinnuleysi hafa samtímis farið vaxandi í mörgum ríkjum. Þessi öfugþróun í efnahagsmálum í heiminum hefur mætt á þjóðarbúi Íslendinga fyrst og fremst með þeim hætti að olíuverðhækkun hefur orðið hér miklu meiri en hjá öðrum. Opinbert verð á hráolíu, sem mestu ræður um innflutningsverð annarra ríkja á Vesturlöndum, hækkaði um 60% frá des. 1978 til hausts 1979. Á sama tíma hefur hins vegar skráð verð á Rotterdam-markaði á unnum olíuvörum, sem ræður okkar verði samkv. viðskiptasamningum, hækkað um meira en 150%, og að meðaltali verður innflutningsverð á olíu til Íslands á þessu ári ríflega tvöfalt hærra í erlendri mynt en 1978. Útlit virðist fyrir að verð á öðrum innflutningi hækki um 9% eða líkt og útflutningsverðlag í heild. Olíuvörurnar vega svo þungt að viðskiptakjörin í heild rýrna að meðaltali um 10–11% á þessu ári. Í lok ársins standa viðskiptakjörin líklega 3–4% undir ársmeðaltali 1979.

Eins og nú horfir er alls ekki hægt að reikna með viðskiptakjarabata á næsta ári og eru því miður fremur horfur á frekari rýrnun þeirra. Einkum virðist útlitið fyrir almenna olíuverðsþróun í heiminum vera óefnilegt. Rýrnandi viðskiptakjör munu þannig skerða raungildi þjóðarframleiðslu um 3–3.5% 1979 og um 1% 1980 og olíureikningur þjóðarbúsins hækka úr 12% í 24% af öllum vöruinnflutningi. Árið 1978 var olíuinnflutningurinn um 20 milljarðar kr., en á núgildandi verði og gengi 70–80 milljarðar kr. Um þessar mundir lætur nærri að allur viðskiptakjarabatinn, sem við nutum fram til 1973 og endurheimtum að mestu 1977 og 1978, sé genginn til baka og viðskiptakjörin séu í reynd óbreytt frá 1970.

Við því er búist að þjóðarframleiðslan vaxi um 2.5 % á árinu 1979, en vegna versnandi viðskiptakjara munu þjóðartekjur hins vegar minnka um 1%. Framleiðsluaukningin er heldur meiri en ætlað var í ársbyrjun, einkum vegna þess að fiskafli mun sýnilega aukast um 7–8% í stað 2–3% í fyrri spám, og skiptir aukning þorskafla þar mestu máli. Framleiðsluaukning í iðnaði er talin munu verða um 5% í ár, en landbúnaðarframleiðslan mun dragast saman, e.t.v. um 4–6%. Nokkur samdráttur verður í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, eða 4%, en í flestum öðrum greinum er framleiðsla talin svipuð eða ívið meiri en 1978. í heild er framleiðsluaukningin 2–3 %, og er það minni hagvöxtur en í fyrra. Raunar er það minna en meðalhagvöxtur síðustu 10 árin, en á þeim tíma hefur þjóðarframleiðsla okkar á mann vaxið um nálægt 4% á ári til jafnaðar.

Þegar horft er til næsta árs virðast því miður ekki miklar líkur á framleiðsluaukningu. Gera verður ráð fyrir að sókn í þorskstofninn og loðnustofninn verði háð strangari takmörkunum en á þessu ári, eins og nauðsynlegt er til að varðveita afrakstursgetu þessara mikilvægu nytjafiskastofna. Þar með kynni sjávarafurðaframleiðslan að skreppa nokkuð saman á árinu 1980. Hins vegar er á næsta ári að vænta framleiðsluaukningar hjá álveri og járnblendiverksmiðju, og gæti sú viðbót við útflutninginn dugað til að vega upp samdrátt í sjávarfangi þannig að útflutningsframleiðslan yrði jafnmikil 1980 og 1979. Af þessum tölum er ljóst að svigrúmið til aukningar þjóðarútgjalda er hverfandi. En allar eru þessar tölur mjög óvissar og gætu brugðið til beggja átta. Það, sem fyrst og fremst veldur óvissunni, er vitanlega verðbólgan og olíuverðsþróunin. Þetta tvennt eru stærstu vandamálin sem við er að glíma.

Um þessar mundir er verðbólguhraðinn um 55–60% á ársgrundvelli, og þurfum við að fara allt aftur til ára fyrri heimsstyrjaldamarinnar til að finna jafnháar tölur. Horfurnar fram undan eru því ekki bjartar. Verðbólguvandinn er nú orðinn svo yfirþyrmandi að hann skyggir á öll önnur vandamál. Þess vegna er brýnt að allir, og þó fyrst og fremst við sem hér sitjum, geri sér glögga grein fyrir orsökum verðbólgunnar, horfist í augu við þær staðreyndir, sem við blasa, og fari fyrir alvöru að takast á við þennan bölvald, sem stendur í vegi fyrir bættum lífskjörum okkar allra. Við verðum að viðurkenna, að aðgerðir stjórnvalda á síðustu árum hafa ekki verið þess megnugar að draga úr verðbólgu. Skýringin á þessu ári er sú sama og mörg undangengin ár, — fyrst og fremst sú, að það hefur hvorki tekist að stjórna ríkisfjármálunum né peningamálunum né heldur hefur nægu aðhaldi verið fylgt á sviði verðlags- og launamála. Erlendar lántökur hafa farið úr böndum, lánveitingar til framkvæmda hafa farið fram úr áætlun og þannig mætti lengi telja. Þessi verkefni bíða úrlausnar á þessu þingi, og er brýnt að tekið verði á þeim sem allra fyrst.

Það er nú komið á daginn, að síðasta ríkisstj. hefði átt að gera heildaráætlun í efnahagsmálum til nokkurra ára um framkvæmd jafnvægisstefnu í samráði við samtökin á vinnumarkaðinum, fyrst og fremst samtök launafólks. Jafnvægisstefna í anda sanngirni er eina færa leiðin út úr þeim ógöngum sem þjóðarbúskapurinn hefur komist í. Við Alþfl.-menn höfum í kosningabaráttunni á liðnu ári gert ítarlega grein fyrir jafnvægisstefnu þeirri í efnahagsmálum sem við teljum að ein geti með farsælum hætti leyst þessi margvíslegu aðsteðjandi vandamál. Þetta er enn okkar skoðun og við munum reyna að vinna henni fylgi innan þings sem utan, innan ríkisstj. eða, utan.

Nú er mikilvægast í íslenskum stjórnmálum að mynduð verði stjórn sem er reiðubúin til að takast á við efnahagsvandann án alls lýðskrums. Nú duga engin lausatök. Ríkisstj. Alþfl. mun þann tíma sem hún situr gera það sem hún getur til þess að koma í veg fyrir að vandinn ágerist, og það er tilhæfulaust, sem einhvers staðar hefur verið haldið fram, að vandinn hafi aukist fyrir tilverknað hennar. Ríkisstj. hefur tekið ákvarðanir um samræmda afgreiðslu fyrirliggjandi beiðna um verðhækkanir með verulegri takmörkun á hækkunum, þannig að engu sé spillt fyrir þá stjórn sem við málum tekur þegar nýtt rn. verður myndað. Af sama toga eru ýmis mál sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir á sínum stutta starfstíma, og má þar nefna brbl. um 2% hækkun lægstu launa frá 1. des. s.l., er miða að því að vernda kjör þeirra sem rýrastan hlut hafa, en þessi löggjöf ætti að auðvelda kjarasamninga á næsta ári.

Þá hefur ríkisstj. freistað þess að bæta olíuviðskiptakjörin með því að ná fram breytingum á olíuviðskiptum við Sovétríkin og leita nýrra leiða í olíukaupum sem munu koma þjóðinni til góða þegar á næsta ári. Ríkisstj. hefur einnig beitt sér fyrir framkvæmd efnahagslaganna, þannig að lánstími sé lengdur og greiðslubyrði dreift yfir lánstímann samhliða verðtryggingu í áföngum, svo sem gert var ráð fyrir í þeim lögum.

Þetta eru nokkrir þættir í framkvæmd jafnvægisstefnu í efnahagsmálum, en vissulega þarf mörgum sinnum meira til. Um þetta mun ég þó ekki fara fleiri orðum á þessu stigi máls míns, en vísa til frv. og till. er ríkisstj. leggur fyrir þingið þessa dagana. Mörg þeirra er óhjákvæmilegt að afgreidd verði fyrir árslok til að tryggja snurðulausa framkvæmd á ýmsum sviðum, einkum í ríkisfjármálum. Önnur frv. fjalla um ýmis umbótamál, sem ráðh. Alþfl. hafa látið undirbúa og eiga stoð í stefnu flokksins, og munu þau að sjálfsögðu fá eðlilega afgreiðslu eftir því sem unnt er á þinginu, þótt hin brýnni málin verði að sjálfsögðu að ganga fyrir.

Ég ítreka svo að lokum von mína um að þm. og þingflokkar sameinist um að afgreiða í þessari viku þau mál sem krefjast afgreiðslu fyrir áramót. Enn fremur læt ég í ljós þá von mína, að stjórnarmyndun takist sem allra fyrst og þjóðin hljóti trausta og staðfasta ríkisstjórn.

Fyrir 30 árum, eftir haustkosningarnar 1949, sagði Sveinn Björnsson, þáv. forseti, þessi orð í þingsetningarræðu, en þau eiga ekki síður við í dag:

„Málum vorum er svo komið vegna verðbólgu, dýrtíðar, of mikils framleiðslukostnaðar, of hárra ríkisútgjalda, of hárra skatta og tolla o.s.frv., að erfitt er að sameinast um það, á hvern hátt skuli fram úr ráðið.“

Mér finnst þessi rök frekar vera rök fyrir því að stjórnarmyndun þoli enga bið en fyrir því að langan tíma þurfi til stjórnarmyndunar, sem aftur leiðir af sér langa töf á aðkallandi störfum þings og stjórnar.