23.01.1980
Neðri deild: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

58. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Þetta frv. hefur þann tilgang að afla fjár til að jafna raforkuverð í landinu og tekur því á viðamiklu vandamálu, sem nauðsynlegt er að gefa gaum og leysa fyrr en síðar. Það er rétt að vekja athygli á því, að eins og segir í grg. frv. er mikill verðmunur á gjaldskrám rafveitna, jafnvel svo mikill að muni 60–90% á sumum töxtum eða meira. Ég hef ekki við höndina yfirlit um gjaldskrár rafveitna, en ég hygg að þetta sé rétt. Ég get upplýst t.a.m. að heimilistaxti er 55% hærri hjá Rafmagnsveitum ríkisins en hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og gjaldskrár sumra rafveitna munu vera lægri en Rafmagnsveitu Reykjavíkur. En þetta er rétt að verði upplýst og tekin saman skrá yfir rafmagnsverð í landinu frá hinum ýmsu raforkusölufyrirtækjum og þá greinilega skýrt hvert verðið er eftir hinum ýmsu töxtum.

Það er sem sé ljóst að mikill verðmunur er á raforku í landinu og þann verðmun þarf að jafna. Að því höfum við stefnt með tillöguflutningi, sem erum í forsvari hjá Rafmagnsveitum ríkisins, og höfum lagt til að veitt yrði til þess fé úr sameiginlegum sjóði landsmanna. Álitamál er hvort veita eigi fé úr Byggðasjóði, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, en þó er rétt að hafa í huga að með frv. er ekki verið að leggja auknar fjárhagslegar skuldbindingar á Byggðasjóð, eins og jafnvel mátti skilja á orðum hv. þm. Ingvars Gíslasonar. Ég ætla ekki að slá því föstu að hér sé um rétta leið að því marki að ræða að jafna raforkuverðið, en víst er að tilgangur frv. er af hinu góða.

Ég mun ekki við þetta tækifæri rekja þessi mál ítarlega. Ég mun gera það frekar við önnur tækifæri hér á Alþ. og vænti þess að gefast muni tilefni til þess þegar fjárlagaumr. fer fram. Það er, eins og hér hefur fram komið, hin mesta nauðsyn að þá verði tekið á málinu þannig að fé verði ráðstafað í þessu skyni, hvort sem sú leið verður valin, sem hv. flm. þessa frv. bendir á, eða brugðist við með öðrum hætti. Ég mun því ekki efnislega fara langt út í þessa sálma núna.

Hv. þm. Ingvar Gíslason benti á áðan, að verið væri að leggja auknar kvaðir á Byggðasjóð samkv. frv. þm. Sjálfstfl., og sagði nokkuð stórt höggvið og átti þar við frv., sem ég er 1. flm. að, um greiðslu bóta vegna óverðtryggðrar framleiðslu búvara. Ég hef rætt það mál og er ekki ástæða til að endurtaka neitt, en bendi hv. þm. á, ef hann hefur gleymt því eða ekki verið við umr., að fyrir árið 1979 á næstsíðasta Alþ. við afgreiðslu fjárl. var tekið fjármagn af Byggðasjóði og því ráðstafað með fjárlagaafgreiðslu til tiltekins verkefnis, sem nam 1130 millj. kr. Þetta var mjög veigamikill hluti af öllu ráðstöfunarfé Byggðasjóðs á árinu 1979. Það sem við flm. þskj. 26 höfum lagt til, er ekki nærri því eins stórt höggvið, svo að notað sé orðalag hv. þm. Ingvars Gíslasonar, við fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1979. Mér þykir líklegt að hv. þm. hafi staðið að því og sú ríkisstj. sem hann studdi og bar ábyrgð á.