23.01.1980
Neðri deild: 23. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

58. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég held að hæstv. dómsmrh. hafi hafið þennan þátt umr. vegna þess hve lítið er að frétta af stjórnarmyndunarviðræðunum, sem þjóðin bíður nú eftir að heyra eitthvað nánar um. Það er svo sem ágætistilbreyting fyrir okkur að fjalla um það sígilda umræðuefni sem Framkvæmdastofnunin er, þ.e. Byggðasjóður og Framkvæmdasjóður, þótt ekki sé það beinlínis í beinu framhaldi af efni þess frv. sem hér liggur fyrir til umr. Það er þó ástæða til að nefna örfá atriði vegna þeirra ræðna sem hafa verið fluttar af hv. síðustu tveimur ræðumönnum.

Það er ljóst, að „landamerki“ sjóðsins, ef nota má orðalag hæstv. dómsmrh., hafa verið útvíkkuð, Reykjanes hefur verið tekið inn. Mér er ljóst að á sínum tíma stóðu talsverðar deilur og ágreiningur innan stjórnmálaflokkanna og standa jafnvel yfir enn um útvíkkun á „landamerkjum“ sjóðsins. Það er hins vegar eðlilegt að hér komi fram frv., og það fleiri en eitt og fleiri en tvö, um til hvers eigi að nota þá peninga sem til ráðstöfunar eru. En það mun vera árið 1971 sem ákveðið var á Alþ. að veita skyldi sem næmi 2% af útgjöldum ríkisins í Byggðasjóð. Síðan var ráðstöfunarféð hlutfallslega minnkað þannig að það varð 2% í heild sinni og þá að meðtöldum endurgreiðsluafborgunum lánanna.

Til hvers er slíkur sjóður? Það er eðlilegt að spurt sé. Hér koma fram ýmsar hugmyndir. Reyndar er tillöguflutningur alþm. besta dæmið um að í landinu er engin byggðastefna til. Og það er þess vegna sem settir hafa verið yfir þennan sjóð m.a. alþm. Á sínum tíma voru það fulltrúar stjórnarflokkanna. Hv. síðasti ræðumaður lýsti því hvernig hugmyndin var upphaflega að þeir skyldu starfa. Sem betur fer varð aldrei neitt af því. En því miður gerðist það að hæstv. ríkisstj., sem starfaði 1974–1978, hélt þessari vitleysu áfram. Og hún gerði meira, hún staðfesti lögin um „kommissarana“ svokölluðu, og nú er nánast ekki hægt að losa sig við þá þótt menn fegnir vildu, því að þeir hafa að mig minnir eins árs uppsagnarfrest. Á tímum tíðra stjórnarskipta, eins og eru í landinu um þessar mundir, tekur því varla að segja þessum mönnum upp, jafnvel þá að menn vildu að þeir tilheyrðu flokki forsrh. á hverjum tíma. Þannig verður það næsta stig áreiðanlega að festa það í stjórnarskránni að þeir tveir menn, sem nú eru „kommissarar“, verði það áfram þar til þeir komast á ellilaun og hafa úr einhverju að spila.

Þetta segi ég af því að orðið hafa sífelldar deilur um þetta mál. Ég ætla að nefna það í þessum hv. þingsal, að innan Sjálfstfl. voru miklar deilur um málið á sínum tíma, og ég staðhæfi að stór hluti flokksins var á móti þeirri skipan sem verið hefur að þessu leyti í lögum um Framkvæmdastofnun, og tek ég það þó aftur fram að lögin eru þó miklu þekkilegri nú en í upphafi stóð til að þau yrðu.

En á að láta niðurgreiðslu á rafmagnsverði og olíu eða uppbætur vegna útfluttra landbúnaðarafurða fara um þennan sjóð? Þetta eru spurningar sem við stöndum frammi fyrir á hinu háa Alþingi. Hv. síðasti ræðumaður segir nei. Hann segir: Það er eðlilegt að þessi sjóður þróist og verði almennur fjárfestingarlánasjóður. Þar get ég verið sammála honum, að eðlilegt sé að hann verði m.a. notaður til að vinna að varanlegri vegagerð í landinu. Þetta tel ég e.t.v. vera eðlilegustu byrjunina. Í fyrsta lagi vegna þess að ég er sannfærður um að öll þjóðin, bæði þeir, sem búa í dreifbýli, og hinir, sem búa í þéttbýli, geta komið sér saman um að það sé hlutverk sjóðsins. Í öðru lagi vegna þess að góðar samgöngur á landi hljóta að leiða til allt annarra viðhorfa þegar þjónustumiðstöðvum, atvinnurekstri og annarri starfsemi í landinu er ákveðinn staður. Þess vegna er þetta eðlileg byrjun á byggðastefnu sem ekki er til í landinu. Gerist það einhvern tíma, að við losum okkur við verðbólguna og þessi sjóður verði almennur fjárfestingarlánasjóður, vaknar hins vegar önnur spurning og hún er sú, hvort sjóðurinn verður ekki óþarfur, hvort ekki er eðlilegra að það kerfi, sem til er í landinu og dreifir fjármagni um landið, hið almenna bankakerfi, taki við hlutverki hans. Og ég vil biðja menn um að hugleiða hvort ekki sé ástæða til að hugsa frekar í þá veru en að hugsa alltaf: Þetta er einu sinni komið á og nú skulum við viðhalda því um allan aldur.

Ástæðan fyrir því, að ég kom hér upp, er í fyrsta lagi að benda á að mér þykir ekki þekkilegt hvernig alþm. eru settir sem „kommissarar“ yfir þessa stofnun, en í öðru lagi að undirstrika, að það er aðeins afsakanlegt vegna þess að engin byggðastefna er til í landinu. Það er þess vegna sem Alþ. hefur valið þá leið að láta þá menn með sínu pólitíska innsæi sjá um úthlutun úr Byggðasjóði. Báðir tveir eru ágætir menn, og ég fer ekki í launkofa með það álit mitt á þessum mönnum að þeir eru sjálfsagt þm. best hæfir til að dreifa lánsfjármagni stofnunarinnar á þá staði sem þeir telja að það eigi að lenda á. Nú er ég viss um að þeir brosa og segja: Við förum í einu og öllu eftir því sem þessi sjö manna stjórn Framkvæmdastofnunarinnar segir. Þetta er alveg rétt. En til hvers er þá verið að hafa alþm. þarna? má þá aftur spyrja. Ef þessir alþm. fara í einu og öllu eftir því sem stjórnin segir þeim spyr maður á móti: Til hvers er þá að hafa alþm. sem „kommissara“? Staðreyndin er nefnilega sú, að þeir ráða miklu meira en þeir þykjast gera. Það segi ég ekki út í bláinn. Það segi ég vegna þess að ég hef heyrt það frá mönnum, sem ég treysti, og er ekki að segja það til að koma óorði á þessa hv. alþm. Það er aðeins til að sýna fram á að þeir eru vandanum vaxnir og virðast hafa meiri tíma í sólarhringnum til að sinna vinnu sinni en venjulegt fólk í þessu landi.

Í öðru lagi kom ég hér upp til að undirstrika, að það vantar byggðastefnu, og á meðan hún er ekki til skilgreind og skýr verðum við sífellt að deila um það á hinu háa Alþingi hvorir hirða meira af hinum, landsbyggðin eða stór-Reykjavíkursvæðið. Það er þess vegna eðlilegt að við, í stað þess að vera sífellt að reyna að koma þessum jöfnuði þarna fyrir og öðrum jöfnuði annars staðar fyrir, borga uppbætur með þessu fé o.s.frv., tökum einu sinni á málinu þannig að við áttum okkur á því í heild og ákveðum hver skuli vera sú heildstæða byggðastefna sem við viljum fylgja. Auðvitað verður þar að koma til pólitískt mat. En því miður hafa íslensku flokkarnir brugðist þeirri skyldu sinni og þess vegna verða hér á hv. Alþingi umr. á borð við þessar.