24.01.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

51. mál, ráðstöfun á aðlögunargjaldi

Iðnrh. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Svar mitt við þeim fsp., sem hv. þm. var að gera grein fyrir í ræðu sinni, hljóðar svo:

Ríkisstj. ákvað hinn 8. nóv. 1979 að áætluðum tekjum af aðlögunargjaldi, 700 millj., yrði varið á eftirfarandi hátt:

Til útflutnings-, veiðarfæra-, umbúða-, fóður-, málm- og skipasmíðaiðnaðar 516 millj. kr., til Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins 45 millj. kr., til tilrauna með saltvinnslu á Reykjanesi 70 millj. kr., til starfsþjálfunar í fata-, ullar- og skinnaiðnaði 30 millj. kr., til rannsókna á steinullariðnaði og álbræðslu 24 millj. kr., til sérstakra iðnþróunaraðgerða á Norður- og Austurlandi í samvinnu við viðkomandi sambönd sveitarfélaga 10 millj. kr.

Þessi ráðstöfun á tekjum af aðlögunargjaldi hefur verið kynnt EF'TA og rökstudd þannig, að tekjum af. gjaldinu hafi verið varið til að styrkja stöðu vissra iðngreina með því að fjármagna almennar framleiðniaukandi aðgerðir og starfsþjálfun.

Eins og kom fram í aths. um frv. til l. um sérstakt tímabundið aðlögunargjald er höfuðmarkmið þeirra laga að veita íslenskum iðnaði aukinn tíma til aðlögunar að fríverslun og skapa fjárhagslegt svigrúm til nauðsynlegra iðnaðaraðgerða. Bakgrunni þeirrar stefnu, sem mörkuð var með álagningu aðlögunargjalds, er m.a. lýst í grg. með frv. á eftirfarandi hátt:

„Þessi stefnumörkun á rætur sínar að rekja til þess, að eftir því sem lengra hefur liðið á aðlögunartíma íslensks iðnaðar að fríverslun hefur komið greinilegar í ljós að staða hans á heimamarkaði er í mörgum greinum veikari en æskilegt væri. Enn fremur hefur þróun útflutningsiðnaðar hér á landi orðið mun takmarkaðri en ráð hafði verið fyrir gert, miðað við þann tollfrjálsa markað sem hann fékk aðgang að með aðildinni að EFTA og gerð viðskiptasamnings Íslands við EBE. Þessi staða iðnaðarins á sér margar ástæður sem hér verður lauslega drepið á.

Þótt samið hafi verið um 10 ára aðlögunartíma tollalækkana gagnvart bandalögunum má benda á, að hvert skref tollalækkana var mun stærra en iðnaður annarra þjóða Vestur-Evrópu þurfti að taka á sig í aðlögun sinni að fríverslun, þar sem algengt var að íslenskir verndartollar væru allt að 100% í upphafi aðlögunartímans á móti 10–30% verndartollum í upphafi fríverslunar í Evrópu.

Á þeim tíma, sem íslenskur iðnaður hefur þurft að aðlagast fríverslun, hefur hagvöxtur verið mun hægari í Vestur-Evrópu en á sjöunda áratugnum, þegar önnur lönd álfunnar gengu til fríverslunarsamstarfs, en þetta var tímabil óvenjumikils hagvaxtar. Þessi almennu skilyrði, samhliða því að samkeppnisþjóðir okkar hafa sumar hverjar gripið til víðtækra og vaxandi stuðningsaðgerða við sinn iðnað, hafa ugglaust hamlað þróun íslensks iðnaðar á þessu tímabili.

Á áttunda áratugnum fer fyrst að gæta í ríkum mæli vaxandi samkeppni á mörkuðum Vestur-Evrópu frá láglaunalöndum Suðaustur-Asíu. Þessar þjóðir hafa á síðustu árum rutt sér mjög til rúms á mörkuðum hinna þróuðu þjóða og þá helst í vinnuaflsfrekum greinum sem krafist hafa lítillar tækniþekkingar. Má raunar segja, að margar hefðbundnar iðngreinar Vestur-Evrópu eigi í mjög miklum erfiðleikum vegna þessarar þróunar og vafasamt að þær nái nokkru sinni fyrri styrk. Mikilvægt er að Íslendingar dragi réttar ályktanir af þessari þróun við uppbyggingu iðnaðar hér á landi.

Sambýli íslensks iðnaðar við öflugan sjávarútveg hefur að margra dómi verið verulegur þröskuldur á þróunarbraut hans á síðustu árum, þegar verndartollar vega ekki lengur upp það misræmi sem verður til innbyrðis milli sjávarútvegs og iðnaðar, með margháttaðri sérstöðu sjávarútvegsins. Má þar nefna hærri framleiðni, betri fjármagnsfyrirgreiðslu, aðstöðumun í sköttum og að því ógleymdu að á undanförnum árum hefur útvegurinn notið hagstæðra ytri skilyrða. Gengisskráning sú, sem af þessari hagstæðu þróun hefur leitt, hefur verið iðnaðinum ófullnægjandi eins og mörg dæmi undanfarin ár sýna, bæði hvað varðar samkeppnisstöðu á heimamarkaði og við útflutning.

Þá má nefna sem veigamikla skýringu á þróun iðnaðarins á þessum áratug, að af hálfu stjórnvalda hefur hingað til ekki verið mótuð samræmd stefna um iðnþróun með þeirri nauðsynlegu samstillingu margvíslegra aðgerða sem slík stefna óhjákvæmilega gerir kröfu til. Skortur á slíkri stefnu hefur valdið því að iðnaðurinn býr að mörgu leyti við ófullnægjandi samkeppnisaðstæður sem brýna nauðsyn ber til að bætt verði úr.“

Hér lýkur tilvitnun í grg. með frv. og skýrir vel tilgang og fyrirætlan löggjafans í sambandi við lagasetninguna um aðlögunargjaldið.

Eins og kom skýrt fram í grg. með lagafrv. og ég var að lesa nú hefur sambýli íslensks iðnaðar við sjávarútveg að mörgu leyti verið erfitt. Margháttaður aðstöðumunur þessara greina hefur endurspeglast í gengisskráningunni vegna ráðandi stöðu sjávarútvegsins í útflutningi landsmanna. Gengið tengir innlent og erlent verðlag saman og af þeim sökum er hlutverk þess einkum að koma á samræmi milli innlends og erlends verðlags og kostnaðar þannig að samkeppnisstaða innlendra atvinnuvega gagnvart erlendum sé viðunandi. Á þann hátt er lagður grunnur að jafnvægi þjóðarbúsins gagnvart öðrum löndum.

Vegna sérstöðu íslensks efnahagskerfis hefur gengisskráning einkum miðast við afkomu í sjávarútvegi og hefur þessi gengisstefna valdið íslenskum iðnaði miklum vanda, sérstaklega í kjölfar samninga Íslendinga við Fríverslunarsamtök Evrópu og Efnahagsbandalagið, en fyrir þann tíma var iðnaður verndaður með háum tollmúrum og innflutningshöftum. Með þátttöku Íslendinga í fríverslunarsamtökum og þar með afnámi tolla og hafta í utanríkisviðskiptum hefur þýðing gengisskráningarinnar fyrir íslenskan iðnað gjörbreyst. Gengið er nú nákvæmlega jafnþýðingarmikið fyrir afkomu útflutningsiðnaðar og iðnaðar í samkeppni við innflutning og það er fyrir sjávarútveginn.

Af ýmsum ástæðum hefur það misræmi, sem er í aðbúnaði sjávarútvegs og iðnaðar, ekki verið afnumið enn þá. Af þeim sökum er rík ástæða að verja hluta tekna af aðlögunargjaldinu til sérstakra aðgerða vegna útflutningsiðnaðarins og þess iðnaðar sem á í samkeppni við innflutning sem aðlögunargjald leggst ekki á. Þessi ráðstöfun er í fullu samræmi við 7. gr. laga nr. 58/1979.

Reiknað hefur verið út að sá mismunur, sem stafar af því að fiskveiðar greiða ekki launaskatt, greiða lægra aðstöðugjald en iðnaður og skattfríðindi sjómanna, skekki gengisskráningu um 3.6%. Þetta er almennt nefnt „uppsafnað óhagræði“.

Þegar aðlögunargjaldið var lagt á leiðréttist aðstöðumunur eða „uppsafnað óhagræði“ þeirra iðnfyrirtækja sem eiga í samkeppni við innfluttan iðnvarning og á leggst aðlögunargjald. Í innflutningi leggst aðlögunargjald ekki á veiðarfæri, umbúðir, fóðurvörur, skip og ýmsar vörur í málmiðnaði. Til þess að þessar iðngreinar svo og útflutningsgreinarnar fái leiðréttingu vegna „uppsafnaðs óhagræðis“ taldi ríkisstj. rétt að ráðstafa mestum hluta af tekjum af aðlögunargjaldi með áðurnefndum hætti að þessu sinni. Var ákvörðun þessi tekin eftir að iðnrh. hafði ráðgast við forustumenn í íslenskum iðnaði. Jafnframt var leitað aðstoðar Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins, Félags ísl. iðnrekenda og Landssambands iðnaðarmanna um framkvæmd þessarar ákvörðunar.

Í fjárlagafrv. Tómasar Árnasonar, bls 166, segir um ráðstöfun á tekjum af aðlögunargjaldinu:

„Þá er gert ráð fyrir að þeim hluta af aðlögunargjaldi, sem innheimtist á árinu 1980, verði ráðstafað á árinu 1981. Tekjur af aðlögunargjaldi eru áætlaðar 1.7 milljarðar á árinu 1980.“

Í fjárlagafrv. því, sem núv. ríkisstj. lagði fram á Alþ., er bætt við nýju viðfangsefni: aðlögunargjaldi undir lið lánasjóða iðnaðarins, en til viðfangsefnisins renna 300 millj. kr. Gert er ráð fyrir að þessari fjárhæð verði ráðstafað til iðnaðarmála á líkum kjörum og gilda hjá lánasjóðum iðnaðarins að fenginni atvinnuvegaáætlun samkvæmt 22. og 23. gr. laga nr. 13 1979, um stjórn efnahagsmála o.fl.

Framlög til viðfangsefnisins iðnþróun hækka um 200 millj. kr. og er þar um hluta af tekjum af aðlögunargjaldi að ræða. Fjárveitingunni verður samkv. síðari ákvörðun iðnrh, og fjmrh. varið til sérstakra áhættuverkefna og endurgreiðslu lána sem slíkum verkefnum fylgja.

Iðnrn. lagði fram í byrjun des. tillögur um ráðstöfun aðlögunargjalds á árinu 1980. Þar var gert ráð fyrir sömu stefnu og ríkisstj. samþykkti hinn 8. nóv. 1979. Af 1700 millj. skyldi 1200 millj. kr. varið til útflutningsiðnaðar, veiðarfæra-, umbúða-, fóður- og málm- og skipasmíðaiðnaðar, en 500 millj. til annarra iðnþróunaraðgerða, þar af 270 millj. kr. framlag í Iðnrekstrarsjóð. Tillögur þessar koma nú til kasta fjvn. og Alþingis.

Hér vil ég geta þess til skýringa, að sökum tímaskorts var ekki fjallað eins ítarlega um tillögurnar í fjárlagafrv. og iðnrn. óskaði eftir, og því er tekið hér svo til orða — tillögur þessar koma nú til kasta fjvn. og Alþ. — að þær verða verulega ítarlegri en lagt er til í fjárlagafrv.

Í fjórða lagi er spurst fyrir um hvort ríkisstj. hafi tekið afstöðu til þess, með hvaða hætti og hvenær eigi að afnema „uppsafnað óhagræði“ innlends samkeppnisiðnaðar eða afla tekna til endurgreiðslu þess framvegis.

Til að afnema það sem nefnt er „uppsafnað óhagræði“ eru tvær leiðir færar. Sú fyrri er að gengi íslensku krónunnar verði leiðrétt sem því nemur og gengisákvörðunin taki aukið mið af rekstrarhorfum í iðnaði. Í öðru lagi verði misvægi milli rekstraraðbúnaðar iðnaðar og sjávarútvegs afnumið.

Ljóst er að niðurfelling aðlögunargjaldsins í lok þessa árs mun setja iðnaðinn í vanda á nýjan leik. Nauðsynlegt er því að gera ýmsar ráðstafanir til að mæta þeim vanda. Eðlilegt væri að iðnrh. setti á fót starfshóp til að gera tillögur um þessi mál, en mér hefur hins vegar fundist rétt að doka við með slíkt ef vera mætti að ný ríkisstj. væri alveg á næsta leiti og þá eðlilegra að ákvörðun um þetta kæmi í hlut þess iðnrh. er þá kæmi til starfs.

Að lokum vil ég geta þess, að þessi aðferð við úthlutun á aðlögunargjaldi hefur verið kynnt EFTA og það ekki haft við málið að athuga á annan hátt en þann, að því hefur alltaf verið illa við aðlögunargjaldið. Eins og lögin eru og allir hér í þd. munu vita er ætlast til að í lok þessa árs falli gjaldið niður.

Ég held að ég þurfi ekki að taka fleira fram að sinni. — Það er kannske rétt að geta þess, að yfirleitt hefur rn. fengið þakkir fyrir hvernig aðlögunargjaldinu var úthlutað eða því beitt, m.a. hefur ullariðnaðurinn mjög þakkað fyrir sig og fleiri aðilar. Eini aðilinn, sem kvartaði undan meðferð þessari sérstaklega, var það samband sem hv. þm. nefndi áðan, málm- og skipasmíðasambandið. Um það hefur náðst samkomulag milli þess og rn. hvernig málum verður hagað, þannig að ég held að sambandið sé nú fullkomlega ánægt með það.