24.01.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

51. mál, ráðstöfun á aðlögunargjaldi

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég skal ekki ganga á tímarin frekar, ég hef sjálfsagt notað rösklega minn tíma áðan, en ég vildi aðeins koma að aths. vegna þeirra ummæla hæstv. iðnrh., að fyrir hafi legið í rn. tillögur, sem hann líkti við skýjaborgir, varðandi ráðstöfun á aðlögunargjaldi vegna ársins 1979. Ég vil mótmæla þessu, þó að ég sé út af fyrir síg ekkert feiminn við að taka við einkunninni skýjaborgahugmynd. Það hafa ýmis framfaramál í landinu verið nefnd skýjaborgir, þó að svo hafi ekki reynst þegar tekist hefur að hrinda þeim í framkvæmd. Ég held að í þessu orði endurspeglist kannske mismunandi mat og vantrú á fyrirliggjandi hugmyndir.

En ég tel rétt að það komi fram, að fyrir utan fjárveitingu til tiltekinna verkefna, sem eru í gangi og verið er að vinna að, iðnþróunarverkefna, að upphæð 250 millj. kr., gerði rn. ráð fyrir að ráðstafa til Iðnrekstrarsjóðs afganginum af gjaldinu, einmitt til þess að vel mætti gaumgæfa til hvaða undirstöðuverkefna ætti að verja því. Það var hugsunin að svipað yrði með farið á árinu 1980 til þess að gjaldstofninn entist iðnaðinum til lengri tíma en gjaldtakan á aðlögunargjaldinu, sem er til ársloka 1980.

Ég vil svo bæta því við, að ég tel að orkumálin, þó að stundum sé talað um orkuiðnað, séu það sérstæð og standi þannig utan við að það sé ekki réttmætt að vera að rugla þeim reytum saman þegar verið er að fjalla um fjárveitingar til iðnaðarmála.