24.01.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

51. mál, ráðstöfun á aðlögunargjaldi

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Aðeins stutt aths.

Ég vil taka fram, að ég veit ekki betur en fyrrv. hæstv. ríkisstj. hafi gert ráð fyrir að leggja fram ákveðnar tillögur um ráðstöfun aðlögunargjalds til styrktar íslensks iðnaðar við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1980. Þetta kemur raunar fram að nokkru leyti í aths. með því fjárlagafrv. sem fyrrv. fjmrh. lagði fram. En allir vita hvernig fór með framhald þessa máls, þar sem fyrrv. ríkisstj. fór frá völdum eftir að þeir atburðir skeðu á s.l. hausti sem enn eru í fersku minni.

Í fjárlagafrv. núv. hæstv. fjmrh., sem hann hefur lagt fram, er lagt til að til lánasjóða iðnaðarins fari 300 millj. og til iðnþróunar, þ.e. til nýrra viðfangsefna í iðnaði, 200 millj. kr. af aðlögunargjaldinu. Fyrir fjvn., sem nú hefur starfað um hríð, hefur ekkert erindi eða frekari skilgreining á þessum atriðum borist frá núv. hæstv. iðnrh., eins og raunar hefur komið hér fram.

Ég vildi aðeins segja það hér, að ég geri ráð fyrir að fjvn. sem og flestir hv. alþm. hafi mikinn áhuga á að málefnum iðnaðarins verði komið í það form að til framtíðarheilla horfi. Við höfum áreiðanlega allir fullan áhuga og skilning á þessum málum. En eðlilega bíður núv. fjvn. eftir stefnumótun ríkisstj., og ég held þess vegna að á þessu stigi málsins sé ákaflega lítið hægt að fjölyrða um framtíð þessa máls, fyrr en ný ríkisstj. verður mynduð og væntanlega leggur þá stefnu sína fyrir fjvn. til úrvinnslu. — Ég vildi láta það koma fram hér, að ég veit ekki til þess að það sé nokkur fyrirstaða gegn því að gera það sem mögulegt er til eflingar íslenskum iðnaði, ekki hvað síst í sambandi við það mál sem hér hefur komið fram.