24.01.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

219. mál, hagræðingarlán til iðnaðar

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti, Ég lagði í desembermánuði s.l. fram fsp. til hæstv. iðnrh. varðandi hagræðingarlán til iðnaðar. Fsp. er svo hljóðandi:

„Samkv. 26. gr. laga nr. 13/1979 er gert ráð fyrir, að ríkisstj. útvegi 1000 millj. kr. að láni til hagræðingar í undirstöðugreinum atvinnulífsins á árinu 1979.

Fyrrv. ríkisstj. samþykkti s.l. haust, að af þessari upphæð skyldu 400 millj. kr. koma í hlut iðnaðar.

Hvað hefur ríkisstj. gert til að útvega þetta fjármagn og ráðstafa því í samræmi við lagafyrirmæli og heimild til lántöku samkv. fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1979?“ Ég vil fara um þessa fsp. nokkrum orðum.

Í lögum um stjórn efnahagsmála o.fl., sem vitnað er til í fsp., er gert ráð fyrir lántöku að upphæð 1000 millj. kr. á árinu 1979 til hagræðingar í undirstöðugreinum atvinnulífsins og 2000 millj. kr. sérstakri lántöku í sama skyni á árinu 1980. Þetta mál var til meðferðar í fyrrv. ríkisstj. á s.l. sumri og þar knúði ég á um skiptingu á þessu fjármagni og lagði fram tillögur í ríkisstj. um að til iðnaðarins kæmu 400 millj. kr. Raunar höfðum við ráðh. atvinnumála á þeim tíma, hæstv. landbrh., sjútvrh. og ég, fjallað um þetta mál okkar á milli og náð samstöðu um að til iðnaðarins kæmi þessi upphæð og til sjávarútvegsins eða fiskiðnaðar jafnhá upphæð, en til landbúnaðar 200 millj. kr. Á þessa skiptingu var fallist, hún var staðfest af fyrrv. ríkisstj., en tillaga mín um að þessum 400 millj. kr. yrði ráðstafað til Iðnlánasjóðs til útlána í umræddu skyni náði ekki fram að ganga, eða réttara sagt: afstöðu til hennar var frestað þegar þetta mál var til meðferðar á einum af síðustu fundum fyrrv. ríkisstj.

Til frekari glöggvunar vil ég geta þess, að í lögum um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1979 og lögum þar að lútandi um heimild til lántöku, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar er gert ráð fyrir þessari lántöku að upphæð 1000 mill j. kr. til hagræðingarmála, að slík heimild verði þar inni. Í texta fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar 1979, á bls. 15, stendur, með leyfi hæstv. forseta, svofellt:

Ríkisstj. getur, auk þess sem fram er sett hér, heimilað Framkvæmdasjóði að taka 1000 millj. kr. sérstaklega að láni á árinu til hagræðingar í undirstöðugreinum atvinnulífsins.“

Í lögum um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun er þessi upphæð innifalin í upphæð samkv. 9. gr., þar sem Framkvæmdasjóði er heimilað að taka erlend lán á árinu 1979 að fjárhæð 4450 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt, eins og þar stendur. Þannig liggur fyrir, að heimild til þessarar lántöku er lögfest, að það er jafnframt lögfest samkv. lögunum um stjórn efnahagsmála að þessi upphæð skuli tekin að láni og nýtt til hagræðingar í undirstöðugreinum atvinnulífsins. Ég veit að á það hefur verið knúið við núv. hæstv. ríkisstj., ég hygg bæði hæstv. iðnrh. og fjmrh., að tryggja að þetta fé yrði til ráðstöfunar á liðnu ári. En ég hygg að undirtektir hafi ekki verið þær sem vonast var eftir. Það verður væntanlega upplýst í svari hæstv. ráðh.

Ég vil að það komi fram hér einnig, að þegar í undirbúningi voru lög um stjórn efnahagsmála lögðum við Alþb.-menn, þingflokkur Alþb. og ráðh. Alþb., mjög ríka áherslu á að það yrði gert átak til að efla atvinnuvegi landsins þannig að þeir skiluðu meira, að þar yrði gert átak til hagræðingar og framleiðniaukningar. Sérstakur kafli, V. kafli, þessara laga fjallar einmitt um málefni atvinnuveganna og þar er að finna þá lagagrein sem ég vitnaði í áðan. Það kann vissulega ekki góðri lukku að stýra ef ákvarðanir af þessu tagi eru ekki framkvæmdar, og ég hygg að hér hafi orðið misbrestur á. Ég tel að einmitt á þessu sviði þurfi að gera mjög verulegt átak, eins og raunar hefur verið mjög til umr. í sambandi við þær tilraunir til stjórnarmyndunar, sem nú standa yfir, og þá fyrst og fremst í tillögum okkar Alþb.-manna í sambandi við þau efni. En svar fáum við væntanlega frá hæstv. ráðh. um þetta, og ég vil ekki segja meira um það að sinni.