24.01.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

219. mál, hagræðingarlán til iðnaðar

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svar hans og upplýsingar um þetta efni, en ég vil átelja það mjög, að svo hafi verið haldið á þessu máli af núv. hæstv. starfsstjórn að ekki hefur verið framfylgt lagafyrirmælum um þessa lántöku og þeirri stefnumörkun sem fyrrv. ríkisstj. stóð að með lagasetningu um þetta efni og með því að skipta þessu fjármagni milli atvinnuveganna. Það hefur ekki verið farið eftir henni. Ég tel að hér sé í rauninni alveg verið að brjóta gegn skýrum lagafyrirmælum um þetta mál og stjórnaraðgerðum að þessu leyti. Ég tók það svo, að sá fyrirvari, sem kom fram á áðurnefndum ríkisstjórnarfundi frá ráðh. Alþfl., þar sem þessi skipting var samþ., hafi fyrst og fremst verið sá, að þeir vildu, vegna þess að sýnilega voru stjórnarskipti í nánd og núv. starfsstjórn var þá upprennandi, aðeins doka við að ganga frá þessu máli. Ég dró ekki þann skilning af umræðum um þetta efni hjá ráðh. Alþfl., sem þeir tóku þátt í í ríkisstj., að þeir ætluðu að koma í veg fyrir að þessa fjármagns yrði aflað og það notað í því skyni sem lög mæltu fyrir.

Það kom fram í svari hæstv. ráðh. að á annað hundrað millj. kr. hafa farið til sérstakrar ráðstöfunar í landbúnaði. Ég vil út af fyrir sig ekki átelja það. En það er mjög til samræmis við aðrar aðgerðir núv. hæstv. starfsstjórnar í sambandi við málefni iðnaðarins, að svo skuli hafa verið haldið á þessu máli að ákveðið var að nýta ekki fyrirliggjandi lántökuheimild undir því yfirskini að ekki mætti bæta við erlendum lántökum. Ég held að það sé umhugsunarefni fyrir menn, hvort það eigi að vera leiðarstjarna okkar að við eigum að hafna því að taka lán — og þar með erlend lán — til brýnna aðgerða í atvinnulífi landsmanna og þá ekki síst á sviði iðnaðar, en auðvitað einnig á sviði annarra atvinnuvega. Ég tel að það séu engin rök fyrir því að hika við að afla lánsfjár til aðgerða sem eiga að koma atvinnuvegum okkar til góða, eiga að auka framleiðni þeirra. Lántökur af slíku tagi og ráðstöfun fjármagns á, ef rétt er á haldið, að skila sér aftur á stuttum tíma í þjóðarbú okkar.

Það hefur komið fram hjá ýmsum á undanförnum mánuðum og vikum, að það geti verið torvelt að efla þannig innlenda atvinnuvegi okkar að verulega meira verði til skipta í þjóðarbúskapnum en verið hefur. Þar er trú manna mjög misjöfn á hverju hægt sé að ná fram. Það er sannarlega skiljanlegt að þeir aðilar, sem þannig halda á málum að hika við að útvega nauðsynlegt fjármagn til þessara mála, hafi ekki mikla trú á því að hægt sé að ná árangri á þessu sviði. Ég tel að sú ákvörðun, sem hæstv. ráðh. greindi hér frá og tekin var af þessari hæstv. starfsstjórn, sem svo er kölluð, sé ekki gildari en svo að það beri að útvega þetta fjármagn til viðbótar þeim 2000 millj. kr. sem lög um stjórn efnahagsmála kveða á um að taka skuli að láni til hagræðingar í undirstöðugreinum atvinnulífsins, — það beri að bæta því fjármagni við á þessu ári til þess að efla undirstöður atvinnulífs okkar og sérstaklega til þess að auka þar framleiðni.