24.01.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

219. mál, hagræðingarlán til iðnaðar

Iðnrh. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að haga orðum mínum þannig að þau þurfi að vekja upp deilur, en ég get ekki orða bundist út af sumu sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði áðan.

Ég leit á það sem skyldu okkar í hinni svokölluðu starfsstjórn að halda þannig á málum að við ykjum ekki að óþörfu á þann vanda sem fyrir væri. Og ég tel það eitt af vandamálum okkar, hve ríkið er í miklum skuldum. Þess vegna, þó mér væri alveg ljóst að líka væri nauðsyn að efla iðnaðinn, sjávarútveginn og landbúnaðinn eftir þeim línum sem getið er um í efnahagslögunum sem við höfum verið að ræða um, taldi ég sjálfsagt og skylt að búa samkvæmt þeim aðstæðum sem fyrir hendi voru. Ég taldi þýðingarmest að verjast skuldasöfnun eins og málin stóðu. Þess vegna fylgdi ég þeirri tillögu, sem kom fram í ríkisstj., að láta við svo búið sitja, fyrst fyrrv. ríkisstj. hefði ekki útvegað þetta fé skyldum við ekki heldur gera það og ætla frekar að málin þróuðust þannig, að fremur væri vel búið en illa búið þegar næsta ríkisstj. tæki við. Það var þetta sem ég vildi taka fram.

Að sjálfsögðu lít ég svo á, að stundum verður að taka erlend lán til að efla vissar atvinnugreinar. En mér var ekki ljóst að á þessu stigi málsins væri það rétt, af því að við yrðum að búa við þær aðstæður sem fyrir hendi voru. Það er dálítið annað fyrir ríkisstj., sem hefur eitthvert langtímamarkmið fram undan, heldur en aðra, sem býst við að vera kannske farin eftir einn mánuð, að taka stórar ákvarðanir. Í þessu tilfelli er ég þeirrar skoðunar, að þeir, sem búast við að sitja stutt, verði framar öðrum að gæta þess að skuldir hækki ekki.