24.01.1980
Efri deild: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

79. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til að greiða fyrir ákvörðun fiskverðs frá 1. jan. 1980, en um áramót gengu úr gildi lög nr. 88/1979 um 9% olíugjald til fiskiskipa utan skipta. Meginefni þessa frv. er að lögfesta sams konar olíugjald og gilti á árinu 1979, en lækka það í 5%. Þörfin fyrir gjald af þessu tagi er enn brýn, því að olíuverðshækkunin, sem var tilefni upphaflegu lagasetningarinnar um olíugjald, hefur reynst bæði meiri og langvinnari en vonast var til þegar gjaldið var fyrst ákveðið.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að engin atvinnugrein hefur orðið jafnharkalega fyrir barðinu á hinni gífurlegu olíuverðshækkun á síðustu misserum og sjávarútvegurinn. Þegar í upphafi síðasta árs var olíukostnaðurinn útveginum þungbær og síendurteknar hækkanir á olíuvörum frá þeim tíma hafa enn aukið á þennan vanda. Góð aflabrögð hafa hins vegar bætt nokkuð úr skák. Gasolíuverð er núna rúmlega 155 kr. á lítra, en var fyrir tæpu ári 58 kr. Svartolíuverðið er núna 108 500 kr. pr. tonn, en var 41 800 kr. pr. tonn fyrir ári. Fram undan er hætta á frekari hækkun, en þó eru vonir við það bundnar að nýir viðskiptasamningar við breskt ríkisolíuhlutafélag geti dregið úr þeirri hættu þegar kemur fram á síðari hluta ársins. En allt er það þó háð mikilli óvissu.

Í fyrsta skipti voru sett lög um olíugjald í marsmánuði á s.l. ári, um 2.5%. Síðan var það hækkað í 7% frá 15. maí og enn um mitt ár, eða frá 20. júlí, var olíugjaldið utan skipta hækkað í 12%, en að auki kom þá 3% olíugjald til skipta, enda höfðu laun launþega í landi almennt hækkað um 3% í júní.

Hinn 28. sept. s.l. varð samkomulag í yfirnefnd Verðlagsráðs um nýtt fiskverð, er gilti frá 1. okt. Ákvörðunin fól í sér að skiptaverð hækkaði um 9.2%. Var forsendan fyrir þeirri ákvörðun að olíugjald til fiskiskipa, sem hafði verið 15%, yrði 9% frá 1. okt., og jafnframt var 3% olíugjaldið, sem komið hafði til skipta, fellt inn í fiskverðið. Um þessa lausn varð algert samkomulag.

Þegar verð á olíu var ákveðið hinn 10. des. s.l. var talið að þær gasolíubirgðir, sem þá voru verðlagðar, entust út janúar, en svartolíubirgðir fram í miðjan febrúar. Við þá verðákvörðun var miðað við skráð verð í Rotterdam, sem er 328.83 dollarar að fob-verðmæti, en í des. hefur verðið verið hærra eða á bilinu 350–360 dollarar og í janúar hefur það verið yfir 360 dollara. Það er því líklegt að hér sé um að ræða 7-9% hærra verð samkv. Rotterdam-skráningu en við var miðað í desembermánuði s.l. Gefur það nokkra tölulega hugmynd um hvað fram undan kunni að vera að því er gasolíuverð varðar.

Svartolíuverð hefur hins vegar lítið breyst frá því að verðákvörðun var tekin, þannig að það eru ekki líkur á umtalsverðri breytingu á svartolíuverði á næstunni ef dæma má af markaðsverði.

Til marks um þær upphæðir, sem hér eru til viðmiðunar, má benda á að 7% hækkun á olíu mundi kosta fiskveiðarnar um 1500 millj. kr. á ári. Með tilliti til þess, hvernig horfur eru nú, er ráðlegt að halda áfram að hafa olíugjald, en hins vegar skynsamlegt að lækka það, enda til þess svigrúm, úr 9% í 5%.

Það má minna á í þessu sambandi að útflutningsgjald af sjávarafurðum mun lækka samkv. frv., sem liggur fyrir Alþ., úr 6% í 5.5% og þannig verða til þess að létta greiðslu olíugjaldsins ef að lögum verður.

Það er megintilgangur þessa frv., eins og reyndar tveggja annarra frv. sem liggja fyrir Nd., að tryggja sem best hag sjávarútvegsins á árinu 1980 og greiða fyrir fiskverðssamningum sem nú eru í deiglunni og virðist fyrirsjáanlegt að samkomulag geti náðst um, enda verði þau frv. að lögum, sem liggja fyrir hv. Alþ., og þ. á m. frv. sem hér er mælt fyrir. Með tilliti til þess að fiskverðsákvörðun hefur dregist mjög vil ég beina því til d. að hún hraði afgreiðslu þessa lagafrv. eftir föngum þannig að mál þessi öll geti, ef mögulegt er, verið frágengin í kvöld. Það mundi draga úr óvissu í þjóðfélaginu.

Ég legg að lokum til að málinu verði vísað til hv. sjútvn. og 2. umr.