24.01.1980
Efri deild: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (612)

79. mál, olíugjald til fiskiskipa

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Það blasir að vísu við okkur að engum verður hagur að því að við tefjum afgreiðslu mála af þessu tagi, eins og hagað er olíugjaldsmálinu sem hér liggur fyrir. Hitt er okkur öllum í fersku minni, með hvaða hætti olíugjaldsmálið bar á fjörur okkar síðast, í fyrra, og einnig að óskað var eindregið eftir upplýsingum um skiptingu gjaldsins mjög einarðlega í desember. Ég tel með öllu óviðunandi að þannig skuli staðið að málinu að Ed. sé sett í slíka tímaþvingun sem raun ber vitni um.

Varðandi okkur Alþb.-þm. hér í d. er skemmst af að segja, að við erum boðaðir til þingflokksfundar nú kl. 4, einnig að boðaður hefur verið sameiginlegur fundur þingflokks og framkvæmdastjórnar kl. 5 og undan því verður ekki vikist að við sækjum þá fundi.

Ég ítreka að ég vil ekki á nokkurn hátt tefja fyrir eðlilegri afgreiðslu þessa máls. En ég sé ekki að það geti staðið nokkrar vonir til þess að deildin afgreiði þetta mál í dag. Það er fráleitt. Vandræðaskapur hæstv. sjútvrh. er viðfangsefni út af fyrir sig, e.t.v. í lauslegum tengslum bæði við tíma og rúm og er þá sérstakt umhugsunarefni fyrir þingflokk Alþfl., en við hljótum að ætla okkur þann tíma, sem þegar hafði verið ákveðinn,til annarra þingstarfa.