24.01.1980
Efri deild: 24. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

79. mál, olíugjald til fiskiskipa

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. hefur oftar en nú haft þann hátt á að koma með mál sín svo seint til þingsins að allur tímafrestur er nánast úti. Þinginu er stillt upp við vegg eins og hæstv. ráðh. gerði nú. Það hefur ekki tóm til að skoða málið á eðlilegan hátt, enda málið umdeilt. Það er ekki sök þingsins, hvorki þessarar hv. d. né einstakra þm., þótt ekki takist að afgreiða málið innan örfárra klukkustunda frá því að hæstv. ráðh. þóknast að leggja það fyrir deildina.

Ég vil taka skýrt fram, að það er hæstv. sjútvrh. sem með seinagangi sínum og töfum í þessu máli ber alla ábyrgð á því hve seint ákvarðanatakan hefur gengið. Það er hvorki samboðið hæstv. ráðh. né þinginu að leggja jafnveigamikið mál í efnahagskerfi landsins og jafnumdeilt mál og hér er á ferðinni fyrir þingið með þeim hætti að mönnum sé gefinn nánast nokkurra klst. frestur til að athuga málið og afgreiða það, enda hefur hæstv. ráðh. óskað eftir að það verði afgreitt í kvöld. Ef málið var í slíkri tímaþröng sem hæstv ráðh. vill hér láta að liggja bar honum að hafa forgöngu um að leggja málið fyrir þing fyrr. Þar að auki hefur hæstv. ráðh. átt hlut að þeim stjórnarmyndunarleik, sem formaður Alþfl. stundar þessa dagana, og hefur í þeim leikaraskap sent þingflokkunum bréf sem hann sjálfsagt krefst svara við, þannig að það er flokkur ráðh., Alþfl., sem á meginsök á þeim fundahöldum sem eru í þinginu í dag fyrir utan deildafundi.

Það er því á engan hátt hægt að sakast við aðra en hæstv. ráðh. og flokk hans Alþfl. ef töf verður á afgreiðslu mála hér. Ég tel fullkomlega óverjandi að olíugjaldinu sé hvað eftir annað ýtt í gegnum þingið með þeim þrýstingi að eðlilegar upplýsingar og eðlilegar umr. um jafnumdeilt atriði fáist ekki.