24.01.1980
Efri deild: 26. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

68. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er hluti af stærri heild, nefnilega um breytingu á lögum um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, en frv. liggur fyrir um það samkv. næsta dagskrárlið.

Meginefni beggja þessara frv. er í fyrsta lagi að greiða fyrir ákvörðun fiskverðs, sem er nú um það bil að fæðast, og það liggur ljóst fyrir að á grundvelli þeirra frv. til l., sem hér eru til meðferðar, og þess frv. til l., sem var til meðferðar áðan, mun unnt að ganga frá fiskverði.

Í annan stað er þess að geta, að hér er um að ræða nýmæli af því tagi að aflajöfnunarbótum eða verðuppbótum á vannýttum tegundum er komið í fastan sérgreindan farveg og séð til þess að sérstök deild, sem stofnuð er innan Aflatryggingasjóðs, hafi tekjur til að standa undir væntanlegum bótum af þessu tagi.

Þá er gert ráð fyrir sérstöku framlagi til úreldingarstyrkja sem munu renna til aldurslagasjóðs og vera þar til úthlutunar eftir reglum sem sjútvrn. setur.

Enn er það, að útflutningsgjald af sjávarafurðum mun samkv. frv. um útflutningsgjald af sjávarafurðum lækka úr 6% samkv. gildandi lögum í 5.5%, en á s.l. ári var það reyndar 5% samkv. sérstökum lögum. Það er skoðun þeirra aðila, sem um þessi mál hafa fjallað, og þá sérstaklega nefndar, sem ég skipaði til þess að líta á hlutverk Aflatryggingasjóðs, að hér sé um skynsamlega breytingu að ræða, og hefur nefndin öll orðið sammála um að mæla með því að frv. verði bæði samþykkt.

Inn í frv. um Aflatryggingasjóð eru teknar breytingar, sem áður hafa verið samþykktar í lögum, þannig að lögin um Aflatryggingasjóð liggja þá fyrir með heildstæðum hætti eins og búningur þeirra er hér.

Ég trúi að hv. þm. í d. hafi haft tækifæri til að athuga þau frv., sem hér liggja fyrir, og þekki þess vegna efni þeirra allvel og því sé ástæðulaust að fjölyrða mjög um þetta efni, enda skýra bæði frv. sig mjög vel með aths. sem þeim fylgja.

Ég vil vænta þess, að d. geti haft skjóta afgreiðstu á þessum málum. Ég legg til, að frv. til l. um breyt. á lögum um útflutningsgjald af sjávarafurðum verði vísað til 2. umr. og n., og vænti þess, að unnt verði að ljúka afgreiðslu þessara mála í kvöld.