24.01.1980
Neðri deild: 27. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

79. mál, olíugjald til fiskiskipa

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur fjallað um þetta mál á fundi sínum og eins og menn hafa auðvitað tekið eftir var tíminn naumur þannig að um málið hefur ekki farið fram ítarleg umr. í n. á þeim fundi. Hins vegar var málið rætt áður en það kom til n. og fyrir hagkvæmni sakir í morgun, þegar hin sjávarútvegsmálin voru rædd, þau sem voru afgreidd í dag, þannig að málið hefur fengið skárri meðferð en tími sá, sem við vitum að fór í síðasta fund, gæti bent til.

Það er ævinlega afar óæskilegt að taka fram hjá skiptum eitthvað af verðmæti aflans. En ástandið varð óeðlilegt þegar olía hækkaði svo mjög sem við vitum að gerðist hér, og sjómenn sættu sig við að olíugjaldið yrði tekið fram hjá skiptum. En nú er lagt til að olíugjaldið verði lækkað úr 9% í 5%. Þá fagna sjómenn auðvitað þeim hluta sem þeir fá nú til skipta, en að sama skapi gæti ég trúað að þeir menn væru óánægðir sem þurfa að gera út á togveiðar með þessari dýru olíu með mun lægra olíugjaldi. Það er nefnilega segin saga að dauði eins er annars brauð í þessu efni. Það hefur einnig verið bent á að olíugjaldið kemur ákaflega misjafnlega niður vegna mismunandi aðstöðu á mörgum sviðum hjá flotanum.

N. hefur orðið sammála um að samþykkja þetta olíugjald og leggur til að frv. verði samþ. óbreytt. Tveir hv. nm. voru fjarstaddir afgreiðslu málsins, þeir hv. þm. Karvel Pálmason og hv. þm. Halldór Blöndal.