18.12.1979
Efri deild: 4. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

29. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. til l. um breyt. á lögum útflutningsgjald af sjávarafurðum og varðar sérstakan afslátt á útflutningsgjaldi í sambandi við síldarsöltun, þ.e. afslátt af síldartunnunum.

Núverandi útflutningsgjald er 5% af fob-verðmæti útfluttra sjávarafurða og má heita að það sé almenn regla. Í eldri lögum um útflutningsgjald - fyrir breytingu á sjóðakerfi sjávarútvegsins 1976 — var heimild að draga frá fob-verðmæti saltsíldar ákveðna fjárhæð vegna umbúðakostnaðar og var þessi heimild t.d. notuð á árinu 1975. Við sjóðakerfisbreytinguna var þessi heimild felld niður, enda var útflutningsgjald þá lækkað verulega og reynt að afnema sem flest sérákvæði.

Síldarsöltun hefur algjöra sérstöðu að því er varðar umbúðakostnað. Tunnurnar eru fluttar inn og síðan út aftur nokkrum mánuðum seinna og eru þá að meðaltali nær fjórðungur af því verðmæti sem útflutningsgjald er lagt á. Tunnurnar sjálfar eru nær fjórðungur af því verðmæti, sem útflutningsgjaldið er lagt á samkv. þessu kerfi. Í öðrum greinum fiskvinnslu er umbúðakostnaðurinn innan við 3% af tekjunum. Einnig má nefna að síldarsöltunin keppir að nokkru leyti við frystingu um hráefni og munar þar miklu um umbúðakostnaðinn. Það er að vísu munur sem ræðst af ríkjandi aðferðum við framleiðslu, geymslu og flutning vörunnar, og hlýtur í sjálfu sér að vera brýnt verkefni að reyna að draga úr þessum kostnaði síldarsöltunarinnar á næstu árum. Hins vegar virðist ekki ástæða til að þessi munur aukist við álagningu útflutningsgjaldsins eins og nú er.

Kostnaður við hverja tunnu er nú nálægt 9 þús. kr., en einnig þykir rétt að leyfa frádrátt vegna kostnaðar við sérstök hjálparefni, svo sem krydd og sykur, og verður frádráttur þá alls 10 100 kr. á hverja saltaða tunnu. Útflutningsgjald af hverri tunnu lækkar við þetta um 505 kr. og bætir það afkomu síldarsöltunar að sama skapi.

Á s.l. hausti var útlit fyrir að afkoma síldveiða og síldarsöltunar yrði erfið á síldarvertíðinni í ár, og kom það fram í erfiðleikum við verðlagningu á síld innan Verðlagsráðs sjávarútvegsins og yfirnefndar þess. Í viðræðum við aðila í Verðlagsráði bentu fulltrúar síldarsaltenda á hinn mikla umbúðakostnað greinarinnar í samanburði við aðrar fiskvinnslugreinar og að óeðlilegt væri að sá munur kæmi einnig fram í álagningu útflutningsgjaldsins. Allir aðilar í Verðlagsráði voru sammála um þetta.

Það er nauðsynlegt að greiða fyrir síldveiðum og síldarsöltun, sem verið hefur vaxandi grein innan sjávarútvegsins frá því að síldveiðar hófust að nýju árið 1975. Til þess að svo megi verða taldi ég rétt að beita mér fyrir því, að þessi breyting verði nú gerð til lækkunar á útflutningsgjaldi, og í því skyni er þetta frv. flutt.

Hér er gert ráð fyrir að frádráttur frá fob-verðmæti saltsíldar vegna kostnaðar við umbúðir og sérstök hjálparefni verði heimilaður með ákvæði til bráðabirgða við lögin um útflutningsgjald og eingöngu bundinn við framleiðslu á síldarvertíð 1979. Með þessum hætti væri ekki tekið upp sérákvæði í meginmáli laganna, en tekið tillit til sérstöðu síldarsöltunar að því er varðar umbúðakostnað í ljósi erfiðrar afkomu í ár. Áætla má að lækkun útflutningsgjalds nemi alls um 90 millj. kr.

Nú er að hefjast útflutningur á þeirri síld sem hefur verið söltuð á þessum vetri, og þess vegna tel ég ákaflega mikilvægt að þetta frv., sem ég vænti að samstaða geti verið um, nái fram að ganga fyrir jól svo að það þurfi ekki á nokkurn hátt að standa í vegi fyrir eðlilegri afgreiðslu málsins til síldarsaltenda þegar útflutningur þeirra fer nú að hefjast.

Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og sjútvn.