28.01.1980
Efri deild: 29. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

77. mál, niðurgreiðsla á olíu til upphitunar húsa

Tómas Árnason:

Herra forseti. Þetta frv. til l. um niðurgreiðslu á olíu til upphitunar húsa er eitt af þeim málum sem ekki þolir neina bið, vegna þess að um fimmtungur þjóðarinnar býr nú við ástand sem er gjörsamlega ófullnægjandi og getur ekki varað lengi án þess að það hafi alvarlegar afleiðingar af ýmsu tagi. Þess vegna verða Alþ. og ríkisstj. að bregðast fljótt við í þessu efni og bæta úr því ófremdarástandi sem ríkir í upphitunarmálum þjóðarinnar. Eins og 1. flm. tók réttilega fram ríkir mikið misrétti í þessum efnum vegna hækkunar á olíuverði. Þetta hefur margvíslegar afleiðingar fyrir líf manna og afkomu og tekur á sig ýmsar skringilegar myndir, eins og t.d. ef athugað er samhengið milli upphitunarkostnaðar og launa í landinu. Það er ekki alveg vansalaust fyrir Alþ. og ríkisstj. að búa við kerfi sem er þannig, að ef hitaveitugjöld í Reykjavík eru hækkuð, þá hækka öll laun í landinu, vegna þess að þessi liður gengur inn í vísitölugrundvöllinn. Ef aftur á móti upphitunarkostnaður vex stórkostlega, margfaldast úti um landsbyggðina, þá verður engin breyting á launum vegna þess að vísitölugrundvöllurinn er miðaður við framfærslukostnað í Reykjavík. En þetta er aðeins ein mynd af þessu máli, sem ég ætla ekki að fara að efna til umræðna um, þ.e. nauðsynina á því að gera breytingar á vísitölugrundvellinum. Það er allt annað mál.

Menn standa frammi fyrir því, að tvær olíukreppur hafa skollið á á einum og sama áratug. Hækkun á verði gasolíu til húshitunar hefur orðið slík, að hún nemur hvorki meira né minna en 150 kr. á hvern einasta lítra. Verðið var 5.30 kr., en er nú 155.25 kr., hefur sem næst 30-faldast. Þessi röskun á högum manna er svo stórfelld að henni má hiklaust jafna til, eins og segir orðrétt í grg. fyrir frv., „áfalla vegna náttúruhamfara“.

Í árslok 1973 eða þar um bil þrefaldaðist olíuverðið og hélt áfram að hækka fram á árið 1974, svo að um mitt ár 1974 hafði olíuverð fjórfaldast miðað við það sem var á miðju ári 1973. Þá var auðvitað nauðsynlegt að grípa til ráðstafana til að draga úr hitunarkostnaði þess íbúðarhúsnæðis, sem kynt var með olíu. Og þá var, eins og frummælandi tók fram, ákveðið að verja sem svaraði 1% söluskatts til þess að greiða niður olíu til húsahitunar. Olíukreppan, sem skall á efnahagslíf okkar á árinu 1979, var raunverulega enn þá stórfelldari en jafnvel olíukreppan 1973 og 1974. Ég hef kynnt mér hvernig þessi samanburður lítur út. Ef miðað er við meðalgengi dollars á árinu 1979 námu útgjöld Íslendinga til olíukaupa það ár 52 milljörðum kr., eða höfðu nákvæmlega tvöfaldast frá árinu áður. Útgjöldin jukust um 26 milljarða á einu einasta ári. Ef miðað er við sama mælikvarða varð hækkunin milli áranna 1973 og 1974 12 milljarðar, eða m.ö.o. olíuinnkaup hækkuðu úr 8 milljörðum 1973 í 20 milljarða 1974. Þessi samanburður sýnir glögglega að höggið af olíukreppunni á s.l. ári er enn þá tilfinnanlegra en nokkru sinni var 1973 og 1974.

Fyrst nam olíustyrkurinn um 1800 kr. á ársfjórðungi á hvern mann. Síðan hefur hann verið hækkaður jafnt og þétt, fyrst í 2600 kr., síðan í 5000 kr. og nemur nú 18 000 kr. Það er nálægt lagi, að olíustyrkurinn hafi tífaldast á sama tíma og olíukostnaðurinn hefur þrítugfaldast. Þetta sýnir í raun og veru ljóslega hvað hér er um að ræða alvarlegt mál.

Olíukreppan bitnar auðvitað fyrst og fremst á þeim sem þurfa að nota olíuna, og í þessu tilfelli þeim sem þurfa að hita upp híbýli sín með olíu. Það kemur fram í grg. fyrir frv., að áætlaður kostnaður við hitun 450 m3 einbýlishúss er nú rétt um 1 millj. kr. ef kynt er með olíu. Og ef fjögurra manna fjölskylda býr í húsinu mundi olíustyrkurinn nema 288 þús. kr. Með þessu frv. er lagt til að tvöfalda olíustyrkinn, í þessu tilfelli þannig að hann mundi þá nema 576 þús. kr. á ári.

Hér er um að ræða kyndingarkostnað sem nemur 700 þús. kr. á einu ári eða um 60 þús. kr. á hverjum einasta mánuði. Ég held að það sé nærri lagi, að í miklu stærra einbýlishúsi hér í Reykjavík eða á hitaveitusvæði Reykjavíkur mundi upphitunarkostnaður ekki nema 200 þús. kr., sennilega innan við 200 þús. kr. (Stj: Hvað miklu stærra?) Til þess að fá samanburð held ég að sé ekki fjarri lagi að áætla að upphitunarkostnaður hér á Reykjavíkursvæðinu í einbýlishúsi, sem er 450 m', mundi nema nálægt 100 þús. kr., þannig að munurinn er sjöfaldur. Þetta er nú aðeins til að gefa til kynna hvað hér er um að tefla. Og hér verður auðvitað að grípa í taumana, því að það er ekki hægt að búa við þetta ástand til lengdar. Og það eru engar líkur á, því miður, að það verði lækkun á verði gasolíu til upphitunar, þvert á móti er ástæða til að ætla að það fari hækkandi a.m.k. um sinn. Ég hef ekki trú á því, að þróunin verði á þá leið á næstunni og kannske ekki á næstu áratugum, að olíuverð lækki aftur nema þá lítillega. Ég held að tilhneigingin hljóti að verða í hækkunarátt. Hvað þessi stökk verða stór og hvað þetta verður hratt, um það er erfitt að spá.

Það eru um 65–70% af íbúum landsins, sem njóta hitaveitu, en um 20%, sem verða að kynda hús sín og híbýli með olíu, og allt að 10%, sem hita upp með rafmagni. Það gefur auga leið, að það er ákaflega þýðingarmikið að bregðast fljótt við í þessum efnum og hraða framkvæmdum við hitaveitur og raunar orkuframkvæmdum til þess að minnka olíukaup til landsins til upphitunar. Á s.l. sumri beitti fyrrv. ríkisstj. sér fyrir því að hraða sérstaklega þessum framkvæmdum. Voru gerðar ráðstafanir til að afla fjármuna í þessu skyni. Um mitt sumar eða u.þ.b. var gefin út af hálfu ríkisstj. fréttatilkynning um þessi málefni og fengnar heimildir til fjáröflunar í þessu skyni. Þessu starfi þarf að halda áfram og frekar að síga á en hitt, því að í þessu felst auðvitað lausnin í þessum málum, að hagnýta þá orku sem fyrirfinnst hér í landinu.

Aðalreglan, sem kemur fram í þessu frv., felst í 1. og 2. gr. þess og í grg. fyrir frv., þar sem segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Meginatriði þessa frv. er, að komið sé til bjargar með því að gera mögulegt, að kostnaður við olíukyndingu húsnæðis verði á hverjum tíma sem næst því, sem upphitunarkostnaður er hjá nýjustu hitaveitunum, sem hafa jarðvarma að orkugjafa.“

Það er gerð sú till. í þessu frv. að breyta þeim reglum, sem gilt hafa í þessum efnum, á þá leið, að í stað þess að þetta sé hreinlega nefskattur sé einnig tekið tillit til stærðar íbúðarhúsnæðis. Það er alveg ljóst, að í mörgum tilfellum, og þá alveg sérstaklega þegar um gamalt fólk er að ræða, er þessi regla, sem hefur viðgengist, ekki nægilega réttlát. Það þarf að taka tillit til stærðar húsnæðis, til þess að hún verði réttlátari en hún er nú, því að hún hefur bitnað um of á gömlu fólki sem hefur ekki möguleika á því að breyta til um búsetu.

Samkv. frv. er verið að leggja til að verja 7–8 milljörðum kr. úr ríkissjóði til þess að greiða niður húshitunarkostnað. Þegar fyrrv. ríkisstj. undirbjó fjárlagafrv. á síðasta ári var fylgt ákveðinni stefnu sem sú ríkisstj. hafði markað í þessum málum, og kemur hún fram í grg. fyrir fjárlagafrv. sem ég lagði fram á haustþinginu. Þessi stefna var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er stefna ríkisstj., að umrædd hækkun olíuverðs leiði ekki til hækkunar á upphitunarkostnaði heimila.“ Gert var ráð fyrir að þessi mál yrðu til meðferðar á Alþingi þegar fjallað yrði um fjárlagafrv. Í fjárlagafrv. sjálfu var lagt til að verja 2.3 milljörðum kr. í þessu skyni. En það var auðvitað öllum ljóst þá, að það var hvergi nærri fullnægjandi og þetta mál þurfti sérstaka meðferð hér á Alþingi.

Ég tel það galla á þessu frv., að ekki skuli vera í frv. sjálfu gert ráð fyrir að afla fjár í þessu skyni. Eins og frummælandi tók fram eru ýmsar leiðir í þessu efni. Ég tel þær aðallega þrjár:

1) Að skera niður önnur útgjöld úr ríkissjóði sem svarar um 5 milljörðum kr., ef þetta frv. gengur fram, þar sem það gerir ráð fyrir útgjöldum sem nema 7–8 milljörðum, en á fjárlagafrv. eru 2.3 milljarðar.

2) Að afla sérstaklega fjár, eins og gert var 1974, til þess að standa undir þessum kostnaði.

3) Að fara einhvers konar blandaða leið í þessu efni. Ég fyrir mína parta er hlynntur því, að farin yrði sú leið að setja upp sérstakan tekjustofn í þessu skyni. Ég gæti vel hugsað mér að hann yrði eins og var 1974, að ákveðið yrði að hækka söluskatt um 1% og verja í þessu skyni þeim tekjum sem inn koma af því, þ.e. um 5 milljörðum kr., til viðbótar þeim 2.3 milljörðum úr ríkissjóði sem gert er ráð fyrir að leggja fram samkv. fjárlagafrv. í þessu skyni. En ef það yrði gert, þá væri eðlilegt að reyna að ná samkomulagi um að tryggja til frambúðar, að þessi fjáröflun yrði eins og ástatt er tekin út úr vísitölugrundvelli.

Gert er ráð fyrir því í lögum um stjórn efnahagsmála o.fl., að frv. til l., sem lögð eru fyrir Alþ., skuli metin, lagt skuli kostnaðarmat á útgjaldaáform frv., sem hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, og að slíkt mat skuli liggja fyrir áður en ákvarðanir eru teknar, enda sé því skilað til þingnefndar á tilskildum tíma. Er gert ráð fyrir að fjárlaga- og hagsýslustofnun annist þetta kostnaðarmat.

Það er mikill galli, þegar menn leggja til veruleg útgjöld úr ríkissjóði og ætlast til að annað sé skorið niður, að gera ekki grein fyrir því, hvað það er sem á að skera niður. Ég er ekki reiðubúinn til að gera grein fyrir því, hvað á að víkja fyrir þessu, og þess vegna er ég hlynntur því, að sérstakur tekjustofn verði settur á fót til þess að standa undir þeim kostnaði sem leiðir af þessu frv.

Vonandi verður það svo fyrr en seinna að útgjöldin fara minnkandi. Frummælandi og 1. flm. frv. gerði grein fyrir því í sinni framsöguræðu, að útgjöld samkv. frv. eru breytileg. Eftir því sem miðar í þá att að fjölga hítaveitum og fleiri landsmenn eiga kost á að hita híbýli sín með hitaveitum minnka þessi útgjöld væntanlega. Þess vegna er engin ástæða til þess að ætla að sá tekjustofn, sem yrði settur á fót núna til þess að bregða hart við, þyrfti að standa um alla eilífð. Þetta er bráðabirgðaástand, sem ég er sannfærður um að allir sanngjarnir menn í öllum stjórnmálaflokkum eru sammála um að þolir ekki bið að leysa úr.

Ég geri ráð fyrir að þetta mál bíði nýrrar ríkisstj., vegna þess að hér er um að ræða veruleg útgjöld úr ríkissjóði, og ef það verður löng bið, sem við skulum vona að verði ekki, þá er þeim mun meiri ástæða til að tryggja tekjur til að standa undir þessu máli. Þá er ekkert óeðlilegt að Alþ. afgreiði málið þannig. En ég hef ekki trú á því, að auðvelt verði að fá fljótan framgang þessa máls, nema tekjur verði tryggðar, því að ef það verður ekki gert, þá hlýtur það að bíða nýrrar ríkisstj., nýrra fjárlaga, að kveða á um hvernig þessum útgjöldum verður mætt. Þess vegna hallast ég að því, eins og ég hef sagt hér áður, þó að ekki hafi verið gerð um það till. í frv., að það verði tryggður tekjustofn til þess að standa undir þeim kostnaði, sem hér um ræðir, og að afgreiðslu þessa máls hér á Alþ. verði hraðað sem allra mest, því að það þolir enga bið.