28.01.1980
Efri deild: 29. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

77. mál, niðurgreiðsla á olíu til upphitunar húsa

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Hæstv. forseti. Ég vil taka fram, að hér er hreyft máli í frv. á þskj. 112 sem er ekki aðeins athyglisvert, eins og menn hafa bent á, heldur líka svo knýjandi, að Alþ. og ríkisstj. verða að leysa það nú á þessu þingi. Það er ekki nokkur vafi á því, að hér er komið að máli þar sem skilur mest á milli um réttindi þéttbýlis og dreifbýlis. Hér er um misrétti að ræða sem hefur þegar haft mjög alvarleg áhrif á jafnvægi byggðar í landinu og mun, ef fram heldur, stuðla meira að því, að byggð raskist í þessu landi, en nokkurt eitt mál annað. Mér er t.d. kunnugt um, þó að vonandi séu ekki mörg tilfelli um slíkt, að gamalt fólk, sem hefur ekkert fyrir sig að leggja annað en lífeyristekjur, hefur orðið að neita sér um einföldustu þarfir, hefur orðið að segja upp dagblaðinu sínu og sjónvarpinu, einfaldlega sökum þess að hinar lágu tekjur, sem þetta fólk hefur, duga ekki til að greiða kyndingarkostnað til viðbótar við þessar eðlilegu mannlegu þarfir. Þannig hefur þetta gamla fólk orðið að leggja það á sig, til þess að geta haldið á sér hita, að segja upp áskrift að blaði, sem það hefur keypt áratugum saman, og segja upp áskrift að sjónvarpi. En fyrir margt þetta gamla fólk er sjónvarpið næstum það eina sem það getur haft sér til dægrastyttingar.

Hins vegar vil ég taka undir það, sem hér hefur áður fram komið, að gallinn á frv. er að sjálfsögðu sá, að það gerir ráð fyrir að varið sé fjármunum sem ekki eru til. Til þess að hægt verði að gera það, sem frv. leggur til að gert verði, vantar auðvitað það sem við á að éta, að vantar peningana sem nota skal til þessara þarfa. Ég verð að segja eins og hv. þm. Tómas Árnason, að til þess að málið komist í höfn verður að sjálfsögðu að gera annað af tvennu: annaðhvort að útvega fjármagnið, sem mér virðist vera um 7 milljarðar kr. á árinu 1980, og þá væntanlega að frádreginni þeirri fjárhæð sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir, 2.3 milljörðum, — annaðhvort verður að útvega þetta fé með aukinni skattheimtu af einhverju tagi ellegar þá að skera niður framkvæmdir og framlög sem því svarar. Miðað við fyrri reynslu af slíku býst ég við, að þegar til á að taka veitist mönnum erfitt að finna þá liði, hvort það eru framkvæmdaliðir eða rekstrarliðir, sem þola svo mikinn niðurskurð, og hefur vafist fyrir mönnum að finna sparnaðarliði þó ekki væri nema fyrir broti af þeirri upphæð sem hér er um að ræða. Menn skyldu gera sér grein fyrir því, að um 80% af ríkisútgjöldum er beinn og óbeinn launakostnaður. Ekki er auðvelt að skera þar niður öðruvísi en að segja fólki upp vinnu. Hin svonefndu rekstrargjöld, sem eru að sjálfsögðu nokkuð mikil, eru það sem menn hafa yfirleitt höggvið í ár frá ári. Þau eru eingöngu nú orðið sniðin við brýnustu þarfir ríkis og ríkisstofnana, þ.e. húshitunarkostnað þeirra, ljósakostnað, póst- og símagjöld og annað slíkt, pappírskostnað, prentunarkostnað o.fl. Ég er hræddur um, þó þessar fjárhæðir séu háar í tölum fjárlaga, að erfitt sé fyrir menn að ná umtalsverðum niðurskurði þar, svo að ef menn ætla að skera niður fé sem einhverju máli skiptir, þá verða menn óhjákvæmilega að gera það á framkvæmdaliðum. Ég er hræddur um að það vefjist fyrir mönnum sem skera niður ríkisframkvæmdir umfram það, sem þegar hefur verið gert í því sambandi, um kannske 4–5 milljarða kr. Gallinn á frv. er að sjálfsögðu ekki sá góði vilji, sem í því kemur fram, né heldur hugmynd um lausn málsins, sem í frv. er að finna, heldur hitt, að Alþ. verður, ef það afgreiðir málið — sem það verður að gera með einum eða öðrum hætti — auðvitað að fá með einhverjum hætti þá peninga sem það á að nota í þessu skyni.

Ég vil aðeins í þessu sambandi skýra hv. d. frá þeirri vinnu sem núv. ríkisstj. hefur innt af hendi til undirbúnings því, að Alþ. geti kynnt sér þá kosti, sem um er að velja í sambandi við þessi húshitunarmál, og síðan gert upp hug sinn um hvaða kostur sé bestur.

Eins og hv. þm. Tómas Árnason tók fram, var gert ráð fyrir því, þegar fjárlagafrv. 101. löggjafarþings var lagt fram hér á Alþ. í haust, að verja til niðurgreiðslu á olíu til húshitunar 2.3 milljörðum. Þá þegar var ljóst að í þessari áætlun fólst mjög verulegur niðurskurður á greiðslu olíustyrks til húshitunar. Miðað við forsendur fjárlagafrv. hefði áætlunin um olíuniðurgreiðsluna þurft að vera a.m.k. 1200 millj. kr. hærri en var í frv. til þess að halda óbreyttu gildi olíustyrks miðað við olíuverð. Miðað við allar stærðir óbreyttar vantaði í fjárlagafrv. hæstv. fyrrv. ríkisstj. um 1200 millj. kr. til þess að olíustyrkur héldi verðgildi sínu, án þess þó að gert væri ráð fyrir því að olíuverð hækkaði nokkuð á árinu. Hvað sem segir í grg. fjárlagafrv., þá er það eigi að síður staðreynd, að áætlun frv. um greiðslu olíustyrks gerði ráð fyrir mjög verulegri lækkun styrksins milli ára í verðmæti. Hins vegar efa ég ekki og býst raunar við að það hafi verið ætlun hæstv. ríkisstj. að taka málið upp milli umr. um fjárlagafrv.

Við tókum þetta til sérstakrar skoðunar í fjmrn. og ríkisstj. og létum kanna fyrir okkur sérstaklega hvaða möguleikar væru til þess að taka á þessu olíuhitunarmáli. Miðað við að færa upphæðina í fjárlagafrv. til þess verðgildis, að olíustyrkurinn héldi verðgildi sínu milli ára, hefði, eins og ég sagði áðan, þurft að hækka hann í áætlun frv. um a.m.k. 1200 millj. kr. Ég lét athuga það sérstaklega, hvort hægt væri að afla þess fjár með álíka mikilli eða jafnhárri niðurfærslu á öðrum ríkisútgjöldum. Út af fyrir sig reyndist það vera hægt, þannig að ég hafði tilbúnar till. í ríkisstj. um hækkun olíustyrksins í fjárlagafrv. úr 2.3 milljörðum kr. í 3.5 og um 1200 millj. kr. lækkun ríkisútgjalda á móti. (Gripið fram í.) Það var hins vegar álit ríkisstj., að þessi aðgerð væri hvergi nærri nægjanleg til þess að tryggja hagsmuni þeirra sem þurfa á olíu að halda til upphitunar húsa, m.a. og einkum og sér í lagi vegna þess, að ég held að enginn, jafnvel ekki bjartsýnasti maður, hefði þorað að láta sér til hugar koma að olíuverðið héldist óbreytt á árinu 1980. Þó svo að lagt yrði upp í fjárlagagerð með áætlun um olíustyrk að upphæð 31/2 milljarður — sem á pappírnum virtist vera óbreytt verðgildi styrksins frá árinu 1979 — var þegar ljóst að það mundi ekki nægja. Það urðu að koma til aðrar aðgerðir en þær sem olíustyrkurinn í núverandi mynd gerir ráð fyrir.

Það er ekki aðeins nauðsynlegt að breyta um greiðsluform á styrknum — en eins og menn vita hefur fyrirkomulagið á greiðslu hans verið mjög gagnrýnt af ýmsum orsökum sem ég ætla ekki að fara út í hér — heldur var líka ljóst að okkar mati í ríkisstj. að breyta þurfi mjög verulega þeim aðferðum sem notaðar höfðu verið, bæði til þess að afla fjár til olíustyrksins og eins til þess að greiða hann út. Það þurfti einnig að útvega mun meira fé en þá 31/2 milljarð sem um var að tefla.

Í stórum dráttum er um að ræða tvær hugmyndir í sambandi við þessi olíuhitunarmál og jöfnun húshitunarkostnaðar aðrar en þær að greiða olíustyrk með mikils til óbreyttu fyrirkomulagi. Báðar þær leiðir, sem til athugunar geta komið í því sambandi, hafa verið í vinnslu og undirbúningi að tilhlutun ríkisstj., og er nú komið á það stig að hægt er að fara að vinna þær út í endanlega frumvarpsgerð, þannig að sú ríkisstj., sem væntanlega tekur við stjórnvelinum á næstu dögum — eða þá Alþ. sjálft og þingflokkarnir ef einhver dráttur verður á því — getur fengið þessi gögn og gert síðan upp við sig hvor aðferðin teljist þekkilegri.

Fyrri aðferðin er sú, að taka upp beina verðjöfnun á húshitunarkostnaði, þ.e. að taka ákvörðun um það — eins og t.d. er gert ráð fyrir í þessu frv. til l. um niðurgreiðslu á olíu til upphitunar húsa — hver vera skuli mestur munur á ódýrustu og dýrustu upphitun húsa. Í þessu frv. er lagt til að sá munur sé 2.5, þ.e. að hæsta húshitunarverð verði ekki meira en 2.5-falt vegið meðalverð hjá hitaveitum landsins. Þetta er að sjálfsögðu sú grundvallarákvörðun sem menn þurfa að taka ef ætlunin er að beita þessari beinu verðjöfnun á húshitunarkostnað. Aðferðin til að koma því fram gæti síðan verið sú, að sérstakur skattur yrði á lagður, ekki á hitaveitur til fullrar jöfnunar, eins og oft hefur verið um rætt, heldur á mismuninn, mismun á húshitunarverði hjá t.d. þeim hitaveitum, sem bjóða lægst verð, og á þeim húshitunarsvæðum, þar sem óhagkvæmasta verðið er. Þá yrði mismunurinn skattlagður með verðjöfnunargjaldi, þannig að enn yrði verulegur munur á hæstu og lægstu kostnaðarsvæðunum — að því leytinu til vel að merkja, að dregið yrði mjög úr sjálfum mismuninum, en þær hitaveitur eða þau hitaveitusvæði, sem í dag bjóða ódýrustu hitaorkuna, mundu áfram gera það, en munurinn á milli dýrustu og ódýrustu húshitunarsvæðanna yrði miklu minni en hann er nú. Þessi hugmynd er sem sé fólgin í því að skattleggja verðmismuninn. Til þess að hægt sé að framkvæma þetta þarf að fá nákvæmar upplýsingar um húshitunarkostnað á öllum helstu húshitunarsvæðum í landinu og með þeim húshitunaraðferðum sem þar er beitt. Þar á ég við hvort notuð er orka frá kyndistöð, hvort notuð er rafhitunarorka, hvort notuð er olíuorka til húshitunar ellegar hvort um er að ræða hitaveitu, eins og t.d. hér í Reykjavík.

Ríkisstj. hefur látið undirbúa þetta mál, þannig að hægt er að taka afstöðu til slíkrar framkvæmdar um jöfnun húshitunarkostnaðar. Mikið starf hefur þegar verið unnið, þ.e. að safna öllum upplýsingum um húshitunarkostnað á hinum ýmsu landssvæðum og með hinum ýmsu kyndingaraðferðum. Það er sem sé búið að afla allra þeirra umfangsmiklu gagna, sem þarf að kanna til þess að hægt sé að átta sig á því, hvernig þessi beina verðjöfnunaraðferð yrði í framkvæmd. Þeirri gagnasöfnun allri er lokið og þegar hafin smíði frv. til laga um slíka verðjöfnun, þannig að þeir sem mundu þá að málinu koma — hvort sem það yrði nú ríkisstj. eða Alþingi — gætu þar séð svart á hvítu hvernig hægt væri að beita slíkri tegund verðjöfnunar. Ég á von á því, að ekki sé eftir nema fárra daga verk við gerð slíks frv.

Fyrsti kosturinn, sem til greina kemur í þessu sambandi, er, eins og ég áðan sagði, mikils til óbreyttur framkvæmdamáti á greiðslu olíustyrks. Annar kosturinn er bein verðjöfnun, sem ég nefndi áðan. En þriðji kosturinn sem til greina kemur felst í nál. um till. um leiðir til jöfnunar á húshitunarkostnaði. Sú skýrsla var unnin á vegum iðnrn. í októbermánuði 1979. Þessi hugmynd gengur út á að fella niður núverandi verðjöfnunargjald af raforku, en innleiða sérstakan orkuskatt á allar tegundir orku og orkusölu. Næmi orkuskatturinn einni krónu á hverja kwst. og þá á hverja þá orkueiningu sem væri ígildi hennar. Þetta mundi þýða að það þyrfti að hækka verð á raforku um eina krónu á kwst. sérstaklega í þessu sambandi, sem gilti auðvitað um öll rafveitusvæði á landinu. Það þyrfti einnig að hækka verð á bensíni og olíum um 6.50 til 7 kr. á hvern lítra og þá jafnt á olíu, sem notuð yrði til húshitunar, og á annarri olíu.

Nefndin, sem gerði till. um þennan almenna orkuskatt, gerði síðan ráð fyrir að tekjunum af honum yrði skipt í tvennt, þær yrðu um 11 milljarðar kr. í heild, hluta af tekjunum yrði síðan ráðstafað í sérstakan sjóð til þess að hraða framkvæmdum í hitaveitumálum, en hluta af tekjunum yrði varið til þess að verðjafna raforku- og upphitunarkostnað.

Við nánari athugun hefur komið í ljós, að það er ekki hægt að framkvæma þetta með þeim hætti sem nefndin gerði ráð fyrir, það er ekki hægt að leggja slíkan orkuskatt á raforkusölu til stóriðju, því við höfum gert skuldbindandi samninga sem gera okkur það ekki fært. Sú niðurstaða verður að sjálfsögðu til þess, að tekjurnar af slíkum orkuskatti, sem álagður yrði eftir hugmyndum umræddrar nefndar, yrðu allmiklu lægri en nefndin gerði ráð fyrir, eða um 6–8 milljarðar í stað 11, þannig að líkur eru á því, ef þessi leið yrði valin, að þá yrði ekki eftir —nema þá með mun hærri orkuskatti — nein fjárhæð til þess að hraða orkuframkvæmdum í landinu eins og menn gerðu ráð fyrir, heldur mundi öll fjárhæðin og jafnvel meira til þurfa að fara aðeins í verðjöfnun á kyndikostnaði.

Þetta er þriðja meginleiðin sem til greina kemur. Það er einnig verið að leggja síðustu hönd á samningu frv. og útfærslu á verðjöfnun á húshitunarkostnaði samkv. þessari leið, svo að með fárra daga fyrirvara geta Alþingi, þingflokkar eða sú ríkisstj., sem við tekur, fengið nákvæma lýsingu á öllum þeim kostum, sem til greina koma, ásamt því, hvernig þeir yrðu fjármagnaðir, þannig að hægt væri að taka í senn afstöðu til aðferðarinnar um verðjöfnun og til þess, hvernig sú aðferð yrði fjármögnuð.

Ég vildi aðeins láta þetta koma hér fram til þess að skýra hv. þd. frá því sem gert hefur verið á umliðnum vikum til þess að reyna að undirbúa þetta mál eins vel og kostur er í hendur þingmanna eða væntanlegrar ríkisstj., svo að menn geti séð svart á hvítu og valið um þær þrjár meginleiðir til jöfnunar á húshitunarkostnaði sem öllum, sem um málið hafa fjallað, ber saman um að til greina komi.