28.01.1980
Neðri deild: 29. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

58. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Verðjöfnun á orku er til umr. hér á Alþ. á þessum vikum og mánuðum og það er sannarlega gott. Nú þessa stundina er verið að ræða um slíka verðjöfnun og aðferðir í því sambandi í báðum deildum þingsins. Í Ed. mun vera til umr. nýframlagt frv. um niðurgreiðslu á olíu til upphitunar, og hér erum við að ræða frv. sem gerir ráð fyrir að Byggðasjóður komi inn í verðjöfnun á raforku og til þess verði varið um þriðja hluta tekna Byggðasjóðs. Ég tel það mjög góðs vita að þessum málum er hreyft hér á Alþ. með ýmsum hætti. Það minnir okkur á það ófremdarástand sem ríkir í þessum efnum, bæði varðandi raforkuverð og eins upphitunarkostnað hjá þeim sem nota olíu, og við skulum vona að það styttist í að þessi mál verði tekin þeim tökum sem viðunandi mega teljast.

Ég tel að það sé mjög brýnt að stjórnvöld hafi forustu við lausn þessa máls og leitað verði samstöðu með flokkum um leiðir til viðunandi verðjöfnunar á orku í landinu. Ég tel að sú aðferð, sem till. sú fjallar um sem hér er til umr., leysi ekki mikinn vanda út af fyrir sig, að færa ákveðna upphæð í gegnum Byggðasjóð til þessa verkefnis, þó að ég skilji vel þann góða hug hv. flm. sem að baki býr. Með þessu mætti reikna með að meira fjármagn kæmi til þessara mála, ef menn hyrfu þá ekki að því að skerða verðjöfnunargjald á móti. Það verður ekki lesið út úr sjálfu frv. um breyting á lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins hvort auka skuli tekjur Byggðasjóðs sem þessu nemur, heldur einfaldlega að þriðja hluta tekna hans skuli varið í þessu skyni. Ég tel að það væri varhugavert að ætla Byggðasjóði þátttöku af þessu tagi nema fulltryggt væri að tekjur hans væru auknar sem því svaraði.

Ég tel hins vegar að æskilegt sé að fara aðrar leiðir í sambandi við verðjöfnunarmálin. Inn á þær var raunar komið í umr. um frv. til l. um verðjöfnunargjald af raforku sem var til meðferðar í þessari hv. þd. í desembermánuði s.l., þar sem það gjald var framlengt. Í þeim umr. kom það álit fram, bæði frá meiri hl. og minni hl. iðnn.

þessarar hv. d., að æskilegt væri að ríkið tryggði þeim raforkufyrirtækjum, sem búa við verstan fjárhag og eru því með mjög óeðlilega háar gjaldskrár, betri stöðu til þess að lækka þær og bjóða viðskiptavinum sínum raforku með eðlilegum kjörum.

Ég minnti á við umr. þá, að hjá fyrrv. ríkisstj. náðist um það samstaða að breyta mjög til varðandi fjármögnun Rafmagnsveitna ríkisins. Ég tel rétt að rifja hér upp, með leyfi hæstv. forseta, hvað segir í aths. með fjárlagafrv. um þetta efni, vegna þess að ég tel brýnt að hv. fjvn. taki eftir þessu atriði og taki það til meðferðar og fylgi því eftir. Ég trúi ekki öðru en sú samstaða, sem skapast hafði um þetta efni, ríki enn í þingsölum og það megi ná fram mjög verulegum árangri til bóta varðandi fjárhag Rafmagnsveitnanna og þá einnig varðandi verðjöfnunarmálin ef eftir því verður farið. En um þetta segir á bls. 221 í fjárlagafrv. sem lagt var fram á 101. löggjafarþinginu:

Ríkisstj. samþykkir að frá og með árinu 1980 beri ríkissjóður allan kostnað af félagslegum framkvæmdum sem Rafmagnsveitum ríkisins er falið að ráðast í og standa fyrir. Verði gert ráð fyrir slíku framlagi frá ríkissjóði í fjárlagafrv. fyrir árið 1980. Um mat á félagslegum þætti framkvæmda verði fjallað af fulltrúum frá fjárlaga- og hagsýslustofnun, Rafmagnsveitum ríkisins og iðnrn.

Ríkisstj. hefur jafnframt ákveðið að fram fari gagnger athugun og úttekt á rekstri Rafmagnsveitna ríkisins.“ Um það fjallaði þetta samkomulag ríkisstj. sem var tekið upp í aths. með fjárlagafrv. á haustþinginu, hinu stutta.

Að þessum málum var unnið hjá fyrrv. ríkisstj. með ýmsum hætti. Það er ekki rétt, sem fram kemur í grg. með þessu frv., að mismunur á raforkuverði hafi stöðugt verið að aukast, eins og þar segir, „og þó mest s.l. 2–3 ár og nemur víða 60–90% og á sumum töxtum jafnvel yfir 100%“. Það hefur oft komið fram, að með hækkun verðjöfnunargjaldsins, sem lögleitt var veturinn 1978–1979, tókst að verja þeim tekjum, sem þannig fengust, til þess að draga úr verðmismun á raforku á almennum taxta til heimilisnota úr 88% í 53.5% eða þar um bil, þannig að þarna var um talsverða leiðréttingu að ræða þó að það væri aðeins spor í þá átt sem verða þarf til þess að viðunandi geti talist. Þetta held ég að sé rétt að menn hafi í huga. En ég held að með breyttum tökum á fjárhag Rafmagnsveitnanna megi ná verulegum árangri í þessu máli og koma þessu fyrirtæki ríkisins á eðlilegan rekstrargrundvöll, þó að fleira þurfi til að koma. Allir hv. þdm. muna, geri ég ráð fyrir, eftir hugmyndum, tillögum og viðleitni fyrrv. ríkisstj. til þess að koma á einu orkuöflunarfyrirtæki í landinu sem byði raforku í heildsölu á sama verði til allra landshluta. Ef það mál hefði komist í höfn eins og ætlað var værum við nær því marki að hafa dregið úr verðmismun á raforku. Ég vænti þess, að ekki verði langt þangað til því takmarki verður náð, og að því þarf að vinna.

Þá vil ég í þessu samhengi geta þess, sem fram hefur komið í fjölmiðlum, að ég hygg, að nefnd, sem starfaði á vegum fyrrv. ríkisstj. og var skipuð af iðnrn., skilaði áliti varðandi tillögur um leiðir til jöfnunar á upphitunarkostnaði, en það var meginverkefni nefndarinnar. Hún skilaði áliti í októbermánuði s.l., rétt áður en fyrrv. ríkisstj. fór frá völdum. Því nefni ég þetta hér, þó að þarna sé um að ræða jöfnun á upphitunarkostnaði, að í tillögum þessarar nefndar, sem vann sitt starf vel og rösklega, var gefin bending um breytta tekjuöflun til verðjöfnunar á orku. Það mál hefur ekki verið mikið í umr. síðan, en ég tel rétt að koma því hér á framfæri, því að þar er hreyft hugmynd sem ég tel að sé allrar athygli verð og eigi að athuga í alvöru varðandi verðjöfnun á orku. í þessu nál. segir í kafla sem heitir „Fjármögnun“ — við skulum líta í hann — varðandi fjármögnun til jöfnunar á húshitunarkostnaði, en þar er gert ráð fyrir að þyrfti um 7500 millj. kr. á fjögurra ára bili, lagði nefndin til: Núverandi verðjöfnunargjald af raforku og olíu verði fellt niður, en í þess stað lagður almennur orkuskattur á alla orkusölu í landinu, þar með talið orkusölu til stóriðju og orkunotkun til hitunar húsa. Orkuskatturinn verði ákveðinn 1 kr. á kwst., miðað við verðlag í sept. 1979, og lagður á endanlegan notanda orkunnar.

Heildarverðjöfnunargjald af raforku er áætlað á þessu ári um 2.7 mill jarðar kr. Verðjöfnunargjald af olíu er um 2.2 milljarðar á ári miðað við verðákvörðun í júlí 1979.

Heildartekjur af orkuskatti yrðu sem hér segir miðað við 1 kr. á kwst. eða jafngildi þess: Af raforku, þar sem um er að ræða 2700 gwst. ef stóriðjunotkun yrði talin með, samtals 2.7 milljarðar. Á heitt vatn, sem er jafngildi í gwst. eða 2700 gwst. umreiknað — þetta eru að sjálfsögðu áætlunartölur — einnig 2.7 milljarðar. Og af olíu og olíuvörum 6400 gwst. notkun og tekjurnar 6.4 milljarðar. Samtals fengjust þannig af 11 þús. gwst. 11 milljarðar kr. með orkuskatti sem næmi 1 kr. á hverja kwst. Og áfram segir í þessu nál.:

„Þetta fyrirkomulag mundi leiða til þess, að verðjöfnunargjald af olíu og bensíni, sem nú er um 3.50 kr. á lítra, félli niður. Orkuskattur að upphæð 1 kr. á kwst. jafngildir um 10 kr. á lítra, þannig að útsöluverð á bensíni og olíu mundi hækka um 6.50 kr. á lítra. Verðjöfnunargjald á raforku til almennrar heimilisnotkunar er nú 4–6 kr. á kwst. Orkuskatturinn mundi því leiða til lækkunar á raforkuverði um 3–5 kr. samkv. heimilistaxta. Raforkuverð til upphitunar mundi hins vegar hækka um 1 kr. á kwst svo og raforkuverð til stóriðju. Orkuverð á heitu vatni til upphitunar í Reykjavík mundi hækka úr 2.87 kr. á kwst. í 3.87 kr. á kwst., sem jafngildir um 35% hækkun. Upphitunarkostnaður með olíu mundi hækka úr 22 kr. á kwst. í tæpar 23 kr. á kwst.“

Og að lokum segir í álitinu um þessa fjáröflun og nýtingu hennar:

„Nefndin leggur til að tekjum af orkuskatti verði ráðstafað til verðjöfnunar á raforku, til verðjöfnunar á eldsneyti, til verðjöfnunar á upphitunarkostnaði, til Orkusjóðs vegna framkvæmda í orkumálum, til Orkustofnunar vegna rannsókna á nýtingu innlendra orkugjafa og leiðum til að draga úr olíuinnflutningi. Auk þess leggur nefndin til að í fyrstu verði hluta af orkuskatti varið til að fjármagna orkusparnaðarlán Húsnæðismálastofnunarinnar.“

Með þessari hugmynd, sem er sett fram í nefndinni, er vakin athygli á tekjuöflunarleið til verðjöfnunar á orku sem ég tel allrar athygli verða. Það er ljóst að þarna eru atriði sem þurfa gaumgæfilegrar skoðunar við. M.a. er þarna gert ráð fyrir að orkuskattur verði lagður á orkusölu til stóriðju. slík álagning á slíkum skatti er að sjálfsögðu samningsatriði og þyrfti að taka það upp sérstaklega við þá aðila sem þar er um að ræða. En ég tel að það sé eitt af brýnum atriðum í orkumálum okkar að fá fram leiðréttingu á því orkuverði sem stóriðjuver, fyrst og fremst álverið í Straumsvík, búa við, það hljóti að vera verkefni stjórnvalda á næstunni og næstu árum að leita leiða til þess að fá leiðréttingu á því verði sem þar er um að ræða. Þá getur gjaldtaka af þessu tagi einnig komið inn í myndina.

Ég vil í þessu sambandi minna á að víða um heim er nú í athugun að fá fram leiðréttingu á orkusölu og verði til orkufreks iðnaðar sem byggist á samningum sem gerðir voru meðan verðlag á orku var allt annað en orðið hefur eftir þróun síðasta áratugs, og við hljótum að gefa þessum atriðum gaum. Ég get tekið sem dæmi að í Noregi hafa þessi mál verið til athugunar að undanförnu, og er nauðsynlegt fyrir okkur að fylgjast með því sem þar er að gerast. Á Nýja-Sjálandi hefur samningum verið sagt upp að þessu leyti, og er einnig rétt að fylgjast með slíku. Þetta eru mál sem skipta okkur miklu, og það mál, sem hér er til umr., skiptir marga í þessu landi afar miklu og sú umr., sem hér fer fram á Alþ. um tillögur varðandi verðjöfnun á orku, minnir okkur á að þarna þarf að stíga skref í rétta átt fyrr en seinna. Þarna er hagur heilla landshluta og fólks í heilum landshlutum í húfi og þarna er á ferðinni hætta á stórfelldri röskun byggðar ef ekki verður við brugðist.

Ég met þann hug sem fram kemur í þessu frv., en ég tel að fara eigi aðrar leiðir í þessu sambandi, en vil síður en svo draga úr því, að þeirra verði leitað fyrr en seinna.