29.01.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

215. mál, rannsókn landgrunns Íslands

Iðnrh. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Fsp. hv. 5. landsk. þm. fjallar um mál er snerta bæði iðnrn. og utanrrn. Hef ég því haft samráð við hæstv. fors.- og utanrrh. varðandi svar mitt.

Í upphafi er rétt að minna á það, að síðan umrædd ályktun var gerð hafa gengið í gildi lög nr. 41 frá 1. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Er í þeim lögum að finna ákvæði um landgrunnið, m.a. um skilgreiningu þess, afmörkun milli landa og landgrunnsrannsóknir sem taka mið af þróun þessara mála að þjóðarétti, einkum í framhaldi af starfsemi Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Eins og fsp. þessari er háttað tel ég rétt að rekja nokkuð þróun þessara mála s.l. tvö ár, og felast í því yfirliti svör við þremur fyrstu liðunum í fsp. hv. þm.

Á s.l. ári var sitthvað aðhafst varðandi landgrunnsrannsóknir við Ísland svo sem almenn upplýsingasöfnun um landgrunnið. Í máli mínu hér á eftir mun ég af þessu tilefni víkja að niðurstöðum setlagakönnunarinnar sem framkvæmd var í árslok 1978 samkv. leyfi iðnrn. frá í ágúst 1978, en úr þeim rannsóknum var unnið á s.l. ári. Hef ég til upplýsinga látið dreifa til þm. prentaðri skýrslu um það mál.

Um starfsemi innlendra sérfræðinga er það fyrst að nefna, að á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í sept. 1978 var dr. Guðmundi Pálmasyni jarðeðlisfræðingi, forstöðumanni jarðhitadeildar Orkustofnunar, falið að vera sendinefnd Íslands til ráðuneytis. Á s.l. ári var hann svo skipaður í sendinefndina. Sat hann tvo fundi Hafréttarráðstefnunnar árið 1979 og af því tilefni tók hann saman fyrir íslensku sendinefndina greinargerðir um þau hafsbotnssvæði sem áhugaverðust eru með tilliti til réttinda okkar gagnvart öðrum ríkjum. Auk þess hefur verið fylgst gjörla með því sem fram hefur komið af hálfu annarra aðila um þessi svæði, m.a. að því er varðar Jan Mayen-svæðið.

Til þess að fjalla ítarlega um þekkingu okkar á landgrunninu og til að semja skýrslu um stöðu mála fór iðnrn. þess á leit við fjmrn. með bréfi, dags. 14. mars 1979, að sérstök fjárveiting yrði veitt til þess að unnt yrði að ráða tímabundið starfsmann við Orkustofnun til þess að safna og fjalla um gögn og upplýsingar varðandi hagnýtar rannsóknir og þekkingu á landgrunninu við Ísland, ekki aðeins með tilliti til olíuleitar, heldur einnig með tilliti til meðferðar mála á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Með bréfi fjmrn., dags 17. júlí 1979, var fallist á að veita umbeðna aukafjárveitingu, 6 millj. kr. Í byrjun október hóf síðan störf hjá Orkustofnun Karl Gunnarsson jarðeðlisfræðingur og vinnur hann nú að gerð yfirlitsskýrslu um núverandi stöðu þessara mála. Stefnt er að því, að skýrslugerðinni ljúki áður en næsti fundur Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna hefst 27. febr. n.k. Með þessum ráðstöfunum og öðrum, sem gerðar voru á s.l. ári, er stefnt að því að byggja upp hjá Orkustofnun haldgóða sérþekkingu til umfjöllunar um mál af þessu tagi í framtíðinni. í fjárlagatillögum fyrir 1980 lagði iðnrn. til að 11.3 millj. kr. yrðu á fjárlögum 1980 ætlaðar til þessarar starfsemi innan jarðhitadeildar Orkustofnunar. Í fjárlagafrv. því, sem nú liggur fyrir, er ekki gert ráð fyrir að hér sé um fasta stöðu að ræða, heldur áætlað fyrir því sem tímabundnu verkefni á fjárlögum 1980.

Þá hefur áður verið greint frá því hér á þinginu, að á árinu 1978 fóru fram viðræður á vegum iðnrn. við ýmsa erlenda aðila um rannsóknir á setlögum á landgrunninu norðan við landið.

Hinn 17. ágúst 1978 heimilaði iðnrn. rannsóknarfyrirtækinu Western Geophysical Corporation að framkvæma slíkar rannsóknir. Hér var um að ræða bergmáls-, segul- og þyngdarmælingar frá skipi á fjórum línum norðan við landið, samtals um 1100 km að lengd. Mælingar voru framkvæmdar í nóv. og des. 1978. Í umboði iðnrn. var Orkustofnun falið að hafa umsjón og eftirlit með framkvæmd þessari. Hafði hún um tíma eftirlitsmann, sérmenntaðan í jarðeðlisfræðum, um borð í skipinu og var það í samræmi við ákvæði leyfisins um að leyfishafa væri skylt að veita slíkum fulltrúa óhindraða aðstöðu til þess að fylgjast með öllum gangi rannsóknanna. Unnið var að mælinum í London á fyrri hluta árs 1979 og tók sérfræðingur Orkustofnunar, Ólafur Flóvenz jarðeðlisfræðingur, þátt í allri úrvinnslu gagnanna. Í samræmi við skilmála leyfisveitingarinnar afhenti síðan rannsóknarfyrirtækið iðnrn. eintak af öllum gögnum og niðurstöðum könnunarinnar á miðju s.l. ári og eru þau gögn öll í vörslu Orkustofnunar. Niðurstöðum þessarar setlagakönnunar hef ég látið dreifa til þm. í skýrsluformi, eins og fyrr er getið.

Meginatriði eru þau, að mæld var þykkt setlaga á sjávarbotninum norðan við landið á fjórum mælilínum, að samanlagðri lengd 857 km. Þrjár af þessum línum lágu út frá ströndinni, en sú fjórða hornrétt á þær nálægt brún landgrunnsins. Mælilínurnar voru í stórum dráttum ákveðnar samkv. tillögum rannsóknarfyrirtækisins, en af hálfu okkar Íslendinga voru þó gerðar á þeim nokkrar breytingar með hliðsjón af upplýsingum, sem aflað hafði verið með þyngdarmælingum á vegum Orkustofnunar, sem gerðar voru árið 1972–1973 innan ramma rannsóknaráætlunar landgrunnsnefndar. Kom í ljós að þær breytingar juku verulega upplýsingagildi setlaga setþykktarmætinganna. Miðlínan út frá landinu reyndist einna áhugaverðust með tilliti til setlaga. Þar kemur fram setlagalægð um 200 km löng og með hámarksþykkt setlaga um 4000 m. Sjávardýpi er þar hvergi meira en 400 m. Berggrunnurinn undir setlögunum er þarna sums staðar brotinn sundur og ná misgengi upp í setlögin, stundum alveg upp á sjávarbotninn. Jarðlagaskipaninni á þessum stað svipar að sumu leyti til þess sem fundist hefur á öðrum stöðum í heiminum þar sem kolvetni hafa safnast fyrir í setlögum. Á hinum mælilínunum koma einnig fram setlög, en mjög misþykk, allt að 2000 m þykk. Þau gögn, sem fengist hafa, gefa þó aðeins mjög grófa hugmynd um dreifingu setlaga á landgrunninu norðan við landið.

Þótt ofangreind könnun hafi að mörgu leyti gefið nýjar og áhugaverðar upplýsingar um setlög á íslensku yfirráða svæði, eru þó, ef lítið er til lengri tíma, rannsóknir á jarðlögum hafsbotnsins mjög stutt á veg komnar og þar þörf á myndarlegu átaki. Það helsta, sem gert hefur verið af hálfu okkar Íslendinga til þessa af almennum rannsóknum, eru jarðeðlisfræðilegar mælingar sem gerðar voru innan ramma landgrunnsnefndar á árunum 1972–1973. Ýmsar almennar rannsóknir hafa einnig verið gerðar af erlendum aðilum og þá með leyfi Rannsóknaráðs, en skil geta oft verið óglögg milli almennra og hagnýtra rannsókna. Þannig geta almennar rannsóknir í ýmsum tilfellum haft talsverða hagnýta þýðingu. Iðnrn. hefur falið Orkustofnun að fylgjast á hverjum tíma með stöðu þekkingar á þessum málum. Á þann hátt verður væntanlega hægt að gefa yfirlit yfir þekkingu okkar á hafsbotninum á hverjum tíma, eftir því sem tilefni gefast til, t.d. vegna þarfa sendinefndar Íslands á Hafréttarráðstefnunni.

Ég hef gert ráðstafanir til að samdar verði reglur um rannsókn á auðlindum landgrunnsins í samræmi við 2. mgr. 6. gr. laga nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Í því sambandi og við frekari aðgerðir á þessu sviði mun eins og hingað til verða gætt ítrustu náttúruverndarsjónarmiða.

Þá hyggst iðnrn. beita sér fyrir annars vegar nánari könnun, þéttari mælingum á þeim svæðum, er áhugaverðust reyndust úti fyrir Norðurlandi, og hins vegar frumkönnun á nýjum svæðum, t.d. á Íslands-Jan Mayenhryggnum og fyrir Suðurlandi. Ekki hefur enn verið tekin afstaða til þess, hvernig framkvæmdum verði hagað, en hugsanlegt væri áframhaldandi samstarf við Western Geophysical Corporation, annað hvort sem verktaka fyrir iðnrn. eða sjálfstæðan rannsóknaraðila er fái leyfi til frekari kannana á sama hátt og áður, en mjög góð reynsla verður að teljast af samstarfinu við rannsóknarfyrirtæki þetta. Að öðru leyti en því, sem felst í ofangreindri starfsemi, hefur ríkisstj. ekki átt frumkvæði að því að erlendir sérfræðingar starfi að landgrunnsrannsóknum við Íslands.

Ég vona að ég hafi hér gert fullnægjandi grein fyrir þeim atriðum sem felast í fyrstu þremur tölul. fsp. Að því er varðar 4. tölul. sérstaklega er rétt að taka fram, að samkomulag hefur enn ekki náðst á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna varðandi afmörkun landgrunns strandríkja. Hans G. Andersen, formaður sendinefndar Íslands, og dr. Guðmundur Pálmason hafa átt viðræður við sérfræðinga frá ýmsum löndum, þ. á m. Bandaríkjunum, Bretlandi, Færeyjum, Írlandi og Kanada, með hliðsjón af þeim gögnum sem Guðmundur hefur safnað saman. M.a. með skýrslu þá, sem nú er í vinnslu hjá Orkustofnun, sem viðmiðun verður þessum athugunum haldið áfram á næsta fundi ráðstefnunnar í mars með það fyrir augum að nægilega traustur grundvöllur verði fyrir hendi til stefnumörkunar, samningaviðræðna og ákvarðana af hálfu íslenskra stjórnvalda. Til þeirra mála, sem hér hafa verið rædd, þarf að veita sérstakar auknar fjárveitingar til langs tíma. Vilji Alþ. gera það er það gleðiefni allra sem að þessum málum vinna.