29.01.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

71. mál, smásöluverslun í dreifbýli

Fyrirspyrjandi (Sigurgeir Bóasson):

Herra forseti. Ég hef lagt fram eftirfarandi fsp. til hæstv. viðskrh.:

Á árinu 1976 var skipuð nefnd til að athuga sérstök vandamál smásöluverslana í dreifbýli. Þessi nefnd skilaði áliti og tillögum í apríl 1978. Hvað er álit ríkisstj. á tillögum nefndarinnar og hvað hefur verið unnið að því að bæta aðstöðu smásöluverslana í dreifbýli?

Tilefni þessarar fsp. eru hin sérstöku vandamál smásöluverslana í dreifbýli, en skipta má vandamálum smásöluverslana í dreifbýli í tvo meginþætti. Í fyrsta lagi eru það rekstrarvandamál og í öðru lagi uppbyggingarvandamál. Samkv. niðurstöðum margvíslegra athugana, sem gerðar hafa verið, er ljóst að rekstrargrundvöllur smásöluverslana í dreifbýli er mun lakari en rekstrargrundvöllur verslana í þéttbýli. Ástæður þessa eru margar og vil ég hér nefna sex atriði:

1. Vegna fjarlægðar frá heildsala verður veltuhraði vörubirgða hjá verslunum í dreifbýli mun minni en í verslunum í þéttbýli. Þessi staðreynd, að vörubirgðir verslana í dreifbýli hljóta ávallt að vera meiri en hjá verslunum í þéttbýli, hefur í för með sér að verslanir í dreifbýli hafa meiri rekstrarfjárþörf, vaxtakostnaður verður mun meiri, meira húsrými þarf fyrir lager og aukin hætta er á rýrnun vörubirgða.

2. Kostnaður vegna pantanaafgreiðslu og heimsendingar á vörum vegur þungt í dreifbýlisverslun, en er naumast til hjá verslunum í þéttbýli.

3. Lánsviðskipti eru mun meiri hjá dreifbýlisverslunum en hjá verslunum í þéttbýli og af því hlýst aukinn kostnaður.

4. Verslun með sérvörur — er þá átt við tilbúinn fatnað, búsáhöld, vefnað og fleiri þess háttar vörur — er sérstaklega erfið í dreifbýlinu vegna kostnaðar við birgðahald.

5. Ýmsir kostnaðarliðir, eins og rafmagn, hiti og sími, vega mun þyngra hjá verslunum í dreifbýli en verslunum í þéttbýli.

Að lokum vil ég nefna að smásöluálagning á landbúnaðarvörur er mjög lág og stendur ekki undir nema hluta dreifingarkostnaðar. Þetta kemur sérstaklega hart niður á dreifbýlisversluninni, þar sem hlutdeild landbúnaðarvara í sölu þeirra er mun meiri en hjá verslunum í þéttbýli.

Þau atriði, sem hér hafa verið nefnd, eru hin sérstöku rekstrarvandamál verslana í dreifbýli. Vegna erfiðs rekstrar í mörg ár og vegna þess að engin umtalsverð stofnlán hafa verið fyrir hendi til uppbyggingar verslunarhúsnæðis stendur dreifbýlisverslunin nú mjög víða frammi fyrir miklum uppbyggingarvanda. Víða er verslað í gömlu og óhagkvæmu húsnæði án þess að nokkur möguleiki sé á nauðsynlegum endurbótum eða uppbyggingu. Eins og fram kemur í fsp., var skipuð nefnd á árinu 1976 til að kanna þessi mál og benda á leiðir til úrbóta. Þessi nefnd skilaði áliti í apríl 1978. Í grg. nefndarinnar segir m.a., með leyfi forseta:

„Smásöluverslanir í dreifbýli eiga við mikla erfiðleika að etja umfram smásöluverslanir í þéttbýli, sem m.a. felast í litlum veltuhraða, miklu birgðahaldi, miklum lánsviðskiptum, meiri rekstrarkostnaði o.fl. Þessir erfiðleikar hafa aukist á síðustu árum vegna verðlags- og kostnaðarhækkana. Þá skapa mismunandi aðstæður eftir landshlutum sérstök staðbundin vandamál.“

Síðan segir í áliti nefndarinnar: „Nefndin telur brýnt að sem fyrst verði fundin lausn á þessum vandamálum. Hún bendir á að hér er ekki einvörðungu um afmörkuð vandamál dreifbýlisverslana að ræða, heldur einnig þjóðfélagsins í heild. Það, sem máli skiptir, er hvað og að hve miklu leyti það er talið þjóðfélagslega nauðsynlegt að viðhalda verslunarþjónustu. M.ö.o.: ef talið er þjóðfélagslega æskilegt að halda uppi byggð á ákveðnum stöðum í dreifbýli verður að tryggja neytendum þar nauðsynlegustu verslunarþjónustu.“

Þá bendir nefndin á eftirfarandi leiðir til úrbóta, sem ég ætla að hlaupa á:

1. Nefndin leggur til, að álagningu í smásölu á þeim landbúnaðarvörum, sem Sexmannanefnd verðleggur, verði breytt á þann veg, að hún standi undir eðlilegum dreifingarkostnaði. Samkv. fyrirliggjandi gögnum virðist meðalálagning smásöluverslana vera lægri utan Reykjavíkur en í Reykjavík og telur nefndin að það stafi m.a. af óraunhæfri smásöluálagningu á landbúnaðarvörum þar sem þær vörur vega hlutfallslega meira í sölu dreifbýlisverslana.

2. Frjálslegri verðmyndunarreglur mundu veita dreifbýlisverslun aukna möguleika á því að aðlaga verslunarþjónustu sína þörfum byggðarlagsins og koma á æskilegri verkaskiptingu milli smærri og stærri byggðakjarna, jafnframt því sem hún gæti því betur sinnt verslunarþjónustu á hverjum tíma.

3. Tryggt verði að dreifbýlisverslanir hafi aðgang að lánum vegna fjárfestingar, t.d. úr Byggðasjóði, en jafnframt settar sérstakar reglur um skilyrði lánveitinga.

4. Dreifbýlisverslunum verði heimilað að hækka birgðir í samræmi við reglur sem settar verði þar um.

5. Leysa þarf þá greiðslufjárerfiðleika sem dreifbýlisverslunin telur sig hafa orðið fyrir í lánsviðskiptum sínum við ríkisfyrirtæki. Í því sambandi verði athugað hvort ekki sé hægt að heimila dreifbýlisverslunum skuldajöfnun við ríkissjóð vegna vöruúttektar eða þjónustu við ríkisfyrirtæki, þegar skil eru gerð á söluskatti eða lögboðnum ríkisálögum, sérstaklega virðist það vera ósanngjarnt að ætla dreifbýlisverslunum að standa skil á söluskatti af vöru eða þjónustu sem hún á sama tíma á útistandandi hjá ríkisfyrirtækjum.

6. Leiðrétta þarf þá mismunum sem fram kemur milli dreifbýlis og þéttbýlis að því er varðar álagningu á söluskatti þar eð skatturinn er krafinn af flutningskostnaði.

7. Auðvelda þarf rekstrarráðgjöf við dreifbýlisverslanir með þátttöku stjórnvalda.

Ég hef talið upp atriði sem nefndin leggur til. Ég vil sérstaklega benda á þá tillögu nefndarinnar, að Byggðasjóður veiti lán til byggingar á verslunarhúsnæði. Ég tel að hér sé einmitt það verkefni sem Byggðasjóður á tvímælalaust nú að snúa sér að.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni, en óska eftir svari hæstv. viðskrh.