29.01.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

71. mál, smásöluverslun í dreifbýli

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Byggðasjóður hefur ekki enn þá veitt fjármagn til byggingar verslunarhúsnæðis í landinu, og það er ekki komið að því að mínum dómi að hann taki til við það. Það eru kannske undantekningartilfelli og aðeins eitt, sem ég man eftir, þegar fátækt verslunarfélag norður í Haganesvík varð fyrir því að vegur var lagður fram hjá því um langan veg og það skilið eftir úti á eyðigranda, sem áður var ekið um, að einhver lítil aðstoð var veitt. Kom þó fleira til þar. Byggðasjóður hefur aðeins rétt hjálparhönd vegna byggingar vörugeymslna sem hefur komið verslunarþjónustu til góða, en annars ekki.

Það er misskilningur hjá hæstv. ráðh. og eins hv. fyrirspyrjanda, að komið sé að því að Byggðasjóður geti axlað þá byrði sem er því samfara að lána fé til byggingar verslunarhúsnæðis í landinu, enda er ég ekki þeirrar skoðunar, að skórinn kreppi í þessum sökum að því er snertir húsrými og aðstöðu vegna þessarar þjónustu. Og enn má geta þess, að ég veit ekki betur af kunnugleika mínum af landsbyggðinni en að þar hafi verið sæmilega og sé sæmilega búið að ýmsum verslunarfyrirtækjum og mörgum mjög víða um landið í nýjum og góðum húsakynnum.

Byggðasjóður hefur haft mikið umleikis í sambandi við fiskiðnað og tekið vel til þar. Það var álitið að fé hans kæmi best í þann stað niður að hefja stuðning við útgerð og fiskvinnslu. Og það hefur áreiðanlega sannast, að það var rétt stefna. Það, sem næst liggur fyrir hjá Byggðasjóði, er vitanlega efling iðnaðar, stórefling hans. Ef menn hafa kynnt sér og borið saman fjárveitingar hins opinbera og fjármagnsfyrirgreiðslu til iðnaðar og annarra aðalatvinnuvega — landbúnaðar, sem ég hygg að hafi þar vinninginn, og síðan sjávarútvegs — þá liggur hlutur okkar í iðnaði alveg eftir. En það er fyrirsjáanlegt og allir sammála um að iðnaður verður að taka við svo til öllum nýjum vinnandi höndum sem koma á vinnumarkað í landinu í vaxandi mæli á næstu árum.

Byggðasjóður hefur — eins og því miður aðrar stofnanir sem hafa átt að gegna því hlutverki að vinna að uppbyggingu iðnaðar — látið þau mál of afskipt. Á þessu verður að verða breyting. Í þessu efni er því ærið hlutverk til handa Byggðasjóði. Og að þessu gefna tilefni vil ég taka fram, að ég álít langt í land með að Byggðasjóður hafi efni á því, þótt hann hafi eflst verulega á undanförnum árum, að verja fjármagni sínu í húsbyggingar verslunarþjónustunnar í landinu, þótt sums staðar kunni þar að vera pottur brotinn.