29.01.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

71. mál, smásöluverslun í dreifbýli

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hún er allsérkennileg þessi ræðutækni, sem hv. þm. Halldór Blöndal hefur komið sér upp, að vissu leyti alveg pottþétt, í aðalatriðum á þá lund að segja ósatt um það á Alþ., sem ég hafi sagt á Raufarhöfn, og segja ósatt um það á Raufarhöfn, sem ég hafi sagt á Alþingi. Með þessum hætti er hægt að komast drjúgum álengdar á hinni pólitísku framabraut, þó sérstaklega þegar menn taka sig nú til og beita þessari aðferð ekki aðeins við pólitíska andstæðinga sína, heldur við nánustu pólitíska samstarfsmenn. En það er eins og Norðmaðurinn segir: „Det er nu en anden sag.“

Ég hvatti ekki Þórshafnarbúa til þess að kaupa Fontinn á sínum tíma. Það var Geir Hallgrímsson, þáv. forsrh., sem bauð þeim það ágæta skip til kaups undir votta, og er samþingsmaður Halldór Blöndal vottur frá þeim fundi, þegar það átti sér stað. Ekki hét ég heldur Þórshafnarbúum því; að ég skyldi útvega þeim nýtt skip fyrir Fontinn. En ég hélt því fram á Þórshöfn, sem satt er, að þáv. ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar fyrst og fremst stæði í óbættri sök við Þórshafnarbúa fyrir það í fyrsta lagi að loka fyrir smíði á togskipum innanlands í sinni stjórnartíð og koma í veg fyrir, að hægt væri að afla nýrra skipa erlendis frá, og láta þá síðan hafa ónýtt skip með slíkum okurkjörum, sem þar voru á ferðinni, til þess að afla hráefnis í það nýja fiskiðjuver, sem byggt var í tíð vinstri stjórnarinnar 1971–1974.

Ég viðurkenni það sem hæstv. sjútvrh. segir, það er ekki á valdi sjútvrh. að veita eða synja um leyfi til togara eða íslenskra fiskiskipa, sem sigla með afla sinn og selja erlendis. Viðskmrh. fjallar um þau mál, það er rn. hans að veita leyfi til aflasölu erlendis. Og nú er stutt úr svefnherbergisdyrum sjútvrh. í eldhúsið hjá viðskrh. þessa dagana. Þessu verður því ekki við borið, ef menn vilja á annað borð hafa nokkurt eftirlit með slíkum aflasölum.

Ég veit að hæstv. sjútvrh. er sér meðvitandi um það, að hér er um að ræða mikið vandamál, þar sem eru aflasölurnar erlendis á þeim tíma þegar frystihús á ýmsum stöðum kringum land skortir hráefni til vinnslu, svo að til atvinnuleysis horfir í sjávarplássunum. Ég efast ekki um að hæstv. sjútvrh. vilji taka þau mál til íhugunar, hvarflar ekki að mér að það muni standa á góðum vilja hans til slíks. En þó uggir mig nú — ég vil ekki segja að ég voni — að úrlausnin komi á hendur annars manns í sæti sjútvrh. en Kjartans Jóhannssonar. Hér er um að ræða mál sem Alþ. verður að hafa hönd í bagga með, láta sig ákaflega miklu skipta hvernig verður til lykta leitt.