29.01.1980
Sameinað þing: 18. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

28. mál, graskögglaverksmiðjur

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Síðasti ræðumaður, hv. 1. þm. Norðurl. v., taldi að standa hefði átt öðruvísi að þessu máli en með flutningi þessarar þáltill. og að mynda hefði átt breiðari fylkingu heima fyrir um framgang málsins, eins og hann komst að orði. Þær ályktanir, sem borist hafa, og áskoranir frá heimamönnum miða einmitt að því að málið verði tekið upp á Alþ., eins og nú er gert, og mér er kunnugt um að það er breið fylking heima fyrir, a.m.k. veit ég vel um það í Skagafirði. Ég hef verið á þó nokkrum fundum meðal bænda, t.d. í Slátursamlagi Skagfirðinga, þar sem mál þessi hafa verið rædd og um þau gerðar ályktanir, og mér er fullkunnugt um að séra Gunnar Gíslason, sem hefur beitt sér mjög í þessu máli og ritað um það, hefur einmitt hugsað sér að hafa um það forustu með mörgum mætum mönnum öðrum í Skagafirði og hafði raunar ákveðið að boða til almenns fundar í októbermánuði s.l., um það leyti sem ósköpin öll dundu yfir, en það var ekki talið heppilegt að blanda þessu máli beint inn í slagsmál um kosningar og þess vegna varð ekki af því.

En það skýtur nokkuð skökku við að segja annars vegar, að breiðfylkingu eigi að mynda heima fyrir, en síðan að halda því fram að það hefði þurft að leggja megináherslu á framlög á fjárlögum, en síðan nr. tvö, eins og ræðumaður komst að orði, hefðu komið framlög heimamanna eftir því sem þeir hefðu óskað. Auðvitað er skemmtilegra að standa þannig að málinu að það séu heimamenn sem hafi forgönguna, um það skulum við reyna að vera sammála. En þá er líka eðlilegt að fyrsti liður till. verði frumkvæði heimamanna og þau fjárframlög sem þeir hyggjast leggja fram. Og einmitt sá forgöngumaður að þessu máli, sem ég var að nefna, kom með tillögu um, að bændur t.d. í þessum héruðum legðu fram eitt kýrverð og greiddu það t.d. á 1–2 árum, og hefur einmitt hugsað sér að halda sér við þá tillögu. Ef það væri gert og síðan kæmu fyrirtæki heima fyrir til skjalanna væri hægt að safna mjög miklu fé. Þetta fyrirtæki á að sjálfsögðu að vera í eigu heimamanna og því stjórnað af þeim og þess vegna er það eðlilegur framgangsmáti að um fyrirtækið, og þau bæði væntanlega, verði stofnuð almenningshlutafélög í eigu heimamanna, og till. er einmitt flutt að ósk þessara manna.