30.01.1980
Efri deild: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

77. mál, niðurgreiðsla á olíu til upphitunar húsa

Helgi Seljan:

Herra forseti. Í fjarveru 3. flm. þessa frv. vil ég segja hér örfá orð.

Mörg jöfnunar- og jafnréttismál, sem landsbyggðarfólk berst fyrir, eru brýn. Mismunun þjóðfélagsþegna, jafnt í opinberri þjónustu sem annarri, er í raun óþolandi og hlýtur að verða að takast sem ein heild til úrlausnar eða a.m.k. til mikilla úrbóta. Samfélagsskyldan í þeirri lífskjarajöfnun, því hér er um lífskjarajöfnun að ræða fyrst og fremst, er ótvíræð. Að henni ber að snúa okkur öllum jafnt, því að hér er um þjóðhagslega nauðsyn að ræða. Jöfn búseta við sem sambærilegust skilyrði alls staðar er framleiðslulega séð, út frá nýtingu auðlinda okkar, ekki síst sjávarauðs, sjálfsögð og nauðsynleg og mætti margt um það mál segja, enda einstakir þættir þess og málið í heild oft til umræðu hér, oft hafa verið átök gerð, en langt í land enn að marki hafi verið náð sem í nokkru gæti fullnægjandi talist.

Hér mætti nefna mörg dæmi þar sem íbúar landsins búa við misrétti af ýmsu tagi sem afgerandi áhrif hefur á lífskjör þeirra. Hér er þó reifað það mál sem á síðustu árum hefur staðið langt upp úr hjá íbúum köldu svæðanna svokölluðu. Kyndingarkostnaðurinn gnæfir upp úr í misréttinu, svo sem hér hefur verið rækilega rakið í umræðum á mánudaginn var. Ekki þar fyrir að ekki hafi margvíslegt verið aðhafst til að draga hér úr. Þegar í olíukreppunni fyrri, þegar olíuhækkunin mikla varð þá, var reynt að mæta hinum mikla mismun og var gert að mjög verulegu leyti og myndarlega. Olíustyrkurinn þá tók gildi og sjálfstæður gjaldstofn var lagður á til að mæta þeim útgjöldum sem af olíustyrknum leiddi. Alla þá sögu er óþarft að rekja, það hefur ýmist verið gert nú eða oft áður. Þó skal minnt á marga harða baráttu fyrir því, að raungildi þessa olíustyrks héldist á fjárlögum þannig að fólk hefði það sama á ári hverju, en það er einnig of löng saga til að rekja hér.

Það er líka rétt að minna á nokkra þætti og nokkur atriði frá síðasta ári þar sem reynt var af hálfu ríkisstj. að gera hér á bragarbót. Sumt af því komst í framkvæmd. Ég nefni það sem dæmi, að olíustyrkurinn var tvöfaldaður að raungildi haustið 1978 og síðan fylgdi hann hækkun olíuverðs og hækkaði. þannig úr 2 600 kr. á mann á ársfjórðungi í 18 200 kr. á síðast ársfjórðungi 1979. Hér var auðvitað um verulega bragarbót að ræða. Það var unnið að samstilltu átaki í orkusparnaðaraðgerðum. Það var m.a. gert með aðstoð og fræðslu um stillingu kynditækja. Bæði var það gert með því, að sendir voru menn út á landsbyggðina til sérstakra athugana á þessu og tilrauna, og síðan komu menn suður til Reykjavíkur á námskeið um stillingu kynditækja, þar sem sveitarfélögin sendu menn til þess að þeir gætu numið nauðsynleg fræði til þess að bæta hér eitthvað úr skák. Af þessu hefur víða orðið verulegur árangur, þar sem þeir menn, sem á þessi námskeið fóru, hafa margir hverjir unnið mjög samviskulega að þessu verki. Þá hefur ýmislegt annað komið í ljós í sambandi við kyndingu yfirleitt og orðið til þess að draga verulega úr kostnaði. Einnig var vakin sérstök athygli á því, að ganga þyrfti betur og vandlegar í það stóra atriði sem snertir einangrun húsnæðis. Það þarf ekki að minna á hröðun orkuframkvæmdanna með 2 300 millj. kr. framlagi s.l. sumar, sem var gert með sérstöku tilliti til að draga úr dísilkeyrslu og styrkja dreifikerfi með tilliti til rafhitunar. Enn skal minnt á þá húshitunaráætlun sem samþykkt var af fyrrv. ríkisstj. í júlí s.l. að tillögu þáv. iðnrh., að útrýmt skuli á næstu fjórum árum 80% af núverandi olíukyndingu með innlendum orkugjöfum, þ.e. jarðvarma, fjarvarmaveitum eða beinni rafhitun. Einnig var gert ráð fyrir að styrki eða hagstæð lán til einangrunar húsnæðis yrði hægt að veita á árinu 1980. Þessi atriði eru nú komin að nokkru inn í það frv. til l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins sem liggur hér fyrir hv. d., en greinilegt er að þar þarf vel að vinna. Síðan var gerð viss athugun á þeim húshitunarleiðum sem helst kæmu til greina fyrir þéttbýlisstaði, hvort þar væri um að ræða jarðvarma, fjarvarmaveitur eða beina rafhitun. Þessi áætlun var unnin á vegum RARIK í samvinnu við Orkustofnun og fleiri. Af því höfðu margir mikið gagn og hafa á prjónunum í framhaldi af því.

Síðast, en ekki síst má nefna það, að nefnd vann á vegum iðnrn. að tillögum um jöfnun hitunarkostnaðar og sendi frá sér álit í okt. 1979 þar sem hvort tveggja er gert: lagðar til grundvallar tillögur um úrbætur í þessum efnum og um leið fjáröflunarleiðir, gerð grein fyrir því, á hvern hátt megi jafna þennan kostnað betur og meira en nú er gert. Þar er fjallað um ýmsar orkusparandi aðgerðir, upplýsingamiðlun um kyndingu húsa og einangrun og sömuleiðis um svipað markmið varðandi upphæð olíustyrks og minnst er á í þessu frv. og ýmsar breytingar á greiðslu olíustyrksins. En einmitt vegna þess, sem kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns, skal þess getið, að einnig var í því nál. séð vel fyrir fjáröflunarþættinum. Nefndin lagði til, með leyfi hæstv. forseta, orðrétt:

„Nefndin leggur til að núverandi verðjöfnunargjald af raforku og olíu verði fellt niður, en í þess stað verði lagður almennur orkuskattur á alla orkusölu í landinu, þar með talið orkusölu til stóriðju og hitunar húsa. Tekjum af orkuskatti verði varið til verðjöfnunar á raforku, eldsneyti og hitunarkostnaði, til Orkusjóðs vegna framkvæmda í orkumálum og til Orkustofnunar vegna rannsókna á nýtingu innlendra orkugjafa og leiðum til að draga úr olíuinnflutningi.“

Síðan er þessi orkuskattur skýrður nokkru nánar, og skal ég ekki fara nánar út í það hér, en hér er um að ræða miklu víðtækari aðgerð. Ég heyrði það á hæstv. fjmrh., þegar hann var að ræða þetta mál hér á dögunum, að hann dró þennan orkuskatt nokkuð í efa og alveg sérstaklega virtist hann viðkvæmur fyrir því að erfitt væri að koma þessu við varðandi stóriðjuna. En n. var sem sagt sammála um að leggja þennan orkuskatt til og hann er fyllilega til athugunar og ætti að vera stjórnvöldum til leiðbeiningar í því efni, að til þessarar jöfnunar yrði aflað fjár með raunhæfum hætti.

Ég vil hins vegar þakka hv. 1. flm. þessa frv. það frumkvæði sem hann hefur hér tekið varðandi þessa hlið málsins, frekari jöfnun á húskyndingarkostnaðinum, m.a. með stórauknu framlagi og hins vegar með breyttu fyrirkomulagi á greiðslu olíustyrksins þar sem vissulega var og er endurskoðunar þörf.

Í umræðum s.l. mánudag var varpað fram af hálfu hæstv. fjmrh. vissum hugmyndum um aðrar leiðir, bæði jöfnun þessa mikla kostnaðarmismunar og eins í sambandi við fjáröflun. Sjálfsagt er að kanna öll þau mál, þó ég hyggi að sú leið í sambandi við jöfnunina, sem í þessu frv.-formi er reifuð, sé að mörgu leyti heppileg, þó að ég telji rétt að hafa þar einnig meir til skoðunar þær niðurstöður sem sú nefnd, sem ég vitnaði í áðan, lagði til í sínu nál. Það hljóta nefndir þingsins hins vegar að taka til rækilegrar athugunar.

Eins og komið var inn á áðan hlýtur fjármögnunin sem fyrr að vera höfuðvandinn og það þarf ekki að minna öllu rækilegar á það en gert var hér áðan. Það hefur í engu reynst auðvelt oft á tíðum að halda eðlilegri upphæð í fjárlögum og það m.a.s. þrátt fyrir markaðan tekjustofn í upphafi sem átti að duga. Og auðvitað er það staðreynd, að í frv. því til fjárlaga, sem nú liggur fyrir og enginn veit hver örlög fær, vantar auðvitað mikið á að fullnægja þeim ákvæðum sem hér er farið fram á að verði sett til jöfnunar. Að því þarf hins vegar að vinna sem ötullegast með öllum tiltækum ráðum því ástandið beinlínis krefst þess. Hitt er svo aðalatriðið, og á það vil ég auðvitað leggja aðaláherslu eins og flestir þeir, sem um þessi mál fjalla, gera, að þegar til lengri tíma er litið er það vitanlega það sem skiptir máli, að við vinnum markvisst og skipulega að útrýmingu húshitunar með erlendum orkugjöfum, nýtum innlenda í staðinn, þá sem hagstæðastir og tiltækastir eru hverju sinni við þær aðstæður sem á hverjum stað eru. Að því var unnið — og ber vissulega að taka það skýrt fram — að því var unnið af miklum röskleik þegar síðari olíukreppan skall á. Á því mikla starfi þarf að verða verulegur skriður og full ástæða er til að vænta þess, að svo verði.

Sameiginleg tillögugerð nú frá fulltrúum allra flokka bendir í þá átt, að menn séu fyllilega reiðubúnir til átaks sameiginlega að þessu marki, reiðubúnir að leita þar hagkvæmustu leiða hverju sinni. Inn í þetta blandast að sjálfsögðu mismunur á orkuverði almennt, raforkuverði í landinu, hinn stórkostlegi vandi Rafmagnsveitna ríkisins og hvernig þar megi sem best og skjótast úr bæta. Það ætti einnig að vera unnt með einingu manna um svo sjálfsagða hluti í raun, þó áföll hafi þar orðið á liðnu ári og ekki tekist að leggja þann eina trausta grundvöll sem færir okkur sem fyrst sama orkuverð, þ.e. sameiginlegt orkuöflunarfyrirtæki fyrir landið allt. En ekki skal hér nánar út í það viðkvæmnismál farið.

Við þurfum að sameina kraftana í þessum efnum. Langtímamarkmiðið er eitt. Það kostar mikla fjármuni að leysa erlenda orkugjafa af hólmi. En hitt er þó enn dýrara og því er vandalaust að sýna fram á þjóðhagslega nauðsyn þessa markmiðs, sem ekki má þó vera of fjarri, þarf ekki og á ekki að vera það. Á meðan þurfum við að jafna metin af fremsta megni. Að því miðar frv. þetta, og því hlýt ég að lýsa yfir fullum stuðningi við meginhugsun þess og tilgang og fagna því og svo þeirri einingu sem þar hefur skapast og verður vonandi víðtæk og sterk, einnig í því að afla fjár til verkefnisins.