30.01.1980
Efri deild: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (699)

77. mál, niðurgreiðsla á olíu til upphitunar húsa

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð í sambandi við þá ræðu sem hér var síðast flutt.

Það má að sjálfsögðu alltaf deila um tölur og ekki síst í sambandi við það frv. sem hér er til umræðu. Það breytir náttúrlega ekki dæminu svo að neinu nemi, hvort niðurgreiðslukostnaðurinn er 7–8 milljarðar eða 8.3 milljarðar, sem ég tilgreindi og er óumdeilanlega rétt ef gengið er út frá þeim forsendum sem ég tilgreindi líka, þ.e. óbreytt olíuverð og óbreyttir taxtar. Það er ekki höfuðmálið í þessu sambandi. Það er óumdeilanlegt, að til þess að sjá fyrir þessum niðurgreiðslum þarf að hækka fjárlagafrv. um sem nemur 5.2–6 milljörðum kr. og það dugar ekki eins prósents niðurskurður, sem líka er ljóst að mundi vera erfitt að framkvæma. Það er því ekki heil brú í þeim hugmyndum hv. frsm., að þetta mál verði leyst einfaldlega með því að skera það niður í fjárlagafrv. sem á vantar þessa 5.2–6 milljarða. 1% dugir ekki til þess. Það er ekki heldur aðalatriðið. Aðalatriðið er að hér er verið að leggja fram frv. sem óumdeilanlega fjallar um milljarða kr. útgjöld úr ríkissjóði án þess að nokkrar till. séu gerðar um það, hvernig á að leysa fjáröflunina, sem á olíu til upphitunar húsa. 616 er lykillinn að lausn þessa máls. Það er enginn vandi að flytja frv. um að það skuli borga peninga úr ríkissjóði, það geta allir. Það leysir ekki málið. Við, sem viljum auka jöfnunina og bæta úr því misrétti sem fólk úti á landsbyggðinni býr við vegna hækkandi olíukostnaðar sem bitnar á því fólki, en ekki þeim sem búa hér í þéttbýlinu, — við, sem viljum auka þessa jöfnun, eigum ekki að víkja okkur undan því að leysa líka þessa hlið málsins.

Þá minntist hv. ræðumaður á að ég hafi lagt til að vísa frv. til fjh.- og viðskn. Ég sé ekki skynsemina í því að vísa máli, sem er beint millifærsluatriði varðandi fjárupphæðir á fjárlögum, sérstaklega í iðnn. Þetta er niðurgreiðslumál, en það er ekki heldur að mínum dómi aðalatriðið, heldur hafði í huga að það væru kannske meiri líkur til þess að fjh.- og viðskn. fengist til að fjalla um fjáröflunarhlið málsins. Ef iðnn. er tilbúin til að gera það, þá gæti ég eins fellt mig við að málið færi í iðnn. Það er ekki það sem skiptir máli, heldur að fjáröflunarþáttur þessa máls, aðalþátturinn, sé leystur. Ef iðnn. sem sagt er tilbúin til þess að taka að sér að gera þetta að frv., — þetta er ekki nema hálft frv., — þá er það alveg meinalaust af minni hálfu að samþykkja að það fari til iðnn. En þá ætlast ég líka til að hún taki á málinu.

Hv. ræðumaður sagði: „Það þarf að leysa þennan vanda.“ Þetta frv. fjallar ekki um að leysa vandann, og það er það sem ég vildi vekja athygli á. Það þarf að leysa vandann. Þess vegna þarf í frv. líka að fjalla um fjáröflunina. Ef iðnn. fæst til að taka það að sér að gera till. um þann þáttinn líka, þá er ég mjög ásáttur um það.