30.01.1980
Efri deild: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

77. mál, niðurgreiðsla á olíu til upphitunar húsa

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef ekki ástæðu til þess að fara enn mörgum orðum um þetta mál. Hv. 4. þm. Reykn. hafði nú ekkert á móti því að máli færi til iðnn. Það var líka eðlilegt þegar hann var búinn að athuga málið nánar, að hann kæmist að þeirri niðurstöðu. Ég vil segja honum að það hefur aldrei hvarflað að mér að kostnaðarhlið þessa máls yrði ekki rædd á þeim vettvangi, því að það er augljóst. Það er líka augljóst, eins og ég tók fram í minni framsöguræðu, að þessi kostnaður verður greiddur af skatttekjum, í hvaða formi sem það verður. En vegna þess að okkur flm. er umhugað að þetta mál nái fram að ganga, þá þótti okkur hyggilegra að athuga nánar, hvaða form yrði haft á þessari skattheimtu eða útgjöldum ríkissjóðs, og eins og ég tók fram áðan, ef mætti freista þess að taka einhver mið af væntanlegri stjórnarstefnu í ríkisfjármálunum.

Ég kann ekki við orðbragð hv. 4. þm. Reykn., þegar ég er búinn að leiðrétta misskilning, sem fram kom í hans fyrri ræðu, og skýra á ný það sem ég skýrði í minni framsöguræðu, hvernig þetta margumtalaða 1% af fjárlögum, sem ég setti fram, er fengið. Ég byggi á tölu sem er 3.6 milljarðar, en hann á tölu sem er 2.3 milljarðar. En svar hans er það eitt, að ekki sé heil brú í því sem ég hafi verið að segja. Það er þetta orðbragð sem ég kann ekki við. En mest er um vert að menn séu sammála um að leysa þann vanda sem hér er um að ræða, og ég þakkaði í ræðu minni áðan hv. 4. þm. Reykn. fyrir að vera sammála mér og okkur flm. um það sjónarmið, að það þurfi að leysa þetta mál. Það á að tryggja þessu máli framgang. Mér er forvitni á að sjá þingmann sem héldi því fram, að það væri ekki nauðsynlegt að leysa þetta mál. Og mér er raunar forvitni á að sjá þm. sem neitar því, sem við flm. höldum fram, að hér sé sá vandi á höndum sem megi jafna, eins og það er orðað, við náttúruhamfarir eða aðra óáran og það sé í hróplegri mótsögn við þann anda skilnings og samhjálpar, sem þjóðin sýnir jafnan undir slíkum kringumstæðum, ef menn eru ekki ákveðnir í að leysa þennan vanda. Og þetta er meira en til þess að bjarga þeim sem búa við hinar þungu byrðar olíukyndingarinnar. Þetta er enn þá meira mál, vegna þess að ef ekki verður ráðin hér bót á hlýtur það að leiða til brottflutnings fólks frá stórum landssvæðum og stórfelldrar byggðaröskunar, og það er vandamál þjóðarinnar í heild.