30.01.1980
Efri deild: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

84. mál, Kvikmyndasafn Íslands

Dómsmrh. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Í framhaldi af ummælum hv. þm. Helga Seljans um markaða tekjustofna vil ég sérstaklega, að því er þetta frv. varðar, vekja athygli á því, að lögum þessum er ætlað að öðlast þegar gildi, en þeim er einnig ætlað að gilda til ákveðins dags, þ.e. 1. jan. 1983. Á þessu er reginmunur, vegna þess að það, sem oft hefur gerst um hina mörkuðu tekjustofna, er að þeir eru settir á fót á einhverjum gefnum tíma, en síðan gerist það að samfélagið breytist og þar með þarfirnar, en hins vegar hefur þessum mörkuðu tekjustofnum ekki verið breytt eða þeir afnumdir, Íslands og svo að iðulega situr samfélagið uppi með slíka afmarkaða tekjustofna sem í raun er ekki lengur þörf fyrir. Í þessu kerfi er auðvitað hvert eitt mál bæði gott og réttlætanlegt í upphafi. En þetta kerfi hefur orðið að beinum frumskógi sem erfitt hefur reynst að brjótast út úr. Fyrir þessu er gert ráð fyrir í þessu frv. Út úr er tekin ein gróskumikil listgrein, kvikmyndagerð, sem sérstök gróska er í um þessar mundir. Henni er útvegað fé með þessum hætti, með því að leggja 50 kr. á selda aðgöngumiða á erlendar kvikmyndir sem hér eru sýndar. En þessu er líka ætlað að falla úr gildi eftir tiltekinn tíma, 1. jan. 1983, og Alþ. yrði þá að ákvarða öðru sinni að halda þessu áfram með þessum hætti eða með öðrum hætti, ef Alþ. sýndist svo, eða fella þetta niður, ef þörfin er ekki lengur fyrir hendi. Á þessu er þess vegna reginmunur, og sú gagnrýni, sem flutt hefur verið á markaða tekjustofna, stendur, eins og af þessu má ljóst vera.

Hv. þm. Eiður Guðnason gat um það, hvort ekki væri rétt að fara í vaxandi mæli að lána úr Kvikmyndasjóði í staðinn fyrir að styrkja úr honum, og ég að mínu leyti tel að það sé skynsamlegt. Þegar menn eru að leggja í gerð stórra og fjárfrekra kvikmynda, þá er augljóst að það krefst mikilla útgjalda fyrst í stað, en tekjurnar koma ekki inn fyrr en alllöngu síðar. Það er tímabilið frá því að gerð kvikmyndarinnar hefst þangað til hún er frumsýnd og fer að skila tekjum sem mörgum hefur reynst vera erfiður hjalli, og hlutverk Kvikmyndasjóðs ætti ekki síst að vera að aðstoða menn að komast yfir þann hjalla. Það er með þessa listgrein eins og aðrar listgreinar og svo margt annað, að það getu auðvitað verið erfitt að spá hvað kemur til með að njóta hylli og hvað ekki, og verður auðvitað að gera ráð fyrir slíkum frávikum.

Ég fagna því ef hv. menntmn. telur sig geta gert betur en gert er ráð fyrir í þessu frv. En þó skulum við vona að n. geri ekki svo vel að frv. dagi uppi í þinginu, því að leikurinn er einmitt ekki gerður til þess. Hér er svo mjúklega í mál farið gagngert til þess að meiri hl. Alþ. sjái sér fært að samþykkja málið. Vissulega er það fagnaðarefni ef hægt er að gera enn betur, en höfuðatriðið er samt að þetta frv. verði samþ. fyrr en seinna.

Það er að vísu erfitt að áætla nákvæmlega hversu miklu þessi aðferð getur skilað í fjármunum, en eins og getið er um í aths. við þetta frv. er lauslega áætlað að þetta gefi á þessu ári milli 80 og 90 millj. kr.

Herra forseti. Ég vil ekki hafa fleiri orð um þetta að þessu sinni.