31.01.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

27. mál, iðnaður á Vesturlandi

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Á þskj. 27 hef ég ásamt 1. þm. Vesturl. leyft mér að flytja till. til þál. um eflingu iðnaðar á Vesturlandi. Tillgr. er orðuð á eftirfarandi hátt:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um gerð áætlunar um iðnþróun á Vesturlandi.“

Grg., sem fylgir till., er stutt, enda þarflaust að bæta mjög miklu við alla þá skrúðmælgi sem fram hefur komið í umr. og á prenti síðustu árin varðandi þátt iðnaðar í traustri uppbyggingu atvinnulífs á þessu landi næstu ár og áratugi. En góð vísa er aldrei of oft kveðin og ég vil því fara nokkrum orðum um það efni sem hér um ræðir.

Eins og segir í grg. er tilgangur till. fyrst og fremst að leggja áherslu á þátt iðnaðar í mótun atvinnumálastefnu næstu ára og að Vesturlandi verði tryggður eðlilegur hluti í framkvæmd þeirrar stefnu. Í sjálfu sér er ómögulegt að segja fyrir um hvaða mynstur gildi helst í atvinnulegu tilliti, þ.e. hvaða skipting milli atvinnugreina, miðað við hin ýmsu þéttbýlisstig, ráði mestu um eðlilega þróun mannfjölda og bærilega lífsafkomu fólks í hinum ýmsu landshlutum og landinu í heild. Eitt eru menn þó sammála um, og það er að gera verði átak til þess að atvinnulífið verði fjölbreyttara en nú er. Atvinnulífið verður að sjá framtíð sína í meiri verðmætasköpun á sviðum úrvinnslunnar. Við þurfum að horfast í augu við þær staðreyndir, að til þess að halda innri og ytri styrk okkar í efnahagslegu tilliti verðum við að beina stórum hluta af þeim þúsundum einstaklinga, sem koma á vinnumarkaðinn á næstu árum, í arðbær framleiðslustörf á sviði iðnaðar. Ef við erum ekki nægilega vel vakandi fyrir þessu og áræðin eigum við á hættu að framleiðnin standi í stað eða dragist saman. En þá hrapa lífskjör um leið þegar á heildina er lítið.

Ef athuguð er skipting mannafla Vesturlands kemur í ljós að samkv. ársverkum 1976 voru 21.1% við landbúnað, 11.2% við fiskveiðar, eða samtals 32.3% í frumvinnslugreinum, miðað við 14.3% á landinu öllu. Árið 1977 var þáttur frumvinnslunnar á Vesturlandi kominn rétt undir 32%, miðað við 13.9% á landinu öllu. Árið 1976 var hluti úrvinnslunnar á Vesturlandi 38.5% af mannafla, miðað við 38.2% í landinu öllu. Árið 1977 var hluti úrvinnslu kominn í 39.5% af mannafla Vesturlands. Þjónustugreinar voru með 29.2% árið 1976. Sú tala lækkaði árið 1977.

Eins og áður er getið er hlutur frumvinnslugreina í heildarmannafla Vesturlands stór ef miðað er við landið allt. Hlutdeild úrvinnslugreina er mjög svipuð á Vesturlandi og á landinu öllu. Hins vegar starfa í þjónustugreinum hlutfallslega mun færri en samanborið við landsheild.

Ef atvinnugreinaskiptingin á Vesturlandi er borin saman við landsbyggðina sérstaklega er hlutdeild frumvinnslu, úrvinnslu og þjónustugreina mjög svipuð og á landsbyggðinni í heild, en að sjálfsögðu verulega frábrugðin í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi.

Miðað við einstök byggðasvæði í landshlutanum er augljóst að um einhæfni í atvinnulífi er að ræða, svo sem á Snæfellsnesi, í Dalasýslu og í Borgarfjarðarsýslu, svo eitthvað sé nefnt, ef frá er talin verksmiðjan á Grundartanga.

Starfsemi, sem flokkast undir annan iðnað, er fyrst og fremst á Akranesi, í Borgarnesi og í Stykkishólmi. Fiskiðnaður er aðallega á Snæfellsnesi og á Akranesi. Segja má að Borgarnes sé dæmigerður byggðakjarni fyrir staði sem byggja afkomu sína á úrvinnslu landbúnaðarvara og þjónustu við landbúnaðinn, enda var þar árið 1977 46.4% vinnuaflsins í þjónustugreinum og 52.9% í úrvinnslu.

Eitt þeirra atriða, sem knýr á að gert verði átak í eflingu iðnaðar á Vesturlandi, er óhagstæð þróun mannfjölda nú síðustu ár. Vakin skal athygli á að hlutfallsleg fækkun varð í landshlutanum frá 1975–1978 miðað við landsheild. Þar var um að ræða öfugþróun sem ekki átti sér stað í neinu öðru dreifbýliskjördæmi landsins á því árabili. Meira að segja var um beina fækkun að ræða milli áranna 1975 og 1976, enda fluttust á árunum 1976–1978 um 380 manns burt frá Vesturlandi umfram þá sem þangað fluttust. Þessi óhagstæða þróun hlýtur að bera þess vitni að ekki er allt með felldu. Enn fremur skal bent á að meðalbrúttótekjur virkra framteljenda í kjördæminu hafa allar götur síðan 1963 verið verulega undir landsmeðaltali brúttótekna. Breytingar á atvinnuþátttöku og atvinnuskipan í landinu, sem eru fyrirsjáanlegar á næstu árum, gera nauðsynlegt að grípa til sérstakra ráðstafana til að tryggja næga atvinnu og óskert lífskjör fyrir uppvaxandi kynslóð.

Gera má ráð fyrir að nokkur hlutfallslegur samdráttur verði í frumvinnslugreinum, þ.e. landbúnaði og fiskveiðum. Þjónustugreinar munu taka við nokkuð stórum hluta af auknum mannafla, en slíkt mun ekki gerast án þess að verulegur vöxtur verði einnig í úrvinnslugreinum. Þau atriði, sem ég áður nefndi, sýna m.a. þörfina á auknum atvinnutækifærum á Vesturlandi, og slíkt gerist ekki nema skipulagt átak verði gert til eflingar iðnaði í landshlutanum.

Ég hef drepið á nokkur neikvæð atriði í þróuninni að því er varðar einhæfni í atvinnulífi, mannfjölda og tekjur, en allir þessir liðir, hver um sig og ég tala nú ekki um sameiginlega, kalla á aðgerðir. Á hinn bóginn eru ýmsar þær aðstæður fyrir hendi í landshlutanum sem gefa vísbendingu um möguleika á fjölþættri iðnþróun ef hlutirnir eru skoðaðir í réttu ljósi.

Augljóst er að Vesturland er í tiltölulega góðum samgöngutengslum við stærsta markað landsins. Það er stutt í meginorkuflutningslínur, mikill jarðvarmi er þar svo og jarðvarmi er þar svo og jarðefni til iðnaðar. Ýmsar ákjósanlegar aðstæður eru þá fyrir hendi sem æskilegt væri að hagnýta og á mætti byggja, að ógleymdri frekari úrvinnslu sjávarafla og landbúnaðarafurða.

Athyglisvert er að á Vesturlandi er hlutfall fiskiðnaðar miðað við fiskveiðar hið lægsta sem þekkist á þessu landi. Á grundvelli ályktunar Alþingis frá 1969 hefur Framkvæmdastofnun unnið að gerð Vesturlandsáætlunar frá 1974 í samráði við samtök sveitarfélaga. Árið eftir kom skýrsla um atvinnulífið á Vesturlandi og árið 1976 skýrsla um jarðefni til iðnaðar. Mikil áhersla var lögð á uppbyggingu iðnaðar í byggðaþróunaráætlun fyrir Dalabyggð, sem var fullunnin á síðasta ári. Jafnframt var gerð ítarleg gagnasöfnun á síðasta ári um stöðu atvinnulífsins á öllum þéttbýlisstöðum í landshlutanum. Á vegum Rannsóknaráðs ríkisins hefur verið unnið síðustu 20 ár að rannsóknum á möguleikum til að nýta leirnámur við Búðardal, og á vegum Iðntæknistofnunar og gosefnanefndar hafa ítarlegar rannsóknir verið gerðar á hagnýtingu perlusteins úr Prestahnúki. Í fyrrnefndum skýrslum kemur víða fram bjartsýni um möguleika perlusteins sem hráefnis fyrir iðnað. Sama er að segja um leirinn í Búðardal. Á Snæfellsnesi er mikið magn af gjalli og vikri sem nýta mætti sem hráefni til iðnaðar. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um hvernig nýta mætti þau jarðefni til framleiðslu ásamt því að vera vakandi gagnvart tækninýjungum í námuvinnslu.

Allar fyrrnefndar kannanir hafa mikið gildi sem grundvallarforsendur fyrir frekari iðnþróun á Vesturlandi. Hins vegar hefur á skort markvissari áætlanir um hvernig hugmyndum og möguleikum yrði best hrundið í framkvæmd. Þar hefur fjármagnsfyrirgreiðsla hins opinbera lykilþýðingu.

Eins og fyrr er getið hafa Akranes, Borgarnes og Stykkishólmur unnið sér sess sem iðnaðarbæir. Skipasmíðaiðnaður er þýðingarmikill fyrir Akranes og Stykkishólm. Auk þess er byggingariðnaðurinn á öllum stöðum viðkvæmur vegna sveiflna í efnahagslífi þjóðarinnar og vegna breytinga á byggingartækni.

Mikil þörf er á eflingu þjónustuiðnaðar á vestanverðu Snæfellsnesi, þar sem leita þarf út fyrir þéttbýlisstaðina um nauðsynlegustu þjónustu, m.a. fyrir flotann. Miðað við okkar aðstæður er ekki vafi á að skipasmíðaiðnaður, bæði viðgerðir og nýsmíði, á mikla framtíð fyrir sér ef rétt er á málum haldið. Þar verður til að koma eðlileg fjármagnsfyrirgreiðsla svo og skipulag um viðhald og endurnýjun skipastólsins. Við skulum minnast þess, að frá árunum 1971–1975 fækkaði þeim um nálega 260 sem unnu við skipaiðnað í landinu. Við skulum enn fremur hafa það í huga, að u.þ.b. helmingur skipsverðs er vinnulaun, skattlögð hér heima og gjaldeyrissparnaður ef smíðað er innanlands. Hér er um milljarða að tefla.

Á liðnu sumri var unnin skýrsla um atvinnumál í Borgarnesi í samráði við Framkvæmdastofnun ríkisins, en eins og kunnugt er liggja vaxtarmöguleikar Borgarness ekki síður en annarra þéttbýliskjarna í auknum iðnaði og þjónustu. Í skýrslunni stendur eftirfarandi varðandi vanda smáfyrirtækja, með leyfi forseta:

„Íslenskur markaður er smár og því eru fyrirtæki, sem framleiða fyrir hann eða veita honum þjónustu, yfirleitt smá í sniðum. Stjórnendur smáfyrirtækja hafa tilhneigingu til að leggja aðaláherslu á einn þátt starfseminnar, þ.e. framkvæmdina, en láta aðra þætti sitja á hakanum, þ.e. stjórn fjármála og markaðsmála. Ástæðan er án efa sú, að fyrirtækin verða oft og tíðum til vegna þekkingar eigendanna á ákveðnum greinum. Stjórnun fyrirtækisins er eitt og góð fagkunnátta annað. Þetta fer stundum vel saman á einni hendi, en ástæðulaust er að líta fram hjá því, að oft er stjórnunin látin sitja á hakanum þannig að markmiðum fyrirtækisins er á engan hátt náð.“

Í könnun, sem gerð var meðal fyrirtækja, kom fram að upplýsingar um tækninýjungar og verkþekkingu væru yfirleitt af skornum skammti, annaðhvort væri að upplýsingar lægju ekki á lausu eða fyrirtækin sinntu ekki þeim þætti sem skyldi. Því miður held ég að þessi lýsing sé nokkuð raunsæ á hluta þeirra erfiðleika sem iðnrekstur okkar býr nú við. En auðvitað eru vandamálin miklu, miklu fleiri. Í sem fæstum orðum má segja, að hver dundi í sínu horni án þess að hafa yfirsýn eða samhengi í öllum þáttum starfsins og án eð&legs sambýlis við aðrar atvinnugreinar, og í mörgum tilfellum vantar forustu, stuðning og stefnumörkun opinberra aðila.

Á síðustu árum hafa miklar umræður og fjölmargar samþykktir verið gerðar um fjölbreytta atvinnuhætti í sveitum landsins. Ég lít svo á, að hverju byggðalagi komi best að hafa atvinnumöguleika sem fjölbreyttasta í efnalegu og félagslegu tilliti, miðað við þær forsendur, að það er ásetningur okkar að byggja landið allt. Og til þess að halda uppi fullri atvinnu á næstu árum og auka framleiðni þjóðarbúsins verðum við í alvöru að stíga ákveðnum skrefum til aukinnar uppbyggingar í iðnaði. Eðlilegt væri að fela Framkvæmdastofnun ríkisins gerð þeirrar áætlunar um iðnþróun á Vesturlandi, sem hér er fjallað um, en í nánu samráði við samtök sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi. Það er von okkar flm., að Alþ. veiti þessu máli brautargengi með því að samþykkja tillöguna.

Herra forseti. Að loknum þessum hluta umræðna legg ég til að till. verði vísað til hv. atvmn.