31.01.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

27. mál, iðnaður á Vesturlandi

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég fagna þeirri till., sem hér er til umr., og vænti þess, að hún standi undir nafni: „Till. til þál. um eflingu iðnaðar á Vesturlandi“, að þessi áætlun um iðnaðarstefnu á Vesturlandi verði til þess að þar eflist iðnaður.

Það mun hafa verið 1969, að hér var samþykkt eða vísað til ríkisstj. till. um það, að gerð skyldi byggðaáætlun fyrir Vesturland. Síðan hefur að einhverju leyti verið unnið að athugun á gerð slíkrar áætlunar, en fljótlega komist að því, að heildaráætlun fyrir Vesturlandskjördæmi yrði erfið í vinnslu vegna þess hve atvinnuþróun og atvinnuhættir eru breytilegir í kjördæminu. Var horfið að því ráði að skipta kjördæminu í svæði, — það mun hafa verið gert að till, byggðadeildar og í samráði við samband sveitarfélaganna á Vesturlandi — því var skipt niður í svæði eftir atvinnuháttum og þróun atvinnulífs.

Það hefur komið ein áætlun frá byggðadeild í sambandi við þessa áætlunargerð og önnur mun vera í undir búningi. Sú áætlun, sem er komin fram, er áætlun fyrir Dalabyggð. Hún nær reyndar dálítið út fyrir mörk Vesturlands, því að þrír hreppar í Austur-Barðastrandarsýslu eru líka í þeirri áætlun. Ég held að það sé ekki ástæða til þess að fara að ræða neitt um Dalabyggðaráætlun. Við þm. Vesturl. höfum lagt hér fram ályktun um hana og kemur hún væntanlega til umr. áður en langt um líður.

Áætlunargerð — hver sem hún er — er fyrst og fremst til þess að skapa markmið og leiðir til að byggja upp nýjar atvinnugreinar og styrkja þær sem fyrir eru. slíkum markmiðum nær áætlunargerð ekki nema tryggt sé að bak við áætlunargerðina sé vilji þeirra sem ráða yfir því fjármagni sem til þarf að áætlunin verði framkvæmd, einnig að áætlunin sé í tengslum við þá stefnu sem ríkjandi er í þjóðfélaginu á þeim tíma sem hana á að framkvæma.

Ráðherrar Alþb. í undanfarandi tveim vinstri stjórnum hafa beitt sér fyrir stefnumörkun á sviði iðnaðarmála. Svo sem fram kom í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar bar hann fram hér á Alþ. þáltill. um iðnaðarstefnu s.l. vor og svo aftur í haust, og skömmu eftir að hann tók við störfum sem ráðh. haustið 1978 skipaði hann nefnd, svokallaða samstarfsnefnd um iðnþróun til þess að gera till. um iðnþróun í landinu. Sú nefnd mun hafa skilað áliti í maí s.l. Álit hennar mun hafa komið sem fskj. um svipað leyti og þáltill. um iðnaðarstefnu var lögð fram hér á hv. Alþingi.

Samþykkt slíkrar iðnaðarstefnu er mikilsverð eða jafnvel nauðsynleg undirstaða þess, að áætlunargerð lík þeirri, sem lagt er hér til að gerð verði fyrir Vesturland, komi að gagni. Sjálfsagt eru ekki skiptar skoðanir um það, að nauðsynlegt sé að efla iðnað á landinu, jafnt á Vesturlandi sem annars staðar. Talið er að iðnaðurinn þurfi að veita 5–6 þúsund manns atvinnu í nýjum störfum á næstu átta árum. Einnig er vitað að víða um land er fyrir hendi vinnuafl sem ekki nýtist við þær aðstæður sem eru fyrir hendi, og væri æskilegt að byggja upp iðnaðarstarfsemi sem gæti nýtt slíkt vinnuafl og skapað þessu fólki atvinnutækifæri.

Á s.l. vetri kannaði atvinnumálanefnd á vegum Kaupfélags Borgfirðinga, Sambands borgfirskra kvenna og Búnaðarsambands Borgarfjarðar hvað væri mikið umframvinnuafl á vinnumarkaði í héraðinu. Á könnunarsvæðinu eru um 380 heimili, en svör bárust aðeins frá 53. Á svæðinu, sem könnunin náði yfir, voru boðin fram 30–40 ársverk fullorðinna auk nokkurra ársverka unglinga. Þessi könnun bendir til þess, að víða um land sé fyrir hendi vinnuafl sem nýtist ekki við hinar hefðbundnu atvinnugreinar. Nauðsynlegt er þar af leiðandi að koma upp atvinnustöðum til þess að nýta þetta vinnuafl og skapa þessu fólki tekjumöguleika. Það verður fyrst og fremst gert með því að byggja upp iðnaðarstöðvar.

Ég minnist þess nú, að það mun hafa verið á s.l. vetri að borin var hér fram af þm. Alþb. till. um könnun á þessu sviði og fékkst samþykkt. Þessi könnun, sem Borgfirðingar framkvæmdu, náði yfir svæðið fyrir ofan Skarðsheiði að Hítará, að Borgarnesi undanskildu. Mér er ekki kunnugt um hvort slík könnun hafi verið gerð í þorpunum eða í þéttbýlisstöðunum, en það er mjög trúlegt að eitthvað svipað ástand — þó af öðrum toga sé — sé þar líka fyrir hendi, þar sé ákveðinn hópur fólks sem ekki hefur aðstöðu til að nýta sína vinnu við þær aðstæður sem þar eru. Það er hlutskipti fólks úti á landsbyggðinni að vinna fyrst og fremst að hinum gömlu undirstöðuatvinnuvegum, sjávarútvegi og landbúnaði, og við iðnað og þjónustu sem af þeirri starfsemi leiðir. Sjálfsagt þyrfti áframhaldandi og ný iðnaðaruppbygging að byggjast fyrst og fremst á þessum undirstöðuatvinnuvegum, en jafnframt þarf að skapa fjölbreyttari atvinnutækifæri með uppbyggingu nýrra iðnaðargreina.

Á Vesturlandi er nú fyrir hendi iðnaður af ýmsu tagi. umfram þann iðnað sem tengdur er úrvinnslu og þjónustu við sjávarútveg og landbúnað. Þessi iðnaður er fyrst og fremst í Stykkishólmi, Borgarnesi og Akranesi, eins og fram kom í ræðu frummælanda, og má í því sambandi fyrst og fremst nefna iðnaðinn í sambandi við sementsverksmiðju og skipasmíðastöðvarnar. Saumastofur eru á Akranesi og Borgarnesi og trésmíðaverkstæði og ýmislegt fleira. Áform hafa verið uppi um vinnslu perlusteins, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar áðan, en það mál mun vera í biðstöðu sökum þess að ekki hefur fengist fjármagn til að halda þeim könnunum, athugunum og undirbúningi áfram. Ég hef heyrt þá sögu og sel hana ekki dýrar en ég keypti, að þeir á Akranesi, sem hafa stofnað tilraunafyrirtæki til framleiðslu á perlusteini, hafi sótt um fjármagn til þess að koma af stað vinnslu eða fá perlusteinsbrennsluofn. Svar til þeirra frá þeim stofnunum, sem þeir hafa leitað til, var að það væri grundvöllur fyrir því að fjármagn fengist ef hluthafar gætu fjármagnað að hálfu á móti því sem til ráðstöfunar yrði frá opinberum aðilum eða lánveitendum. Ég get ekki látið mér detta það í hug, hvorki í iðnaði né öðrum atvinnugreinum, að það sé möguleiki að koma af stað slíkri starfsemi sem þessari á þeim grundvelli, að lánsfé eða aðkomið fé sé ekki nema helmingur. slíkt svar er vitaskuld ekkert annað en nei við þeim tilraunum sem þarna voru í gangi.

Eins og hv. þm. Friðjón Þórðarson benti á, hafa verið uppi ýmsar ráðagerðir um leirgerð í Búðardal, þannig að það eru uppi ýmsar hugmyndir um iðnaðarþróun á Vesturlandi, ef fjármagn og möguleikar á öðrum sviðum væru fyrir hendi. Ef sú verður raunin á, að á næstu átta árum þurfi 5–6 þúsund manns atvinnu umfram það sem nú er og einnig þurfi að skapa ný atvinnufyrirtæki miðað við núverandi ástand, gefur það auga leið að byggja þarf upp ný framleiðslufyrirtæki og efla þau sem fyrir eru. Mín skoðun er sú, að þetta þurfi að gera vítt og breitt um landið. Áætlun um iðnþróun á Vesturlandi yrði vegvísir á þeirri leið fyrir Vesturland. Hún þarf að vinnast í samráði við heimafólk, bæði sveitarstjórnir og aðra hagsmunaaðila. Áætlunin má ekki koma í stað þeirrar byggðaáætlunar, sem verið er að vinna á Vesturlandi, heldur tengjast þeirri áætlanagerð. Sérstök iðnaðaráætlun fyrir Vesturland hlýtur einnig að tengjast mörkum iðnaðarstefnu fyrir landið allt. Með þetta í huga vona ég að hv. alþm. samþykki þessa tillögu.