18.12.1979
Neðri deild: 4. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

32. mál, eftirlaun til aldraðra

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég fagna því frv., sem hér er lagt fram, og undirstrika það, að framsóknarmenn eru hlynntir samþykkt þess. Það hefur birst á ýmsa vegu. M.a. liggur það fyrir, að í fjárlagafrv. því, sem Tómas Árnason lagði fram hér í haust, var gert ráð fyrir 500 millj. vegna þessa, og jafnframt kom fram í stefnuræðu þáverandi forsrh., að hann væri hlynntur því, að þetta frv. næði fram að ganga. Það er því á misskilningi byggt hjá hv. 1. þm. Vestf., að framsóknarmenn hafi staðið eða standi gegn þessu frv.

Það er aftur á móti rétt, að um leið og þetta frv. kemst til framkvæmda þarf að gera hliðarráðstafanir, og kom bæði fram hjá ráðh. og einnig hv. 1. þm. Vestf. að svo væri. Og vissulega hefði verið æskilegt að þær hliðarráðstafanir lægju fyrir hér í frv.-formi til að auðvelda mönnum að átta sig á þeim. En engu að síður, þó að svo sé ekki, þá styður Framsfl. það að þetta frv. verði að lögum, og ég vona að það geti orðið að lögum fyrir áramót.