31.01.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

27. mál, iðnaður á Vesturlandi

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil þakka þær undirtektir sem þessi þáltill. hefur fengið hér á hv. Alþ., sem sannar að áhugi alþm. er vakandi í sambandi við þessi mál, þ.e. eflingu iðnaðar. Ég vil lýsa stuðningi mínum við þá skoðun, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Vesturl., að nauðsyn beri til að marka ákveðna iðnaðarstefnu hér á landi, sem eftir yrði farið í aðalatriðum þegar unnið er að iðnþróun.

Í sambandi við það, sem kom fram hjá hv. 4. þm. Vesturl., vil ég aðeins rifja það upp, sem við leggjum áherslu á í þeirri grg., sem fylgir þessari þáltill., um þátt Framkvæmdastofnunar ríkisins eða byggðadeildar, þar sem við segjum að unnið sé markvisst að gerð byggðaþróunaráætlana fyrir einstök byggðasvæði á Vesturlandi. Við teljum eðlilegt að fela Framkvæmdastofnun gerð þessarar áætlunar um þróun iðnaðar í landshlutanum sem hér er fjallað um, enda er um verkefni að ræða, sem útfæra þarf í hinum almennu byggðaþróunaráætlunum fyrir einstök byggðasvæði innan landshlutans. Við leggjum einnig áherslu á að þetta sé unnið í samráði við Samband sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi. Það hefur verið stefna þeirra samtaka á liðnum árum, allt frá stofnun þeirra 1969, að stuðla að uppbyggingu á Vesturlandi á sem flestum sviðum, og það hefur verið gert á margvíslegan hátt og höfð um það náin samvinna við byggðadeild Framkvæmdastofnunarinnar.

Í sambandi við þetta mál tel ég mjög til skoðunar og raunar eftirbreytni þá aðferð sem tekin var upp í sambandi við iðnþróunaráætlun fyrir Austfirði, þ.e. að tengja saman starfsnefnd heimamanna í héraði og þá opinberu aðila sem um þessi mál eiga að fjalla. Ég tel það mjög til fyrirmyndar og að það eigi að nota í sambandi við þetta mál.

Það mætti halda langar ræður í sambandi við iðnþróunarmál almennt og þann iðnað, sem er á Vesturlandi, og þann iðnað, sem þarf að koma upp á Vesturlandi, en ég sleppi því hér. Ég vil aðeins vekja athygli á einu stóru máli, sem mikill áhugi er fyrir á Vesturlandi, og það er í sambandi við perlustein. Þetta er af mörgum fróðum mönnum talið vera mál sem þarf að reyna að hrinda fram. Hér gæti orðið um stóriðju að ræða og um öflugan útflutningsiðnað örugglega, ef rétt er á haldið. Þarna þarf að koma til stórt átak, miklar samræmdar aðgerðir bæði héraðsmanna og ríkisvaldsins. Hér er e.t.v. um stærra mál að ræða en hér hefur komið fram, og ég treysti því að í sambandi við þá athugun, sem við væntum að verði sett í gang ef þessi þáltill. verður samþ., verði ekki hvað síst þessi þáttur tekinn sérstaklega fyrir, því að hér er um nýtt mál að ræða sem hefur vakið athygli víðs vegar um heim þar sem þetta hefur verið kynnt.

Ég vil svo endurtaka þakkir fyrir þessar undirtektir og vænti þess, að þessi þáltill. fái greiðan gang í gegnum hv. Alþingi.