31.01.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

36. mál, samvinnufélagalög

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Mig langar að biðja um að það sé hringt svolítið fastar, a.m.k. að samflokksmenn hæstv. forseta verði hér einhverjir staddir, þeir hafa stundum tekið þátt í umr. um þetta mál. - Úr því að það ber ekki árangur, þá skal ég byrja.

Ég flyt hér till. til þál. um ný samvinnufélagalög. Þessi till. var flutt seint á þingi í fyrra og varð ekki útrædd og er nú endurflutt. Eins og menn vita, hafa verið hér á Alþ. samþ. ný hlutafélagalög sem tóku að fullu gildi um s.l. áramót. Um íslenskan félagarétt er það að segja, að það var ör þróun í þeim efnum á fyrstu áratugum aldarinnar og gjarnan fylgdist að endurskoðun eða setning laga um hlutafélög og samvinnufélög, enda eru þessi félagaform að mörgu leyti skyld og ætti að vera kannske skyldari framkvæmd í því efni en raun hefur á orðið. En mönnum var sem sagt ljóst fyrir löngu að gömlu hlutafélagalögin frá 1921 voru ekki fullnægjandi miðað við aðstæður í dag. Sama er að segja um samvinnufélagalögin, sem eru raunar frá 1937, en að stofni til þó miklu eldri. Það er margt sem þyrfti að breyta í þeim lögum, ef samvinnufélög eiga að geta þróast með eðlilegum hætti.

Nýju hlutafélagalögin voru í undirbúningi alllengi, mörg ár. M.a. var höfð samvinna við nefndir þær sem störfuðu í Svíþjóð, Noregi og Danmörku að endurskoðun hlutafélagalaga þeirra landa, og fulltrúar héðan sátu fundi þessara nefnda í allmörg ár. Loks var svo frv. tilbúið og lagt fyrir Alþingi.

Um þessi nýju lög, sem öðluðust gildi nú um áramótin, kemst dagblaðið Tíminn svo að orði einmitt í dag, með leyfi forseta:

„Um áramót gengu í gildi ný lög um hlutafélög og féllu þá jafnframt úr gildi fyrstu íslensku hlutafélagalögin frá 1921. Í nýju lögunum eru fjölmargar breytingar og nýmæli, t.d. um stofnun hlutafélaga, hlutafé, stjórnun, endurskoðun ársreikninga, arðsúthlutun, varasjóðsskyldu, félagsslit og skráningu hlutafélaga, sem verður nú á einum stað fyrir allt landið. Hlutafélög, er stofnuð hafa verið fyrir gildistöku laganna, skulu á fyrsta aðalfundi eftir gildistöku þeirra samræma félagssamþykktir sínar ákvæðum laganna. Í lögunum eru fjölmörg ákvæði sem mæta fyrir um tilkynningar til hlutafélagaskrár strax eða innan ákveðins frests. Getur vanræksla á því haft ýmis óheppileg réttaráhrif, segir í frétt frá viðskrn.

Í framsöguræðu Ólafs Jóhannessonar fyrir frv. því, sem nú er orðið að lögum, gat hann þess, að stundum hefði verið haft á orði að í hlutafélögum ætti sér stað ýmis fjármálaleg misnotkun og jafnvel spilling. Formið væri haft að hálfgerðu yfirvarpi og væri misnotað. Talað hafi verið um gervihlutafélög í sambandi við smáhlutafélög í eigu einstakra fjölskyldna sem tíðkast hafi bæði hér og erlendis. Af þessu hafi sumir fengið hálfgerðan ímugust á þessum fyrirtækjum. Ólafur lagði ekki dóm á hvort þetta ætti við rök að styðjast, en það drægi þó síst úr því að lögin um hlutafélög væru endurskoðuð. Frumhlutverk hlutafélagalöggjafar hefði verið að gera hlutafélagaformið að eftirsóknarverðu réttarformi fyrir atvinnustarfsemi. Upphaflega ástæðan fyrir vali þessa forms fyrirtækja væri að safna fjármagni frá mörgum aðilum á einn stað til að ráðast í atvinnurekstur sem einstaklingum væri ofviða. Hérlendis væri þó meginhluti hlutafélaga svo smár, að nauðsyn á samsöfnun fjármagns hafi tæpast ráðið vali á þessu réttarformi. Ætla mætti að sú takmörkun ábyrgðar, sem fylgdi hlutafélagsforminu, vægi oft þungt á metunum þegar þetta félagsform væri valið.

Í lok ræðu sinnar sagði Ólafur, að í frv. væri að finna mörg nýmæli og miklu fyllri ákvæði en í gildandi lögum. Með þessu væri stefnt að því að koma í veg fyrir að þetta réttarform gæti verið misnotað og enn fremur að tryggja það, að réttar upplýsingar væru fyrir hendi varðandi þessi félög, svo og um vernd minni hluta og um vernd lánardrottna.“ Hér lýkur þessari tilvitnun í Tímann.

Það er vissulega rétt, að þessi nýja löggjöf um hlutafélög er mjög merk löggjöf. Frv. sem slíkt stefndi til mikillar réttarbótar, en í meðförum Alþingis voru þó gerðar á því, ef ég man rétt, 60–70 breytingar. Höfuðbrtt. voru fluttar af fjh.- og viðskn., og mér er nær að halda að í seinni tíð hafi ekki um annað mál verið fjallað meir og ítarlegar í þingnefnd en einmitt þetta mál, því að n. héldu mjög marga fundi um málið og einstakir nm. unnu mjög mikið starf. Sannleikurinn er raunar sá, að í þessum brtt., sem Alþ. samþykkti, eru fólgin mikilvægustu ákvæði frv. og núgildandi laga, einmitt um minnihlutavernd, um bann við hömlum á meðferð hlutabréfa — sem hafa gert það að verkum að félög, sem eiga að vera opin, hafa stundum verið lokuð í raun — um margfeldis- eða hlutfallskosningar sem skylt er að viðhafa í félögunum ef lítill minni hluti krefst þess. Fullkomin lýðræðisleg löggjöf er því hér á ferðinni og opin hlutafélög eiga að geta starfað með heilbrigðum hætti, gagnstætt því sem því miður hefur orðið raunin á um mörg félög hérlendis.

Menn hafa ekki áttað sig á því enn þá, hve mikilvæg þessi löggjöf um hlutafélög er. En enginn efi er á því, að hún á eftir að bera ríkulegan ávöxt á allra næstu árum, þegar menn átta sig á að nú ber að reka hlutafélög með öðrum hætti en áður hefur verið og gæta fyllsta réttlætis og fyllsta lýðræðis. Og það ánægjulega gerðist, að full samstaða var með öllum nm. í báðum fjh.- og viðskn. Alþingis um afgreiðslu þessa máls og allra brtt. Menn vildu sem sagt í eitt skipti fyrir öll skapa grundvöll fyrir heilbrigðum rekstri hlutafélaga.

Skoðun mín er sú, að samvinnufélögin, samvinnuhugsjónin eigi skilið að fá svipaða umfjöllun, því að svo sannarlega er ekki síður þörf á umbótum í rekstri samvinnufélaga en verið hefur í rekstri hlutafélaga. Raunar hafa forustumenn samvinnufélaga gert sér grein fyrir þessu, og m.a. er vitnað til þess í grg. með till., að forstjóri Sambands ísl. samvinnufélaga, Erlendur Einarsson, hafi þegar árið 1972 hreyft því, hver nauðsyn það væri að gera breytingar á þessari löggjöf, þótt því miður hafi frumkvæði skort af hans hálfu síðan og þeirra sem kalla sig samvinnumenn. Það hefur því miður ekkert verið gert til þess að koma hreyfingu á þetta mikilvæga mál. Ýmis hlutafélög verður nú að endurskipuleggja lögum samkv. og samvinnufélögin þyrfti svo sannarlega að endurskipuleggja líka, og þá þarf nýja löggjöf sem auðvitað yrði samin í samráði við forustumenn samvinnuhreyfingar. Ef þörf var á breytingum í hlutafélögum, þá er nauðsyn á breytingum í ýmsum samvinnufélögum.

Menn veita því kannske athygli, að í till. er talað um samvinnufélög og samvinnusambönd. Sumir halda að Samband ísl. samvinnufélaga sé samvinnufélag. Svo er ekki, það er samvinnusamband. Það uppfyllir engin þeirra meginskilyrða, sem þegar á dögum Rockdale-vefaranna voru sett fyrir því, að félag gæti heitið samvinnufélag, og það uppfyllir ekki heldur þau skilyrði, sem í íslenskum lögum eru sett fyrir því, en í 3. gr. laga nr. 46/1937 eru talin upp nokkur aðaleinkenni á skipulagi samvinnufélaga. Þar er t.d. í 1. lið sagt, að aðgangur sé frjáls fyrir alla að fullnægðum ákveðnum skilyrðum. Þetta er auðvitað ekki hjá Sambandinu. Atkvæðisréttur sé jafn, þannig að hver félagsmaður hafi eitt atkv. Það er auðvitað ekki heldur. Í 4. lið segir, að tekjuafgangi af ársreikningi félagsins skuli úthlutað eftir viðskiptamagni hvers um sig, og í 5. lið, að í stofnsjóð leggist sem séreign hvers félagsmanns þetta eða hitt. Þetta eru auðvitað ekki einkenni á Sambandi ísl. samvinnufélaga. Þar með er ekki sagt að það þurfi endilega að vera óeðlilegt, að samvinnusambönd séu til. Þau geta átt rétt á sér svo sannarlega og eru sjálfsagt nauðsynleg. En það verður að koma einhverju skipulagi á slíkan félagsskap og gæta þess, að þar sé þó a.m.k. einhver vottur af lýðræði og að félagsmenn í samvinnuhreyfingu hafi þar áhrif.

Ég skal ekki, herra forseti, fjölyrða um þetta mál. Ég á von á því, að þm. allir hljóti að styðja það að endurskoðun fari fram á þessari gömlu löggjöf, alveg eins og á löggjöfinni um hlutafélög, og er þess raunar fullviss, að meðhöndlun þessa máls geti orðið með sama hætti og meðhöndlun hlutafélagalöggjafarinnar, að þar geti náðst víðtæk samstaða um að tryggja það, að þetta félagsform sé á réttum stalli í þjóðfélaginu og þar ríki lýðræði og þessi félög geti blómgast til hagsbóta fyrir félagsmenn og landsmenn alla.