18.12.1979
Neðri deild: 4. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

32. mál, eftirlaun til aldraðra

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti, hv. deildarþm. Ég vil fyrir hönd míns flokks lýsa því yfir, að að mörgu leyti fögnum við þessu framkomna frv. um eftirlaun til aldraðra, en ég hlýt að gera tvær aths. við það sem fram kom í máli hæstv. heilbr.- og trmrh. áðan.

Í fyrsta lagi, ef ég misskildi ekki mál ráðh., kom það fram, að hann gerði ráð fyrir að þeir, sem koma til með að njóta þessara eftirlauna, fái jafnframt óskerta tekjutryggingu. Ef svo ætti að vera hlýtur að þurfa að gera breytingu á 19. gr. laga um almannatryggingar.

En það er kannske annað sem ég hef meiri áhyggjur af, eins og 1. þm. Vestf. kom reyndar inn á áðan, og það er fjármögnun þessara eftirlauna. Mig langar að gera lítillega grein fyrir hvernig útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs skiptust á árinu 1978, ef það mætti aðeins lýsa þeim erfiðleikum sem sjóðurinn hlyti að lenda í ef þetta yrði að lögum án þeirra hliðarráðstafana sem hér hefur verið talað um.

Árið 1978 varð hlutur atvinnuleysisbóta úr sjóðnum 27% af öllum útgjöldum sjóðsins, eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum voru 26%, kauptrygging 5%, en fæðingarorlof 36%. Þetta gerir samtals 94% af útgjöldum sjóðsins. Þá eru eftir smámunir eins og framlag til Kjararannsóknarnefndar o.fl. Er því afar erfitt að sjá hvernig sjóðurinn á hugsanlega að bæta á sig nýjum útgjöldum. Minna má á tilgang Atvinnuleysistryggingasjóðs, sem byggir á samningi atvinnurekenda og launþega um að greiða sameiginlega í sjóð til þess að tryggja bætur ef ekki er hægt að útvega launþegum vinnu.

Mér er alveg ljóst, að hæstv. heilbr.- og trmrh. er einlægur í þeim vilja sínum að þetta frv. verði að lögum, og það erum við kannski öll. En ég hlýt að minna á það, að hann lofaði því beinlínis áðan, að tryggt yrði að almannatryggingar tækju við greiðslu fæðingarorlofs. Til þess að menn átti sig ofurlítið á stærð þess máls er rétt að upplýsa að 30. sept. á þessu ári var upphæðin, sem greidd hafði verið í fæðingarorlof úr Atvinnuleysistryggingasjóði, 515 millj, kr. og er áætluð um 750 millj. á þessu ári, svo að hér er um veruleg útgjöld að ræða. Og ef ég misskil ekki það sem stendur í framlögðu fjárlagafrv. fæ ég ekki séð að gert sé ráð fyrir þessum útgjöldum þar. Ég vona að það verði ekki talin óeðlileg tortryggni að óska eftir frekari upplýsingum um við hverju megi búast í því efni, hvort sé alveg öruggt að við sjáum fyrir endann á þessum útgjöldum á öðrum stað, þ.e. vegna fæðingarorlofs. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni, að mér finnst þessar greiðslur ekki verkefni Atvinnuleysistryggingasjóðs. Eins og hv. 1. þm. Vestf. minntist á áðan, er ástæðan fyrir þeim mótmælum, sem fram komu hjá verkalýðshreyfingunni, auðvitað sú, að hreyfingin telur þetta ekki verkefni Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég held að það verði að koma skýrt fram. Og ég taldi skyldu mína að lýsa þeirri skoðun minni hér, þar sem ég á sæti í heilbr.- og trn. sem væntanlega fær málið til meðferðar. Ég mun að sjálfsögðu greiða því atkv. að málið verði sent til 2. umr. En ég óska eftir að hæstv. heilbr.- og trmrh. skýri fyrir okkur hversu öruggt það er, að þessir fjármunir komi í kassa Tryggingastofnunar ríkisins.

Það skal upplýst að lokum, að tekjuafgangur Atvinnuleysistryggingasjóðs skv. rekstrarreikningi var að vísu 1.7 milljarðar á árinu 1978, en af því verður sjóðurinn að kaupa verðbréf skv. sérstökum lögum fyrir nær allt framlag ríkisins eða 1 milljarð.

Að öðru leyti fagna ég að sjálfsögðu þessu framkomna frv. og mun styðja það, ef fjármunir til þeirra greiðslna sem hér eru lagðar á Atvinnuleysistryggingasjóð, verða einhvern veginn tryggðir og helst verði þeir peningar fundnir annars staðar.