31.01.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

72. mál, sveigjanlegur vinnutími hjá ríkisstofnunum

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 4. landsk. þm., Salome Þorkelsdóttur, að flytja á þskj. 107 till. til þál. um sveigjanlegan vinnutíma hjá ríkisfyrirtækjum og ríkisstofnunum. Með leyfi forseta hljóðar þáltill. á þessa leið:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj.

1) láta kanna, að hve miklu leyti sé hægt að koma við sveigjanlegum vinnutíma starfsmanna ríkisfyrirtækja og ríkisstofnana og

2) koma slíkri vinnutilhögun á, þar sem slíkt þykir henta.“

Í upphafi grg. segir: „Þessi ályktunartillaga var áður flutt á 100. löggjafarþinginu, en náði þá ekki fram að ganga. Flm. voru Friðrik Sophusson og Ragnhildur Helgadóttir. Í grg. sagði þá nánast orðrétt:

Í stefnuyfirlýsingu Sjálfstfl. um efnahagsmál, sem kynnt var fyrir skömmu, er í kaflanum um kjaramál komist svo að orði m.a.: „Kaupmáttur á vinnustund verði aukinn með sveigjanlegum vinnutíma, starfshvatningu og hagræðingu.“

Með stefnuyfirlýsingunni um sveigjanlegan vinnutíma leggur Sjálfstfl. áherslu á mikilvægi þess að vinnutilhögun taki sem mest tillit til mismunandi einkaaðstæðna starfsfólks. Þessari þáltill. er ætlað það hlutverk að leggja til við stjórnvöld að þau færi sér í nyt kosti sveigjanlegs vinnutíma, þar sem það þykir henta, þegar tekið er tillit til þjónustuhlutverks stofnana og fyrirtækja annars vegar og haft hefur verið samráð við starfsmenn og stjórnendur þeirra hins vegar“

Ég þarf ekki að fjölyrða mikið um það mál sem hér er til umr. Það urðu um þetta umr. á 100. löggjafarþinginu og þeir, sem þar töluðu, voru á einu máli um ágæti þess. Það er viðurkennt, að kjör manna fara ekki eingöngu eftir launum fyrir þau störf sem unnin eru, heldur einnig eftir aðbúnaði, — aðstæðum og tilhögun allri er varðar vinnuna og vinnustaði.

Svo er komið, að ný fræðigrein er til orðin, sem safnar saman úr mörgum öðrum ýmsum upplýsingum sem snerta vinnuna. Þessi fræðigrein, sem er sjálfstæð, kallast á erlendum tungumálum ergonomina. Það má segja að það, sem hér er til umr., sé lítill hluti af þeirri umr. og þeirri þróun sem átt hefur sér stað víðast í nálægum löndum.

Það er athyglisvert í þessu sambandi, að þróunin varð þó ekki á sama veg hér í þessari álfu annars vegar og í Norður-Ameríku hins vegar. Þar var lögð áhersla á fjögurra daga vinnuviku í stað þess að leggja áherslu á sveigjanlegan vinnutíma. Sú þróun átti sér stað til skamms tíma þegar viðhorf breyttust í Bandaríkjunum. En nú er svo komið, að Bandaríkjamenn hallast frekar að frjálsum og sveigjanlegum vinnutíma í stað þess að leggja fyrst og fremst áherslu á stutta vinnuviku. Þetta kemur fram í ýmsum tölum sem birst hafa í tímaritum og fjalla um vinnumálefni.

Í framsöguræðu minni á 100. löggjafarþinginu gerði ég ítarlega grein fyrir ýmsum rökum og gagnrökum í þessu máli, og ég tel enga ástæðu til þess að endurtaka hér þau atriði. Till. er auðvitað fyrst og fremst tilraun til þess að kynna þau sjónarmið, sem hér eru á ferðinni, benda á reynslu þeirra fyrirtækja, sem þegar hafa tekið slíka vinnutilhögun upp, og láta kanna, hvort hægt sé að koma þessari tilhögun við hjá ríkisfyrirtækjum og stofnunum, en að sjálfsögðu er ekki hægt að gera kröfur til þess, að ríkisvaldið þvingi aðra til að taka upp þessa ráðabreytni.

Ég vænti þess, að í meðförum nefndar verði þetta mál kannað ítarlega, og þá gefst tækifæri til frekari umræðna. Að þessu loknu legg ég til að málið verði sent til hv. allshn.