04.02.1980
Efri deild: 32. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

83. mál, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Í apríl 1978 mælti þáv. heilbr.- og trmrh., Matthías Bjarnason, fyrir frv. til l. um Heyrnar- og talmeinastöð Íslands sem síðar varð að lögum nr. 74 frá 1978. Með lögum þessum var komið á fót sérstakri stofnun, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, og var henni falið að annast hvers konar þjónustu við heyrnarskerta, t.d. prófun heyrnar og úthlutun heyrnartækja og enn fremur að annast sjúkdómsgreiningu málhaltra og halda skrá yfir alla landsmenn sem væru heyrnarskertir og málhaltir. Sé ég ekki ástæðu til þess að tíunda það sem fram kom við umræður á Alþ. í apríl og maí 1978, heldur vísa ég til þess ef þingmenn vildu kynna sér það nánar.

Þrátt fyrir góða viðleitni verður því ekki neitað, að lögin nr. 74 frá 1978, um Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, urðu nokkuð hraðsoðin, enda afgreidd í miklum flýti. Var hérum brýnt mál að ræða, sem æskilegt þótti að veita afgreiðslu þótt stuttur tími gæfist til þess. Samkv. núgildandi lögum rekur ríkið stofnunina og greiðir sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins 90% rekstrarkostnaðar, en sveitarfélögin 10%. Var þetta gert í samræmi við þær reglur, sem sjúkratryggingadeildin greiddi eftir til sjúkrahúsa, auk þess sem sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunarinnar hafði greitt allan þann kostnað sem ríkið greiddi vegna heyrnartækja og annarra hjálpartækja fyrir heyrnarskerta.

Nú hefur komið í ljós að þetta er ákaflega erfitt í framkvæmd. Samband ísl. sveitarfélaga hefur lýst yfir óánægju með þessa skipan mála, og enn fremur hafa aðrir aðilar lýst yfir óánægju út af þessu sérstaklega. Samkvæmt lögunum var ætlast til að ríkið ætti stöðina, þannig að eignaraðild og rekstraraðild fóru ekki saman. Með hliðsjón af fenginni reynslu tel ég eðlilegast að rekstur stöðvarinnar verði alfarið í höndum ríkisins, þannig að eignaraðild og rekstraraðild fari að fullu saman. Það er fyrst og fremst vegna þessa sem frv. þetta er fram komið, auk þess sem með því er reynt að leiðrétta nokkrar misfellur í gildandi lögum og jafnframt reynt að bæta úr öðrum vegna fenginnar reynslu.

Aðrar breytingar eru þær helstar, að lagt er til að úr stjórn stofnunarinnar hverfi fulltrúar Tryggingastofnunar ríkisins og Sambands ísl. sveitarfélaga, þar sem þau eiga ekki lengur hlut að máli verði frv. þetta að lögum. Í stað þeirra er lagt til að Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra og félagið Heyrnarhjálp tilnefni einn fulltrúa hvort í stað eins sameiginlega og enn fremur að Heyrnleysingjaskóli Íslands tilnefni einn. Yrðu fulltrúar í stjórn stofnunarinnar því jafnmargir og áður. Má segja að hér sé um að ræða viðleitni í þá átt að auka áhrif hagsmunaaðila á stjórn stöðvarinnar.

Veigamikið nýmæli er að finna í 5. gr. frv.,.en þar er lagt til að stofnunin annist útvegun á þeim hjálpartækjum sem yfirlæknir hennar úrskurðar nauðsynleg. Nú úrskurðar Tryggingastofnun ríkisins, þ.e. tryggingayfirlæknir, slíkt. Ég sé enga ástæðu til að halda í þetta fyrirkomulag þegar ríkið hefur sett á laggirnar sérstaka stofnun einmitt í þeim tilgangi að sinna þessum málum í heild. Gildandi lög gera ráð fyrir því, að við stofnunina starfi sérstakur yfirlæknir, sérmenntaður í heyrnarfræði, og að hann skuli annast faglega stjórn stofnunarinnar. Er miklu eðlilegra að þessi læknir, sem hefur til þess sérmenntun, ákveði hverjir séu þurfandi fyrir heyrnartæki og önnur hjálpartæki. Á þennan hátt mundu sparast nokkrar upphæðir þar sem vottorð yrðu í þessu tilviki óþörf, svo ekki sé minnst á það hagræði sem slíkt hefði í för með sér fyrir alla sem þurfa að leita til stöðvarinnar. Nú er þessu t.d. þannig háttað, að gefa verður út vottorð, sem kostar rúmar 1700 kr. hvert, til þess að fá rafhlöður í heyrnartæki þar sem rafhlöðurnar kosta ekki nema um 1000 kr. Á grundvelli þessara vottorða metur Tryggingastofnun ríkisins hvort viðkomandi sé í þörf fyrir hjálpartæki. Þátttaka ríkisins í kostnaði vegna slíkra tækja er allmikil og fá vissir hópar tækin greidd að fullu. Á sama hátt fá þessir aðilar öll vottorð greidd þannig að þessi vottorðakostnaður lendir hjá ríkinu. Gróft reiknað nam þessi kostnaður tæpum 2 millj. kr. á s.l. ári samkv. upplýsingum Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar, en þar sem fleiri aðilar úthluta slíkum tækjum, sérstaklega félagið Heyrnarhjálp, er kostnaðurinn samanlagður nálægt 3 millj. kr. Er hér um óþarfakostnað að ræða.

Annað nýmæli er að lagt er til að ráðh. fái vald til að setja reglur um þátttöku ríkisins í kostnaði vegna hjálpartækja fyrir heyrnardaufa og málhalta. Í dag fer tryggingaráð með þetta vald samkv. almannatryggingalögum, tryggingaráð tekur ákvarðanir um það, að hve miklu leyti hið opinbera taki þátt í kostnaði vegna slíkra tækja.

Þótt stöðinni sé skipuð sérstök stjórn valinna aðila, sem eiga að hafa sérþekkingu á þessum málum, hefur hún engin áhrif á þessi mál. Má reyndar færa sömu röksemdir fram fyrir þessu nýmæli og gert er hér að framan í sambandi við yfirlækni stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að stjórn stöðvarinnar geri tillögur um þátttöku ríkisins í þessum kostnaði, og jafnframt er gert ráð fyrir að stöðin sjálf annist allar greiðslur fyrir hönd ríkisins í stað sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins. Á þennan hátt yrðu öll mál, er tengjast starfsemi stöðvarinnar, á einni hendi undir beinni yfirstjórn ráðh. Fjárframlög ríkisins vegna þátttöku í slíku yrðu því að færast frá sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins yfir á Heyrnar- og talmeinastöðina. Kostnaður ríkisins vegna þessarar þátttöku nam á s.l. ári 59.3 millj. kr. Nái þessi breyting fram vinnst ekki bara það sem ég sagði hér að framan, heldur mun álag á starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins minnka, því töluverð vinna er að fara í gegnum öll þau vottorð og þá pappíra sem þessum málum fylgja og koma jafnvel frá stöðinni sjálfri.

Önnur nýmæli, sem einnig er vert að geta, eru þau að lagt er til að ráðh. sé heimilt að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu á vegum stöðvarinnar að fengnum tillögum stjórnar hennar. Hér er lagt til að ótvíræð lagaheimild finnist við töku gjalda svo ekki komi til deilna um slíkt. Það er ekki óeðlilegt að tekið yrði svokallað göngudeildargjald á stöðinni, þó innan þeirra marka að allir þeir aðilar, er hefðu ókeypis tæki eða fengju þau greidd að hluta til, þyrftu ekki að greiða neitt. Ég vil undirstrika það, að hér er eingöngu, eins og ég sagði áður, um að ræða ótvíræða lagaheimild fyrir töku slíks gjalds, þar sem mjög hefur verið á reiki á öðrum stofnunum hvernig beri að standa að slíkum málum.

Að lokum vil ég geta nýmælis eða réttara sagt breytingar sem lagt er til að sett verði inn í lögin, en hún er þess efnis, að lagt er til að fellt verði niður ákvæði um að stofnunin skuli hafa aðsetur í Reykjavík og að ráðh. sé heimilt að stofna deildir í stærstu kaupstöðum landsins þegar fé er veitt til slíks á fjárlögum. Það er í sjálfu sér óraunhæft að kveða á um aðsetur í Reykjavík, enda er þessari stofnun ætlað framtíðarhúsnæði í þegar hönnuðum húsakynnum göngudeildar háls-, nef- og eyrnadeildar Borgarspítalans, en af því verður ekki á næstu árum. Hins vegar hefur stofnunin fengið aðsetur í Reykjavík. Hún er reyndar í dag í húsakynnum Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík, en mun nú innan tíðar flytjast í eigið húsnæði þar sem henni verður gert kleift að starfa við allgóðar aðstæður.

Hvað snertir stofnun deilda í stærstu kaupstöðum landsins, þegar fé er veitt til slíks á fjárlögum, vil ég segja að miklu raunhæfara er að koma slíku inn á þær heilsugæslustöðvar sem nú rísa víða um landið, enda eru ákvæði um heyrnarvernd í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 57 frá 1978, þ.e. 1. tölul.19. gr. þeirra laga, en þar fellur hugtakið heyrnarvernd undir heilsuvernd.

Mér er kunnugt um að stjórn stöðvarinnar hefur þegar hafið samvinnu við heilsugæslustöðvar úti á landi í þessum tilgangi. T.d. mun frá 1. febr. n.k. hefjast skipulegt starf við Heilsuverndarstöðina á Akureyri hvað snertir heyrnarmætingar og úthlutun heyrnartækja.

Að svo stöddu sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um efnisatriði þessa frv. Ég vil hins vegar geta þess sérstaklega, að ákveðið var að leggja fram heildarfrv. þar sem breytingarnar og leiðréttingarnar eru nokkuð veigamiklar og taka nokkurt rúm í prentuðu máli. Að öðru leyti vísa ég til frv. sjálfs og aths. við það. Ein misfella er í frv., þ.e. í síðasta málslið 1. gr., en þar eru nefndir heyrnar- og uppeldisfræðingar. Hið rétta er heyrnar- og taluppeldisfræðingar. Bið ég um að þetta verði leiðrétt í nefnd.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til heilbr.- og trn. og 2. umr.