05.02.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

43. mál, happdrættislán vegna Norðurvegar og Austurvegar

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Sem svar við fsp. hv. 5. landsk. þm. á þskj. 44 um hvað líði framkvæmd laga nr. 28 frá 1978, um happdrættislán ríkissjóðs vegna framkvæmda við Norður- og Austurveg, skal eftirfarandi upplýst:

Hæstv. fyrrv. samgrh. mun hafa talið sig hafa haft loforð þáv. hæstv. fjmrh. fyrir því, að lánið yrði tekið þegar s.l. haust, og jafnframt að nauðsynleg bréf um þetta hefðu gengið milli fjmrn. og Seðlabankans. Þegar til átti að taka reyndist framkvæmd málsins þó skammt á veg komin. Ástæðan mun einkum sú, að Seðlabanki Íslands taldi ekki tímabært að bjóða umrædd happdrættisskuldabréf til sölu og afar tvísýnt um árangur af slíku útboði. Kostnaður Vegagerðarinnar, sem lagður hefur verið út í trausti þess að þetta fé fengist, nam í árslok 1979 um 50 millj. kr., mest til almenns undirbúnings, svo sem mölun efnis. Hefur það mál verið leyst eftir öðrum leiðum.

Ég hef talið það mjög brýnt, að þessi heimild væri notuð, og er þeirrar skoðunar, að enn sé tóm til að nýta útboðsheimild laganna vegna ársins 1979. Munu þess fordæmi, að slíkar heimildir færist milli ára ef ytri mörk eru óbreytt. Ég beitti mér fyrir því, að mál þetta var tekið upp á sameiginlegum fundi samgrn. og fjmrn. með fulltrúum Vegagerðarinnar. Niðurstaða þess fundar varð sú, að bréfin verða öll boðin til sölu og stílað upp á fermingargjafamarkaðinn í vor, ef svo má að orði komast. Jafnframt var það rætt ítarlega, með hvaða hætti mætti gera bréfin sem eftirsóknarverðust. Var í því sambandi m.a. rætt hvort ekki mætti marka andvirði þeirra ákveðnum og tilgreindum slitlagaframkvæmdum í öllum landshlutum. Er það mál nú til athugunar ásamt öðrum skilmálum þessa útboðs.