05.02.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (749)

43. mál, happdrættislán vegna Norðurvegar og Austurvegar

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Það fór eins og mig grunaði, að lítið hefði verið aðhafst í þessu máli á tíma fyrrv. ríkisstj., ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar. Ég ætlast ekki til þess, að núv. ríkisstj. geti mikið í málinu gert, enda situr hún tímabundið og hefur takmarkað ráðrúm. Það er að vísu upplýst hér, að fyrrv. samgrh. hafi haft loforð fyrrv. fjmrh. fyrir því að beita sér í málinu. Við það loforð hefur sýnilega ekki verið staðið. Það er sagt að Seðlabankinn hafi ekki talið tímabært að bjóða þetta lán út og jafnvel tvísýnt um árangur af slíku útboði. Auðvitað er það ekki Seðlabankinn sem á að ráða þessu, heldur Alþingi Íslendinga. Og um árangur af slíku útboði fer að sjálfsögðu eftir kjörum á bréfunum. Það er heimild til að hafa bæði vexti og happdrættisvinninga samkv. þessum lögum. Það er heimilt að verðtryggja þessi bréf, þau eru verðtryggð, eða jafnvel gengistryggja þau. Það var einmitt gert í samráði við fyrrv. samgrh. að hafa heimild til gengistryggingar, og við áttum um það gott samstarf og ég er honum þakklátur fyrir það út af fyrir sig, að hann greiddi fyrir því að þetta mál færi í gegnum Alþingi. En það er ekki nóg að samþykkja lög þegar þau alls ekki eru framkvæmd.

Það er ánægjuefni, að fyrirhugað skuli vera að færa á milli ára, eins og hér var komist að orði af hæstv. ráðh., þannig að stórt útboð geti orðið nú með vorinu, og eins og ég sagði áðan, þá er auðvitað hægt að selja þessi bréf, ef kjörin eru með þeim hætti að þau séu sambærileg við önnur bréf, sem á markaði eru, eða kannske eitthvað örlítið betri.

Ég mundi raunar ætla að eðlilegt væri að taka upp fast happdrætti vegna vegaframkvæmda og í mjög ríkum mæli yrðu boðin út bréf til þessara gífurlega mikilvægu framkvæmda, sem eru kannske það arðvænlegasta sem við getum í lagt í fjárfestingu: að fullgera helstu vegi landsins. Mér er sagt að svo sé þetta eða hafi a.m.k. verið í Vestur-Þýskalandi, að það sé dregið jafnvel viku eða mánaðarlega í slíkum happdrættum. Þetta má auðvitað gera hér á landi alveg eins. Og kannske mætti útvega meginhluta þess fjár, sem þarf í þessa aðalvegi, með þessum hætti ef vel væri að staðið og bréfin væru auglýst og þarna væri um stóra vinninga að ræða og jafnframt kannske einhverja smávægilega vexti. Það er enginn vafi á því, að þetta er mjög vel hægt.

Upplýsingar eru hér gefnar um að í nóvembermánuði s.l. hefði verið hugmyndin að bjóða út kannske 300 millj. Það var talað um 2 milljarða, það er það sem lögin hljóða upp á. Það er alveg ljóst mál að hér hefur ekkert verið gert. Þáv. ríkisstj. hefur svikist um að framkvæma þessi lög, eins og hún sveikst um margt annað, enda má víst fullyrða að það hafi verið versta ríkisstj. sem setið hafi síðan lýðveldið var stofnað. En það eru nú víst horfur á að hún verði kannske bara sú næstversta eftir nokkra daga, því að sagt er að verið sé að mynda ríkisstj. með mjög sérkennilegum hætti, stjórn sem alveg vafalaust ræður ekki við nein verkefni á Alþ. og yrði enn þá verri en vinstri stjórnin síðasta, ef hún þá kemst á laggirnar.