05.02.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

218. mál, búvöruverð

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans við fsp. sem hér var tekin til meðferðar s.l. þriðjudag. En ég held að hans svör og lagaskýringar séu vægast sagt í hæpnasta lagi. Ég veit ekki t.d. betur en ríkisstj. (Ólafs Jóhannessonar hafi komist að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki hægt að leyfa framkvæmd á hluta af því verði, sem Framleiðsluráð færi fram á, og ég geri ráð fyrir að sú ríkisstj. hafi haft á að skipa mönnum sem hafi þekkingu á þessum málum, a.m.k. frekar en sú hæstv. ríkisstj. sem nú situr að völdum. Og ég vil fullyrða það, að í sambandi við verðbindingarlögin 1975 var ekki ætlunin að níðast á einni stétt, eins og hér er gert, heldur ef þyrfti að grípa inn í, þá yrði það að koma svipað yfir allt þjóðfélagið. En það, sem hæstv. ríkisstj. gerði í þessu tilviki, var að ákveða lækkun á kaupi bændanna einna. Og það er náttúrlega sýnishorn af vanþekkingu hæstv. ráðh. á því, hvernig þetta er, þar sem hann spyr í svari sínu m.a., hvort heildsöluaðilarnir eigi að taka á sig lakari fjárhagsafkomu eða hvort þeir geti látið bændur bera fulla ábyrgð á rekstrinum. Veit ráðh. ekki að það eru bændurnir sem reka þetta? Og veit ekki hæstv. ráðh. að þessar vinnslustöðvar skila því verði til bændanna sem eftir er og þar af leiðandi, þegar ekki fæst hækkun á verðinu sem vinnsluhækkuninni í vinnslustöðvunum og dreifingunni nemur, er hvergi hægt að taka það nema af kaupi bændanna. Það er búið að segja þetta oft hér, og af því að hæstv. ráðh. er uppalinn í sveit og ætti að hafa kynnt sér þessi mál, þá hélt ég satt að segja að menn væru farnir að skilja þetta. En því miður, það virðist ekki vera.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta frekar. Þessi fsp. var borin fram í desembermánuði og ég vona að það fari nú að birta til í sambandi við að við fáum fljótlega nýja ríkisstj., þannig að það er óþarfi að eyða tíma Alþingis í að ræða um þessi mál frekar. (Gripið fram í: Heldurðu að birti þá?) Ég held að það birti þá. Ég veit að meira að segja hv. þm. Sverrir Hermannsson trúir því líka.