05.02.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

218. mál, búvöruverð

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég vil skora á hæstv. landbrh. að kynna sér það, hvernig uppgjör fer fram í mjólkursamlögum landsins, því að ég held að hann geti ekki staðið við þau stóru orð sem hér voru látin falla. Ég skal ekki segja það, að ég þekki til allra þeirra uppgjöra, en ég skal með gleði fara með honum í gegnum uppgjör á mjólkurbúi í minni heimasveit. Þar lýtur mjólkurbúið sérstakri stjórn bændanna. Þar er það gert upp á núlli á hverju ári og það sem eftir stendur fer til bændanna. Og þannig hygg ég að muni vera í sérhverju mjólkurbúi. Þetta mjólkurbú greiðir lítillega fyrir þá þjónustu, sem viðkomandi kaupfélag veitir því, og bændur fá allt það fjármagn, sem þar stendur eftir. Þess vegna er öll sú umr., sem hefur orðið af hálfu þeirra Alþfl.-manna að undanförnu, byggð á algerum misskilningi. Áður en þeir ganga lengra í þessari umfjöllun mála vil ég eindregið skora á hæstv. landbrh. að kynna sér þessi mál til hlítar, þannig að hann geti byggt á staðreyndum í sinni umfjöllun.