05.02.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

64. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Fyrirspurnin frá hv. þm. á þskj. 95 hljóðar svo:

„Hvað hefur fjmrn. gert til að undirbúa frv. til breytinga á lögum um tollskrá o.fl., sem geri ráð fyrir niðurfellingu aðflutningsgjalda af aðföngum þeirra iðnfyrirtækja, sem stunda framleiðslu til útflutnings og eiga í beinni eða óbeinni samkeppni við innfluttar vörur?“ Svar mitt fer hér á eftir og hljóðar svo:

Eins og fyrirspyrjanda er kunnugt um var lagt fyrir Alþ. á 100. löggjafarþingi sem 221. mál frv. til l. um breyt. á lögum nr. 120 frá 1976, um tollskrá o.fl., og var hv. fyrirspyrjandi einn flutningsmanna þess. Frv. þetta gerði ráð fyrir veigamiklum breytingum á núgildandi tollskrárlögum, þ.e. að nýr töluliður yrði tekinn upp í 2. gr. laganna um tollfrjálsan innflutning. Þess í stað yrði núgildandi 12. tölul. 3. gr. laganna felldur úr gildi, en hann fjallar um heimild til handa fjmrn. að endurgreiða, lækka eða fella niður gjöld af ýmsum aðföngum til iðnaðar samkv. nánari reglum settum að höfðu samráði við iðnrn. og samtök iðnaðarins. Frv. var tekið til frumathugunar í tolladeild fjmrn. svo og í iðnrn., og töldu viðkomandi starfsmenn beggja ráðuneyta sýnt að í því væri ýmsa vankanta að finna, bæði lagatæknilega, framkvæmdalega og efnislega. Á einum funda fjh.- og viðskn. Nd. gerði ráðuneytisstjóri fjmrn. grein fyrir þessum atriðum.

Nefndin skilaði síðan áliti 15. maí 1979 þar sem lagt var til að frv. væri vísað til ríkisstj. Í framhaldi af fyrrgreindum nál. voru teknar upp frekari viðræður milli starfsmanna tolladeildar fjmrn. og iðnrn. og fundir haldnir í þeim tilgangi að reyna að sníða helstu vankanta af núgildandi löggjöf og semja nýtt frumvarp eða frumvörp um efnið, þannig að best yrði tryggð örugg framkvæmd málsins, eins og segir í nál. Á síðasta fundi þessara aðila, í okt. s.l., var ákveðið að af hálfu iðnrn. yrðu samin frumdrög að hugmyndum um lausn þessa máls, sem síðan yrðu athuguð sameiginlega. Skömmu síðar urðu hins vegar stjórnarslit og höfðu fjmrn. þá ekki borist þau frumdrög sem áformað var að samin yrðu að frumkvæði iðnrn. Samkvæmt upplýsingum frá iðnrn. féll vinna við gerð fyrrgreindra frumdraga niður að mestu leyti við stjórnarslitin. Hins vegar var vinnan endurvakin af núv. hæstv. iðnrh. og vinna sem sé hafin að nýju í des. s.l. Er þess að vænta, að nefnd drög verði send fjmrn. um miðjan þennan mánuð. En rétt er að geta þess, að málið er mjög flókið auk þess að vera stefnumótandi að því er varðar tiltekna þætti viðkomandi innlendum iðnaði.

Að lokum skal þess getið, að á hinn bóginn — hefur verið unnið að því í tolladeild fjmrn., eftir því sem tími hefur gefist til, að endurskoða auglýsingu rn. nr. 284 frá 1978, um niðurfellingu eða endurgreiðslu tolls og sölugjalds af ýmsum aðföngum til samkeppnisiðnaðar, sem í ráði er að gefa út að nýju. Ég tel of snemmt að skýra frá einstökum efnisbreytingum sem komið hafa til orða, en á þessu stigi get ég þó fullyrt að vilji er fyrir því í fjmrn., að ákvæði auglýsingarinnar verði rýmkuð töluvert frá því sem nú er, í samræmi við fengna reynslu en þó innan marka gildandi lagaheimilda. Breytingarnar miða að sjálfsögðu að auknu hagræði og ívilnunum fyrir iðnfyrirtæki í hinum svonefnda samkeppnisiðnaði, og verður lögð áhersla á það af hálfu fjmrn., að breytingar þessar verði samdar eins fljótt og auðið er, þannig að hægt sé að taka afstöðu til þeirra mjög fljótlega.

Ég vona svo að hv. þm. geri sig ánægðan með þetta svar.