18.12.1979
Neðri deild: 4. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

32. mál, eftirlaun til aldraðra

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Ég er innilega sammála hv. 1. þm. Vestf. um að samningar eru samningar og þá ber að virða. Hann spurði hvað liði endurskoðun laga um Atvinnuleysistryggingasjóð. Um það er þetta að segja:

Formaður nefndarinnar tilkynnti mér s.l. vetur — eða s.l. vor — að nefndin væri sigld í strand, ekkert útlit væri fyrir samkomulag og frekari nefndarstörf þýðingarlaus. Í framhaldi af því leysti ég nefndina upp, en fól formanni hennar að setja saman heillegt frv. til l., þar sem tekið væri tillit til sem allra flestra sjónarmiða sem komið hefðu fram í nefndinni. Síðan hafði ég hugsað mér að hafa samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og þá aðra aðila, sem málið snerti, og reyna sem sagt að fá sem allra víðtækast samstarf um þessa breytingu.

Um efni slíks frv. get ég ekki rætt nú. Þó get ég sagt það, að allir eru sammála um að fæðingarorlofið eigi að fara út úr Atvinnuleysistryggingasjóði og yfir á almannatryggingar. Enn fremur eru allir sammála um að bætur sjóðsins verði endurskoðaðar þannig að þær verði verulega rýmkaðar.

Hv. 1, þm. Vestf. minntist einnig á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, hvort honum yrði nægilega bætt aukið álag sem af þessum lógum hlýst. Þátttakan í 2% aukningu söluskatts s.l. haust gerir talsvert betur en að mæta þeim auknu álögum sem nú er verið að leggja á sjóðinn. Hitt er rétt, að það er ekki búið að bæta honum upp að fullu það sem hann tapaði í sept. 1978 þegar söluskattur af matvælum var afnuminn. Það vantar nokkuð á að búið sé að bæta honum það upp, þannig að heildarútkoman er nokkur mínus hjá sjóðnum þó að mestur hluti tapsins hafi verið bættur.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir taldi að að óbreyttum lögum mundi fólk ekki njóta óskertrar tekjutryggingar. Í fyrra kom málið þannig út, að einstaklingur, sem hafði engar aðrar tekjur en þessi eftirlaun sem við erum að tala um hér, hefði haft óskerta tekjutryggingu. Lítils háttar skerðing var aftur á móti hjá hjónum ef þau höfðu bæði rétt í þessum sjóði. Nú er það rétt hjá hv. þm., að eins og tölurnar eru í dag mundi þetta fólk lenda uppi undir þakinu. En á það ber að líta, að þessi mörk, tekjutryggingarmörkin, bæði efri og neðri mörk, eru endurskoðuð, einu sinni á ári, og þau þarf nú að endurskoða og munu þá líklega hækka um nálægt 50%, þannig að þá kemst fólkið aftur undir þessi mörk ef um engar aðrar tekjur er að ræða.

Endurskoðun laga um almannatryggingar er í gangi, gengur kannski ekki nógu hratt. Það er flókið mál, en er í gangi, og líka þar er reiknað með að fæðingarorlofið verði fært frá Atvinnuleysistryggingasjóði yfir á almannatryggingar. Og reyndar er tilbúið frv., sem að því lýtur, og meginefni þess er að allar konur eigi rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs, sem megi að hluta til skipta milli eiginmanns og eiginkonu, og hafi fullar dagvinnutekjur fyrir það tímabil. Atvinnurekandinn á að greiða það, en fær endurgreitt hjá Tryggingastofnun ríkisins sem nemur sjúkradagpeningum. Heimavinnandi konur eigi aftur á móti að fá sjúkradagpeningana eina.

Þetta er auðvitað mikið fjárhagsmál, ekki bara hjá ríkissjóði, heldur líka hjá atvinnurekendum, og þess vegna er verið að ræða það bæði við aðila vinnumarkaðarins og eins innan ríkisstj., þannig að ég get ekki fullyrt hvernig það mál endar. En ég get þó fullyrt það, að allir eru sammála um að þessum auknu álögum á Atvinnuleysistryggingasjóð verði létt af honum. Fyrrv. ríkisstj. gaf út stefnu um það, bókaði það, að hún ætlaði sér að láta allt fæðingarorlofið fara út úr sjóðnum. Núv. ríkisstj. hefur aftur á móti fullyrt — eða fullyrðir í aths. með þessu frv. — að af honum verði létt jafnmiklu og á hann verði bætt. En eins og ég sagði í framsögu verður fæðingarorlofið — það er mitt mat — að fara út af sjóðnum, bæði til þess að auðvelda honum hans almennu störf og til þess að auðvelda honum að rýmka bætur.

Ég vil þakka öllum þeim þm., sem tekið hafa til máls, fyrir góða móttöku, frv., og ég vil endurtaka þakklæti mitt til þingflokksformanna og forseta Alþingis fyrir það, að þeir ætla sér að freista þess að koma málinu í gegn nú fyrir jólafrí.