06.02.1980
Neðri deild: 32. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

80. mál, Lífeyrsjóður sjómanna

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. S.l. mánudag bað ég hæstv. forseta að taka mál þetta af dagskrá. Ég var þá nýkominn erlendis frá. Ég hafði dvalið erlendis í síðustu viku fjóra starfsdaga þingsins í erindum Alþingis. Hann viðhafði þau orð þegar hann tók málið af dagskrá, að það væri vegna þessara erinda minna, sem er mikill misskilningur hjá honum, því ég hafði beðið hann að taka málið af dagskrá að ósk stærsta stéttarfélags sjómanna, sem hafði komið með aths., ekki við frv. sjálft, heldur ósk um frekari breytingar á þessum lögum. (Forseti: Forseti fer ekki eftir óskum þrýstihópa utan þings heldur óskum þm.) Ég tók það fram, að ég hefði óskað eftir því, að málið væri tekið út af dagskrá, og ég er þá ekki frekari þrýstihópur hér inni á hæstv. Alþ. heldur en hæstv. forseti sjálfur. En hann er farinn að kasta að þm. hnútum um borð eins og kollegi hans fyrrum, Goðmundur, og vil ég leyfa mér að láta hann vita það, að ég hef hvorki tafið hæstv. forseta né hv. deild frá stjórnarmyndunarviðræðum eða öðrum þýðingarmiklum störfum á undanförnum dögum eða vikum.

Það mál, sem ég flyt á þskj. 117 með þremur öðrum þm., sem eru úr öllum enn tilheyrandi stjórnmálaflokkum hér á Alþ., er flutt að ósk stjórnar Lífeyrissjóðs sjómanna. Undanfari þess er sá, að í febr. 1979 barst stjórn Lífeyrissjóðsins bréf frá Sjómannasambandi Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands þar sem segir, að á sameiginlegri kjararáðstefnu þessara samtaka í des. 1978 hafi verið samþ. ályktun þess efnis, að unnið skyldi að því að tryggja sjómönnum verðtryggðan lífeyri og lífeyrissjóð eftir 55 ára aldur. Jafnframt var þeim tilmælum beint til stjórnar Lífeyrissjóðs sjómanna, að hún hæfi þegar undirbúning að nauðsynlegri breytingu á lögum sjóðsins sem gerði kleift að tryggja sjómönnum lífeyrisrétt á grundvelli framangreindrar ályktunar.

Stjórn sjóðsins fól Guðjóni Hansen tryggingafræðingi að kanna mál þetta. Hann skilaði síðan áliti varðandi bæði þessi efnisatriði til stjórnar sjóðsins, og þetta frv. er m.a. byggt á áliti hans varðandi þann þátt þessara tilmæta sem varða verðtryggingu lífeyris.

Varðandi hitt atriðið, þ.e. lækkun aldursmarksins, þá er rétt að hér komi fram að tryggingafræðingurinn taldi ekki hægt að verða við þeim tilmælum sem komu fram um það. Hann sagði m.a., með leyfi forseta, að helstu rökin gegn breytingu á núgildandi aldursmarki væru þessi:

Áðurnefnd ályktun um lífeyrismál beinist að lífeyrisréttindum sjómanna almennt. Sjómenn dreifast hins vegar á marga lífeyrissjóði, en hlutfall þeirra af fjölda sjóðfélaga hvers sjóðs er mjög mismunandi. Á hann hér að sjálfsögðu við blönduðu sjóðina. „Er vart hugsanlegt,“ heldur tryggingafræðingurinn áfram, „að almennt aldursmark þessara sjóða verði lækkað niður fyrir 65 ár, enda gæti slík breyting rýrt kjör aldraðra í framtíðinni eða haft í för með sér verulega hækkun iðgjalda til lífeyrissjóða og haft áhrif á stefnu fleiri sjóða en þeirra, sem beinlínis ættu hér hlut að máli.“

Í öðru lagi segir tryggingafræðingurinn svo orðrétt, með leyfi forseta:

„Þótt sjóðfélagar Lífeyrissjóðs sjómanna séu nær einvörðungu sjómenn og e.t.v. þyki ekki ástæða til að taka sérstakt tillit til annarra sjóðfélaga er óhjákvæmilegt að sjóðurinn eigi mikil samskipti við aðra lífeyrissjóði. Verði almennt aldursmark hans mjög frábrugðið því, sem tíðkast hjá þessum sjóðum, torveldar það samskipti, og a.m.k. yrði nauðsynlegt að endurskoða þær reglur sem hingað til hefur einkum verið beitt varðandi flutning réttinda.“

Í þriðja lagi bendir hann á þriðju meginröksemd fyrir því, að hann telur ekki hægt að verða við ósk þessara fjölmennu samtaka, og segir svo orðrétt í hans áliti, með leyfi forseta:

„Rökrétt afleiðing af lækkun hins atmenna aldursmarks væri skerðing örorku- og makalífeyrisréttinda hjá sjóðnum frá því sem nú gildir. Stafar þetta af því, að stig eru áætluð fram í tímann til þess tíma er ellilífeyrisaldri er náð. Við hugsanlega lagabreytingu þyrfti a.m.k. að hafa í huga þetta samhengi milli ellilífeyrisréttinda annars vegar og örorku- og makalífeyrisréttinda hins vegar.“

Varðandi hið fyrra atriði, um verðtryggingu lífeyris, hefur hann lagt til við stjórn sjóðsins og að athuguðu máli hefur hún orðið sammála um að leggja til, að þær breytingar verði gerðar við lögin sem koma fram í frv. því sem hér er til umr., en það fjallar um að bæta við núgildandi bráðabirgðaákvæði þeim ákvæðum, sem koma fram í 1. gr. frv., og jafnframt í 2. gr., að lögin taki gildi frá byrjun yfirstandandi árs.

Ég sé ekki ástæðu til þess að lesa hina skýru grg., sem hér liggur fyrir með frv. og samin er af tryggingafræðingnum Guðjóni Hansen. En til þess að skýra fyrir hv. þm., hvað við er átt þegar í grg. er talað um áunnin stig þeirra sem lífeyrisréttindanna njóta, vil ég segja frá því, að þar er átt við efnisatriði 11. gr. laganna um Lífeyrissjóð sjómanna, en þar segir svo, með leyfi forseta:

„Til grundvallar stigaútreikningi skal reikna fyrir hvert almanaksár árslaun miðuð við fast dagvinnukaup 52 vikur á ári samkvæmt 2. taxta Dagsbrúnar með fullri starfsaldurshækkun. Verði grundvöllur þessi að dómi ráðh. ónothæfur mælikvarði á breytingar á vinnutekjum sjómanna almennt, skal hann að fengnum till. sjóðsstjórnar ákveða annan stigagrundvöll svo og tengingu hans við fyrri grundvöll. Sama gildir ef stigagrundvöllur, sem ákveðinn hefur verið af ráðh., reynist síðar ónothæfur.“

Skal ég ekki hafa fleiri tilvitnanir uppi úr þessari grein, en þetta skýrir hvað við er átt þegar talað er um áunnin stig.

Ég mun ekki hér þó að full og ærin ástæða væri til, rekja sögu þessa sjóðs sem hefur sætt þeirri þróun að verða til vegna samninga sjómanna við sína viðsemjendur og vera staðfestur með lögum á sínum tíma hér á Alþ. og heita þá í byrjun Lífeyrissjóður togarasjómanna, taka þeirri breytingu eftir samninga á seinna stigi að verða Lífeyrissjóður togarasjómanna og undirmanna á farskipum, og svo enn síðar, eftir frjálsa samninga á milli bátasjómanna og útgerðarmanna, að verða Lífeyrissjóður sjómanna.

En það, sem ég gat um hér í byrjun og var ástæðan fyrir því, að ég bað um frestun síðasta mánudag, var ábending frá stjórn Sjómannafélags Reykjavíkur, sem að vísu má kalla þrýstihóp. En það vill svo vel til — og vil ég benda hæstv. forseta á það — að það eru fleiri aðilar sem bentu á þetta atríði og það úr hópi útgerðarmanna líka, sem eiga aðild að stjórn þessa sjóðs, þar á meðal, að mér skilst, félagar hæstv. forseta, og teljast þeir þá til þrýstihóps líka. Þeir hafa bent á það, að sjálfsagt sé að koma inn frekari breytingum að þessu sinni, fyrst verið er að opna þessi lög á annað borð, varðandi rétt eftirlifandi maka sjóðfélaga. Í gildandi lögum um Lífeyrissjóð sjómanna eru miklu þrengri ákvæði en gilda í öðrum lögum og reglugerðum sambærilegra sjóða. Vitna ég þar bæði til reglugerðar fyrir Lífeyrissjóð Dagsbrúnar og Verkakvennafélagsins Framsóknar svo og samræmdrar reglugerðar Sambands almennra lífeyrissjóða, en í báðum þessum tilnefndu reglum segir svo orðrétt, með leyfi forseta, í 13. gr. um makalífeyri:

„Nú lætur sjóðfélagi ekki eftir sig maka, en einstæð móðir hans, ógift systir eða sambýliskona hefur sannanlega annast heimili hans um árabil fyrir andlát hans, og er þá stjórn sjóðsins heimilt að greiða hlutaðeigandi makalífeyri svo sem um ekkju væri að ræða. Á sama hátt er sjóðstjórn heimilt að greiða sambýlismanni lífeyri í samræmi við ákvæði 3. og 4. mgr.

Það er álit fulltrúa frá báðum þessum þrýstihópum, sem eiga aðild að stjórn sjóðsins, útgerðarmönnum — togaraútgerðarmönnum og eigendum — og fulltrúum sjómanna, að ástæða sé til að taka slík ákvæði upp í lögin um Lífeyrissjóð sjómanna, en þar eru, eins og ég sagði áðan, miklu þrengri ákvæði um þetta efni heldur en gilda almennt hjá lífeyrissjóðunum.

Að skoðuðum þessum ábendingum frá félögum mínum taldi ég þó ekki rétt að flytja neina brtt. við eigið frv, á þessu stigi, heldur beina þessu til nefndarinnar sem fær málið til meðferðar. Og það geri ég hér með og vænti þess, að hún taki þetta til athugunar, enda rétt að þessi hugmynd eða þessi till. komi þá til meðferðar sjóðstjórnarinnar í heild áður en Alþ. afgreiðir málið endanlega.

Ég vil leggja til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.